sunnudagur, 8. nóvember 2009

Þegar kórinn syngur falskt...

Það vita það kannski ekki allir, en ef nægur mannskapur er til staðar, sem hefur gott tóneyra, er hægt að syngja fjögur lög samtímis þannig að hljómi undurvel.
Lögin eru Nú er frost á fróni, Undir himins bláum boga, Ó, minn kæri Ágústín, og Væri ég orðinn ógnar langur áll.
Sumir hafa kallað þennan samsetning Tyrkjamessu.

Í augnablikinu er ég stödd hjá börnunum mínum í Englandi og við vorum í miklu söngstuði í gær. Gerðum tilraun með þetta, sem lukkaðist ekki sérlega vel ef ég á að vera hreinskilin.
Enda, sem fyrr segir, ekki auðvelt.
Ef illa tekst til hljómar söngurinn hroðalega.

Við gáfumst upp eftir nokkrar tilraunir og reyndum keðjusöng í staðinn. Hann gekk reyndar ágætlega, en breskur tengdasonur minn, sem ekki kunni lagið, sagði skyndilega:
“Af hverju byrjið þið ekki öll í einu? Það er mun auðveldara. Ég skal telja ykkur inn í lagið...”
Við hlógum hjartanlega að þessum breska húmor.

Ég hef ekki bloggað hér síðan skömmu eftir hrun. Fann fljótlega að menn sungu hver með sínu nefi, hver sitt lag, og útkoman var síst betri en samsöngurinn okkar á “Tyrkjamessunni” í gær.

Þar sem ég kunni ekki “Kreppulögin” þótti mér eðlilegast að draga mig í hlé.

Nú eru tæplega fjórtán mánuðir liðnir og enn er ég ekki liðtæk í kórinn. Finnst lagavalið vont, heyri stanslaust falska tóna og hlusta á menn fara út af laginu dag eftir dag.

Í Silfrinu áðan var rökstutt hvernig Hæstiréttur klúðraði máli Bjarna Ármannssonar. Á sama tíma sagði stjórnmálakona engilblíðri röddu að allra síst mættum við missa trú á íslenskt dómskerfi, íslenskar stofnanir, íslenska endurreisn, o.s.frv.
Aftur skar í hlustirnar. Þjóðarkórinn syngur falskt og það er enginn kórstjóri sjáanlegur sem gefur tóninn eða velur lögin.

Ég bara nenni þessu ekki lengur. Er næstum hætt að hlusta. Og viðurkenni vanmátt minn, sem er algjör.
Ég ætla samt ekki að láta siðlausa og gegnumspillta glæpamenn ræna mig allri sálarró. Þetta er helvítis fokking fokk, en maður getur bloggað fyrir því.
Bara um eitthvað annað...