![](https://blogger.googleusercontent.com/img/b/R29vZ2xl/AVvXsEjYLo_fCmbVIGHmODkzXtyAgHVkzKP_NgGpRw7llaEzKwf86_KWcEOrKkjPxVhv8qE3w-VSw0elTG1BWueYDi4f0YwCT6mQ11f_oyRA4hpf-6kWfpbM0mXIQC5siY44_0R34uVdoIULQEAB/s200/spann+826.jpg)
![](https://blogger.googleusercontent.com/img/b/R29vZ2xl/AVvXsEjZuwedWJ0ackE8iC-EOXISPB3OipvYnqhezprTEoCRF5IkZFNOKPA5CTGDvL0qsyps4KDm7YOMuyubwnIaTmOWvYIzNW4CA2LJSxZ4qZ3L5rMaHnJ25Ydg80UtBwxZqqy5uoia3Ijjlbwv/s200/spann+805.jpg)
17. maí.
Það er við hæfi á þjóðhátíðardegi Norðmanna að mæra þá örlítið.
Þegar ég skildi við ykkur síðast vorum við Halla á leið til Antonios, sem hugðist sýna okkur hvernig Spánverjar heilla konur.
Nú kemur smá aukasaga, en málið er að ég er með hið svokallaða "karlakórsheilkenni". Það lýsir sér þannig að í hvert skipti sem þrír eða fleiri karlakórsmenn hefja upp raust sína er ekki hægt að þoka mér af flekknum.
Nú vill svo einkennilega til þegar við erum í heimsókn á hótelinu hans Antonios að norskur karlakór sest í sófasettið og hefur að æfa norska ættjarðarsöngva og sálma.
Ég var samstundis heillum horfin.
Eigum við ekki að fara að koma? spurði Antonio.
Jú, bráðum, sagði ég. Finnst þér þetta ekki guðdómlegt?
Grunt, sagði Antonio.
Hálftíma seinna: Hvað um að fara núna? spyr Antonio.
Jú, jú segi ég.
Þegar karlarnir hætta að syngja fer ég og spjalla við þá og verð að segja að í ofanálag við geðveikar raddir voru þeir ferlega sætir. Já, ég hef sennilega aldrei séð jafn marga flotta Norðmenn í einu.
Finnst þér norrænir víkingar með tagl flottir? spyr Antonio.
Ég hef aldrei verið hrifin af karlmönnum með tagl, en segi samt já.
Til að teygja ekki lopann frekar með þetta þá áttum við svo prýðistíma með Antonio sem fékk koss á kinnina í lokin eins og til stóð.
Halla vinkona er farin heim en skildi mig eftir með flensu svo ég lá undir laki með bleikar töflur innan seilingar. Ég hef reyndar aldrei á ævinni séð janf bleikar töflur. Pilar sagði að þetta væru mildar höfuðverkjatöflur en mér fannst þær minna grunsamlega á getnaðarvarnarpilluna sem ég át fyrir ótrúlega margt löngu. Hvað sem því líður er ég nú loksins upprisin.
Örfá orð um heimferð Höllu:
Við höfðum beðið Pilar að panta bíl klukkan átta að morgni. Þegar við komun niður voru allir í fasta svefni og enginn bíll. Við biðum nokkra stund en þokuðum okkur svo út á veg til að húkka bíl. Það gekk eftir þrjú korter svo við vorum allt of seinar á járnbrautarstöðina.
Þegar Halla kom á flugvöllinn í Sevilla var flugvélin ekki farin en búið að loka. Hún fékk svo far með einhverju flugfélagi til Barcelona og þaðan til Stanstead þar sem hún átti að ná vélinni heim. Það var hins vegar tómur misskilningur, hún kom ekki á Stanstead fyrr en löngu eftir að vélin var farin og þurfti að hanga á flugvellinum til morguns.
Aumingja Halla. Hún er ekki ferðavön og var að fara á límingunum. Þið getið svo rétt ímyndað ykkur hvað þetta hefur kostað.
Nú ætti lífið að vera komið í fastar skorður, í kvöld nær patio-hátíðin hámarki svo það verður flamengo fyrir frúna.
Ég gæti samt alveg eins hugsað mér norskan karlakór, en það rætist kannski þegar ég fer á ráðstefnu í Hell í Noregi nú í júní:)