sunnudagur, 8. nóvember 2009

Þegar kórinn syngur falskt...

Það vita það kannski ekki allir, en ef nægur mannskapur er til staðar, sem hefur gott tóneyra, er hægt að syngja fjögur lög samtímis þannig að hljómi undurvel.
Lögin eru Nú er frost á fróni, Undir himins bláum boga, Ó, minn kæri Ágústín, og Væri ég orðinn ógnar langur áll.
Sumir hafa kallað þennan samsetning Tyrkjamessu.

Í augnablikinu er ég stödd hjá börnunum mínum í Englandi og við vorum í miklu söngstuði í gær. Gerðum tilraun með þetta, sem lukkaðist ekki sérlega vel ef ég á að vera hreinskilin.
Enda, sem fyrr segir, ekki auðvelt.
Ef illa tekst til hljómar söngurinn hroðalega.

Við gáfumst upp eftir nokkrar tilraunir og reyndum keðjusöng í staðinn. Hann gekk reyndar ágætlega, en breskur tengdasonur minn, sem ekki kunni lagið, sagði skyndilega:
“Af hverju byrjið þið ekki öll í einu? Það er mun auðveldara. Ég skal telja ykkur inn í lagið...”
Við hlógum hjartanlega að þessum breska húmor.

Ég hef ekki bloggað hér síðan skömmu eftir hrun. Fann fljótlega að menn sungu hver með sínu nefi, hver sitt lag, og útkoman var síst betri en samsöngurinn okkar á “Tyrkjamessunni” í gær.

Þar sem ég kunni ekki “Kreppulögin” þótti mér eðlilegast að draga mig í hlé.

Nú eru tæplega fjórtán mánuðir liðnir og enn er ég ekki liðtæk í kórinn. Finnst lagavalið vont, heyri stanslaust falska tóna og hlusta á menn fara út af laginu dag eftir dag.

Í Silfrinu áðan var rökstutt hvernig Hæstiréttur klúðraði máli Bjarna Ármannssonar. Á sama tíma sagði stjórnmálakona engilblíðri röddu að allra síst mættum við missa trú á íslenskt dómskerfi, íslenskar stofnanir, íslenska endurreisn, o.s.frv.
Aftur skar í hlustirnar. Þjóðarkórinn syngur falskt og það er enginn kórstjóri sjáanlegur sem gefur tóninn eða velur lögin.

Ég bara nenni þessu ekki lengur. Er næstum hætt að hlusta. Og viðurkenni vanmátt minn, sem er algjör.
Ég ætla samt ekki að láta siðlausa og gegnumspillta glæpamenn ræna mig allri sálarró. Þetta er helvítis fokking fokk, en maður getur bloggað fyrir því.
Bara um eitthvað annað...

sunnudagur, 11. janúar 2009

Glundroðinn ytra og innra

Þetta er glórulausir tímar. Í svartsýnisköstunum þykir manni ekki bara sem Ísland sé á heljarþröm, heldur heimurinn allur.
Þegar bráir af manni veit maður ekki sitt rjúkandi ráð.

Ýmist aðhyllist maður friðsamleg mótmæli, sem skila þó trúlega engu, eða allsherjar byltingu.

Persónulega missi ég ítrekað þráðinn í nýjum skandölum sem ríða yfir nánast daglega og finnst að ekkert sé raunverulegt nema sjálfur glundroðinn.

Enn heyrast bjartsýnisraddir gegnum svartnættiskórinn, en ég hef tilhneigingu til að halda að þar fari fólk í afneitun.
Verst er þó tilfinningin um að ekkert muni breytast til hins betra. Gullfiskaminni þjóðarinnar verði þrátt fyrir allt ofaná og eftir nokkur ár verði allt gleymt.

Persónulega þekki ég margt fólk sem er óöruggt og kvíðið. Upplifir sig eitt og ráðalaust. Sjálf reyni ég í örvæntingu að trúa á tvennt í heimi, guð í alheimsgeimi og guð í sjálfri mér. Missi svo trú á hvoru tveggja í næstu andrá.

Segi samt eins og Sting í laginu “O my God”:

“Everyone I know is lonely
and God’s so far away
and my heart belongs to no one
so now sometimes I pray;
please take the space between us
and fill it up some way.”

mánudagur, 8. desember 2008

Þetta er neyðaraðvörun, ég endurtek......þetta er neyðaraðvörun.

Nei, þetta tengist Íslandi ekki neitt, aldrei þessu vant.

Við mæðgurnar vorum á leið í neðanjarðarlest í London þegar skyndilega kvað við í kallkerfinu:

"This is an emergency announcement, everybody must leave this station immediately, I repeat.... "


Það skipti engum togum, móðirin tók stigann í tveimur stökkum og henti sér lárétt inn í lest sem stóð við brautarpallinn.

Á elleftu stundu, þegar hurðin var í þann veginn að lokast, kom dóttirin (27 ára) hlaupandi og tróð sér inn í vagninn. Hún klemmdist í hurðinni en tókst með harðfylgi að losa sig og stóð svo fyrir framan móður sína, eitt spurningarmerki.

“Ætlaðirðu að skilja mig eftir?”

(Úps!)

“Nei, ert’eitthvað verri? Ég hélt þú værir alveg á hælunum á mér.”

Við fengum aldrei skýringu á hver neyðin var á brautarstöðinni, en þetta rifjaði upp fyrir okkur annað atvik sem gerðist fyrir nokkrum árum þegar við bjuggum í Englandi.

Ég var vön að keyra Önnu Lilju, umrædda dóttur, í skólarútuna á morgnana.
Einn morguninn kvaddi ég hana að venju með kossi og knúsi og rak svo bílinnn í gír um leið og hún steig út.
Bíllinn tók kipp og það var með naumindum að henni tókst að víkja sér undan.
Hún sagði mér þegar hún kom heim úr skólanum að bílstjóranum hefði þótt þetta skrýtið:

“Mikið var þetta einkennilegt. Fyrst kyssir hún þig og knúsar og svo reynir hún að keyra yfir þig.”
Sagði bílstjórinn.

Hm.

“So much for the greatest love of all,” segi ég nú bara og skammast mín smá.

En bara smá, því ég elska hana af öllu hjarta og hún veit það vel.

Við áttum yndislegan dag í London, fórum í Jólalandið í Hyde Park (soldið mikið túrista en okkur var alveg sama), hlustuðum á klassíska tónlist í Covent Garden og gengum glaðar í gegnum Soho í mannþrönginni.

Íslenskt efnahagsklúður víðs fjarri og jólaljósin og kátína mannfólksins í London það eina sem skipti máli.

Er á meðan er.

Sé í fréttunum að ástandið heima versnar bara - ef eitthvað.

Tekst á við það þegar ég kem heim eftir viku.

Myndin er af Önnu Lilju í Jólalandinu.
miðvikudagur, 3. desember 2008

Heil þjóð beitt heimilisofbeldi

Stödd í Englandi, fjarri Íslandsströndum, fylgist ég, eðli málsins samkvæmt, með framvindu mála heima og finn hvernig depurðin og reiðin hafa náð tökum á mér.
Sem betur fer er það bara hluti tilfinningaskalans, því litlum eins og hálfs árs gleðigjafa, sem enn hefur ekki hugmynd um synd heimsins, tekst að vekja hjá mér fögnuð daglega með geislandi brosi og ótrúlegum uppátækjum.
Hún veit ekki að þegar við syngjum með jólasveinunum “ég á heima á Grátlandi” fæ ég sting í hjartað. Skyndilega hefur þessi sakleysislega setning fengið nýja merkingu.

Ég hlustaði með öðru eyranu þegar lesið var úr forystugreinum dagblaðanna í morgun og hjó eftir að Mogginn fjallaði um mótmæli, en varaði við reiði og æsingi.
Alltaf jafn hófstilltur, Mogginn. Og nú á almenningur að vera hófstilltur líka. Skiptir ekki máli þó einhverjir hafi verið ákaflega óhófstilltir og rústað heilli þjóð.

Það er þekkt að konur sem eru beittar heimilisofbeldi koðna niður undan ofbeldinu. Reiði þeirra er brotin á bak aftur, sökin er þeirra og þá skiptir ekki máli hvort þær hófu sambandið vel menntaðar og fullar sjálfstrausts eða hvort þær komu úr erfiðari aðstæðum. Sjálfsvirðingin fer veg allrar veraldar og eftir situr einstaklingur sem er eins og skugginn af sjálfum sér.

Réttlát reiði hefði kannski bjargað einhverju.

Ég sá breska sjónvarpsmynd fyrir nokkrum árum sem gerðist á tímum kalda stríðsins. Myndin fjallaði um frelsið og sjálfsvirðinguna, um tvær ungar konur, aðra í ofbeldissambandi í Manchester, hina í rússnesku fangelsi þar sem hún sat inni fyrir skoðanir sínar.

Til að gera langa sögu stutta er punkturinn þessi:

Rússnesku stúlkunni tókst að hefja andann upp yfir fangelsismúrana, hún var frjáls því hún átti sannfæringu sem henni var ljúft að verja. Hún var þrátt fyrir allt mun frjálsari en sú breska, sem var brotin niður persónulega dag eftir dag.

Nú hefur íslenska þjóðin í heild verið beitt grófu heimilisofbeldi. Ofbeldismaðurinn gerir eins og hans er von og vísa: Skellir skuldinni á fórnarlambið og heimtar að það haldi stillingu sinni og verði áfram prútt og stillt.
Það er gjörsamlega óraunhæf krafa og vonandi að fórnarlambið haldi áfram að vera bálreitt og baráttuglatt. Annars koðnar það niður og missir alla reisn.

Fjöldi Íslendinga kvíðir jólunum og persónulega hef ég aldrei upplifað áður að hátíðleg jólatónlist, sem ég í örvæntingu hef spilað undanfarið, megni ekki að hefja andann upp yfir reiði- og depurðarmúrinn.

Ég neita samt að gera þetta að jólum þar sem bull, ergelsi og pirra gegna aðalhlutverki.
Heima bíða mín fleiri litlir gleðigjafar sem munu lýsa upp jólin.

Ég mun samt halda áfram að vera reið og eftir áramót geri ég upp við mig í hvaða farveg ég beini reiðinni. Reiði sem er réttlát og allt nema hófstillt.

sunnudagur, 30. nóvember 2008

Ekki meir ekki meir

Fyrst enginn sem er ábyrgur fyrir klúðrinu ætlar að segja af sér ætla ég prívat og persónulega að gera það.
Segja af mér, meina ég.

Eftir að Ísland kom endanlega út úr skápnum sem gjörspillt bananalýðveldi er ekki hægt að búast við að þegnarnir séu þroskaðri en miðlungs bananar í ávaxtaborðinu.

Ég segi mig því hér með úr lögum við þetta skítasamfélag.

Ég er svo pisst og með svo svæsna köfnunartilfinningu að það hálfa væri nóg.

Er í Englandi hjá barninu mínu og barnabarni. Heimsókn sem var skipulögð fyrir mörgum mánuðum.
Á næstum engan pening og það litla sem ég á er nánast einskis virði.

Áður en ég fór út tók ég heila viku í að skoða stöðuna.
Grenjaði höfgum tárum næstum allan tímann.
Var aldrei boðið í “partíið” umtalaða svo ég gat bara grenjað að vild í mínu eigin partíi.

“It’s my party and I cry if I want to....”


Niðurstaðan er þessi:
Það er ekki séns ég geti staðið í skilum lengur.
Ekki séns.

Ekki séns ég borgi skuldir sem krimmar hafa stofnað til.

Nóg var nú samt.

Ekki séns ég sýni umburðarlyndi og skilning.
Ekki séns ég líði það lengur að talað sé niður til mín af spilltum stjórnmálamönnum og siðblindum hagsmunapoturum.
Ekki séns ég kyngi því að fá engar upplýsingar - nema sérhannaðar haugalygar.
Ekki séns ég kyngi meira rugli yfirleitt.

Ekki séns.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Úti er ævintýri - við höfum verið blekkt


Ég held við höfum verði blekkt.

Ég held að jólasveinarnir búi ekkert í Esjunni hjá Grýlu mömmu sinni og öllu hennar hyski.

Ég held þeir láti bara sem þeir fari þangað eftir jól.

Það sem þeir hins vegar gera er að kasta af sér rauðu dulunum og setjast í ráðherrastólana.

Hurðaskellir fer í Seðlabankann.

Svo getur Grýla eins og flestir vita brugðið sér í allra kvikinda líki. Síðast breytti hún sér í Fjármálaeftirlitið og hefur dundað sér við að éta börnin sín allt þetta ár með kvikindislegt glott á vör.

Pörupiltarnir/stúlkurnar geta ekki beðið eftir að íslensku krakkaormarnir setji skóinn út í glugga. Þeir eru nefnilega með glaðning handa öllum. Feitan reikning sem þeir koma með á hverri nóttu.
Aldrei fyrr hefur verið "hó-hó-hó-að" jafn hjáróma.

Og jólakötturinn glottir gráðugur álengdar.

Svo hef ég sterkan grun um að geimfarið sem allir biðu eftir við Snæfellsjökul hér um árið, og skilaði sér aldrei, hafi einmitt komið.

Sumir sögðu að það hefði verið ósýnilegt og sennilega er það rétt.

Geimverurnar tóku sér svo bólstað í útrásarstrákunum. Þess vegna skiljum við hvorki upp né niður í því sem þeir segja eða gera.

Þeir eru frá annarri plánetu.
Við höfum pottþétt verið blekkt.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Tímamótayfirlýsing stjórnmálamanns

Djö... er ég orðin leið á þessari kreppu. Og merkilegt að þjóðin geti ekki einu sinni sameinast þegar allt er á leiðinni til andskotans í þessu landi. Það er hver höndin upp á móti annarri eins og vant er.
Sést til dæmis á kommentum við fréttir hér á Eyjunni.

Þegar ung stúlka talar á “mótmælafundi/samstöðufundi/einhverskonar-látum-í-ljós óánægju-fundi”, og segir það sem meirihluti þjóðarinnar hugsar, rekur fólk upp ramakvein og fer í hár saman af því hún á að tengjast Vinstri grænum.

Hverjum er ekki skít sama hvaða pólitíska flokk hún aðhyllist? Þetta snýst ekki lengur um flokkadrætti, enda fólk búið að missa alla trú á stjórnmálaflokka, Vinstri græna ekkert síður en hina.
Það eina sem skiptir máli er að fólk segi sannleikann.

Ótrúlegt hvað kommagrýlan hefur náð að festast hér í sessi og rugla fólk í rýminu.
En Grýlur ku hafa þessi áhrif.

Heimóttarskapur þessarar þjóðar er slíkur að ef einhver tekur stórt upp í sig í mótmælaræðu hlýtur hann að vera vinstri sinnaður, sem er hvað - dauðasök?

Og fólk hrekkur umsvifalaust í vörn fyrir Geir og Ingibjörgu.

Einmitt. Talandi um Ingibjörgu.

Það þótti fréttnæmt úr ræðu hennar á flokksstjórnarfundi þegar hún talaði um að “nú væru forgangsverkefnin skýr: Fyrst kæmi fólkið – svo hagsmunir flokksins”.

Það var ekki seinna vænna að hún uppgötvaði það.

Stjórnmálaflokkar hafa alltaf átt að setja fólkið í landinu framar flokkshagsmunum.
Leiðinlegt að þeir uppgötvi það fyrst núna þegar öll spjót standa á þeim og ekki lengur verður komist upp með að drulla yfir lýðinnn með flokkshagsmuni að leiðarljósi.

“Fólkið fyrst,” sagði konan,” flokkurinn svo” - og hafði þrátt fyrir allt ekkert í huga nema hagsmuni flokksins.

Ég er búin að fá upp í kok.

Er á leiðinni til óvinaþjóðarinnar Englands í hálfan mánuð, þar sem ég á dóttur, tengdason og barnabarn. Við ætlum að reyna að fanga jólaandann og hafa það notalegt.

Fæ samt hvergi á hreint hvort ég kaupi pundið á 212 krónur, 320 eða jafnvel eitthvað þaðan af verra.

Ég bara verð að komast út úr þessu andrúmslofti um stund.

Í AA-hugleiðingu dagsins stendur m.a.:

"Vertu hvergi smeykur. Vertu frjáls og óbeygður í anda. Þú getur verið með heilli há og ósnortinn þrátt fyrir mistök og öll þeirra áhrif, ef þú lætur anda þinn sigra heiminn, rísa yfir ys og þys jarðlífsins og hverfa til leyndra heimkynna friðar og trúnaðartrausts."

Og bæn dagsins: "

"Ég bið að ég sé vongóður og bjartsýnn. Ég bið að ég verði óhræddur við vald mistakanna."

Aldrei fyrr hefur mér þótt jafn erfitt að tileinka mér þetta. Ég er allt í senn, vonlítil, svartsýn og hrædd.

Og 100% vantrúuð á að vald mistakanna (les: þeir sem bera ábyrgðina) muni ekki koma mér á kné.

Því miður.

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Að takast á við reiðina og vanmáttinn

Hér ríkir bölvuð óáran.
Útilokað að skafa nokkuð utan af því.
Reiði, gremja, sorg og kvíði einkenna hnípna þjóð við nyrsta haf.

Ástandið er að mörgu leyti óvænt.
En hugsanlega var það að sama skapi fyrirsjáanlegt.

Sumt er þó ekki fyrirsjáanlegt.

Í kvöld halda Höndin - mannræktarsamtök málþing undir yfirskriftinni “Af erfiðleikunum vex maður”.
Frummælandi er Friðrik Pálsson, hóteleigandi.

Þegar hann síðsumars var beðinn að hafa framsögu á þessum fundi óraði engan fyrir því að ástandið á Íslandi yrði með slíkum ólíkindum þegar að fundinum kæmi.

Friðrik óraði heldur ekki fyrir því þegar hann á góðviðrisdegi haustið 2006 reið út ásamt eiginkonu sinni og dóttur, að reiðtúrinn yrði örlagadagur í lífi þeirra allra.

Hestur eiginkonu hans, Ólafar Pétursdóttur, hnaut og féll.
Ólöf, þaulvanur reiðmaður, slasaðist illa.
Hún hlaut slæman mænuskaða og lamaðist frá hálsi.
Eftir langa og stranga sjúkrahúsvist, sem hún tókst á við af eindæma seiglu og reisn, varð hún að lúta í lægra haldi.
Ólöf lést af áverkum sínum 20. mars síðastliðinn.

Friðrik og fjölskylda hans, ásamt vinum og vandamönnum, tókust á við þetta áfall af ótrúlegu æðruleysi.

Og Friðrik þekkir sorgarferlið.

Hann þekkir kvíðann, sorgina og spurningarnar sem vakna.

Líka reiðina og vanmáttinn.

Friðrik hefur eins og við öll tekist á við margskonar áföll í lífinu.
Hann er þó svo gæfusamur að vera gæddur sérstakri lífsýn sem einkennist af bjartsýni og baráttuvilja.
Þeirri lífsýn deilir hann gjarna með fundarmönnum í kvöld.


Hörður Torfason og Ragnheiður Ásta verða sömuleiðis gestir fundarins.

Fundurinn verður í neðri sal Áskirkju og hefst klukkan 20.30.
Þangað eru allir velkomnir og eftir framsögu Friðriks er stefnt að fjörugum umræðum um lífið og tilveruna.

þriðjudagur, 28. október 2008

"Pessimisti" - my arse!!!!


Október 2006.


Sviðið er Árósar, PUK, eftirmenntunarskóli fyrir blaðamenn.

Í bekknum eru sextán blaðamenn frá Norðurlöndunum, þar af þrír Íslendingar.
Tveir karlar, ein kona.

Hvert land á að halda kynningarkvöld um land sitt og þjóð.

Það er komið að Íslandi.

Skólastofan er skreytt hátt og lágt.
Skreytingarnar eru aðallega ljósritaðar, útklipptar evrur.

Flatkökur og hangikjöt, íslenskt brennivín eins og lög gera ráð fyrir. Nokkrir íslenskir fánar og bækur eftir Laxa.

Aðallega þó ljósritaðir peningaseðlar.
Fólk er boðið velkomið í salinn undir dúndrandi tónlist:

Money með Pink Floyd.

Íslendingar eiga Magasin du Nord. Og miklu meira. Eiginlega allt í Danmörku. Og Bretlandi líka.

Við erum klár, rík og glöð.
Klárust. Ríkust.

Það líður á kvöldið og margir eru við skál.

Ríkidæmi Íslendinga, dugnaður og áræði aðal umræðuefnið.

Hvað gerðist eiginlega? Hvernig fóruð þið að? Er engin hætta á ferðum?

Undirrituð er gleðispillirinn.

Hefur ekkert vit á fjármálum, en trúir ekki á ríkidæmið.
Eitthvað mikið bogið við þetta allt saman.
Það er engin innstæða fyrir þessum peningum.

Segir án þess að blikka auga: Ljósrituðu peningarnir hér í skólastofunni eru álíka verðmiklir og útrásarpeningarnir.
Þetta mun allt hrynja í hausinn á okkur.

Pessimisti!

Menn hrista hausinn.
Djöfuls della.
--------
--------
Nú er íslenskt samfélag eins og Latabæjarsamfélagið, nema hvað íþróttaálfurinn er víðs fjarri og bjargar engu.
Glanni glæpur hefur hins vegar verið klónaður í ótal eintök.
Fer um eins og stormsveipur og eirir engu.

Pessimisti hvað?sunnudagur, 26. október 2008

Elsku mamma, ekki var það ég...

Ég er af þeirri kynslóð kvenna sem var alin upp í einum allsherjar Pollýönnuleik. Maður átti að vera glaður og þakklátur, því alltaf voru einhverstaðar einhverjir sem áttu meira bágt en maður sjálfur.
Reiði og depurð voru á bannlista.

Pollýönnuhugmyndafræðin er ekki alvond, en athyglisvert að Pollýönnu tókst ekki að nota sína eigin hugmyndafræði þegar syrti í álinn hjá henni persónulega.

Nú er íslenskur almenningur reiður og má vera það.

Við vitum bara ekki almennilega út í hvern við eigum að vera reið.
Hér ber að sjálfsögðu enginn ábyrgð frekar en venjulega.

Ég var að lesa gamlan, færeyskan krimma eftir Jógvan Isaksen og þar kemur hann aðeins inn á gjaldþrot Færeyinga árið 1992.

Hann segir orðrétt:

“Ástæðan fyrir því að ósamkomulag milli stjórnmálamanna og margs venjulegs fólks varð svo miskunnarlaust var að enginn hafði verið gerður ábyrgur fyrir efnahagskreppunni. Bæði atvinnurekendur og þeir sem höfðu stjórnað öll þessi ár hlupu hver í sína áttina og kenndu hverjir öðrum um.
Þúsundir manna neyddust til að flytja úr landi, margir búnir að missa aleiguna og orðnir stórskuldugir í ofanálag. Öllum fannst þeir hafa verið sviknir, en hver það var sem sveik var erfitt um að segja. Enginn bar ábyrgð af því að svo skynsamlega var stjórnmálaskipaninni fyrir komið.”

Færeyingar munu hafa raulað fyrir munni sér vísu sem Jógvan segir að hefði átt að gera að þjóðsöng Færeyinga:

“Elsku mamma, ekki var það ég.
Strákarnir hrintu mér allir saman,
hrintu mér oní fúlan pyttinn
og hentu að öllu gaman.”

Ja, svei.

Eitthvað minnir þetta á kórinn sem íslenskir stjórnmálamenn og stjórnendur fjármálastofnana kyrja núna.

laugardagur, 18. október 2008

Að "gefa mönnum fingurinn"

Ég hafði ekki hugsað mér að leggja orð í belg í yfirþyrmandi fjármálaumræðunni þar sem allir keppast við tjá sig, hvort sem er á yfirvegaðan og málefnalegan hátt - eða af tilfinningahita og kannski minni skynsemi.

Áfall, sorg, reiði og ótti eru allt hugtök sem einkenna umræðuna, en hatur kann aldrei góðri lukku að stýra. Það vekur því athygli mína hvað allir geta sameinast um að hata Breta sem móðguðu "vor háverðugheit" á neyðartímum.

Ég hef alltaf elskað Breta og oft leitað skjóls í Bretlandi þegar ég hef fengið upp í háls af minni ungu, óþroskuðu og hrokafullu þjóð.

Þar (sem annarstaðar á erlendri grund) hef ég stundum skammast mín fyrir framgöngu landa minna sem taka stórt upp í sig og gera sig breiða án þess að eiga nokkuð inni fyrir því. Það hefur líka verið aðdáunarvert að skoða viðbrögð útlendinganna sem þrátt fyrir allt sýna áhuga þessu skrýtna eyríki sem alltaf er mest og best í heimi.

Staðreyndin er að þrjú til fjögur hundruð þúsund venjulegir Bretar misstu stórar fjárhæðir sem þeir lögðu í góðri trú inn á íslenska banka.
Ég bendi á að þarna er um að ræða fleiri einstaklinga en telja alla íslensku þjóðina.

Og þegar íslensk stjórnvöld yppta öxlum og segjast ekki bera neina ábyrgð eru þeir að "gefa Bretum fingurinn".

Það er ekkert öðruvísi.

Svo eru menn hissa þó Bretar bregðist reiðir við.

Auðmýkt er orð sem seint verður notað um íslenska þjóðarsál. Ég held það sé vegna þess að Íslendingar skilja ekki orðið, setja sama-sem-merki milli auðmýktar og undirlægjuháttar.
Þetta er hins vegar tvennt ólíkt.

Nú er einmitt tími til að tileinka sér auðmýkt og láta af hrokanum. Hroki er ekkert nema minnimáttarkennd og honum getum við snúið upp í reisn. Reisn verður aldrei til nema auðmýktin liggi til grundvallar.

Ég vona að Íslendingar komi út úr þessum hremmingum með reisn. Eins og málum er háttað þjónar engum tilgangi að bregðast við eins og óþroskaðir táningar í fýlukasti: "Þið talið sko ekki svona við mig," eða "þið vaðið sko ekkert yfir okkur".

Og skella svo hurðum.

Hér hefur málum verið klúðrað "big time" og við verðum að taka afleiðingunum þó það sé sárt.

Svo verða vonandi einhverjir sem sæta ábyrgð þegar þar að kemur.

fimmtudagur, 9. október 2008

Er bannað að vera glaður?

Kolla Bergþórs, vinkona mín, kvartaði undan því við mig í samtali í morgun að hún væri litin hornauga fyrir að vera glöð. Það ríkti mikil depurð á hennar vinnustað og hverskonar gleðilæti væru illa séð.

Kolla vildi vita hvort mér þætti gleði óviðeigandi í ljósi aðstæðna.

Nei, mér finnst gleðin ekki óviðeigandi. Ef einhverntíma hefur verið þörf fyrir gleði í þessu samfélagi er það núna.
Það var hinsvegar hægt að vera ótrúlega óglaður meðan þjóðin var á peningafylleríinu, gjörsamlega firrt og úr takt við allan raunveruleika.

Það er örugglega líka dauðasynd að segja að kannski hafi þessi skellur verið það sem þjóðin þurfti.
Ég hefði persónulega viljað að hann yrði ögn minna dramatískur og bitnaði ekki á saklausu fólki, en það þurfti að koma þessari þjóð niður á jörðina.

Nú er hugsanlegt að gömul og góð gildi verði einhvers virði á ný, tal um samkennd og jöfnuð verði ekki lengur aðhlátursefni, látleysi og hógværð verði eftirsóknarverðir kostir og fólk fari að rækta garðinn sinn.

Og gleðinni má ekki útrýma. Ef fólk má ekki sýna gleði er jafn gott að lýsa bara yfir þjóðarsorg og sjá til þess að allir séu örugglega með hangandi haus og tárin í augunum.

Það eru þrátt fyrir allt bara peningar sem um er að ræða. Þeir koma og fara og skipta bara máli svo langt sem það nær.

Svo er kaldhæðnin alltaf óborganleg. Ég get ekki stillt mig um að vitna í stutt samtal sem ég átti við Gunnar Smára í Austurstrætinu.
Það geta allir verið sammála um að Smári er dásamlegur húmoristi.

Ég mætti honum semsagt í Austurstrætinu þar sem ég var á leið til læknis og hann horfði hugsandi í kringum sig.

Sjáðu alla útlensku fréttamennina, sagði hann. Er þetta ekki frábær landkynning? Nú segja þeir ekki bara Bjorgk heldur líka Bjorgkolfur.

Mér var ofboðslega skemmt.

En kannski var það bannað.

PS. Og nú er kona orðin bankastjóri í Landsbankanum. Guð láti gott á vita.

sunnudagur, 5. október 2008

Ys og þys...

...út af engu? Varla. Hér eru greinilega miklir hlutir að gerast og engar ýkjur að ys og þys ríkir við ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu. Fréttaflutningurinn þaðan minnir þó lítillega á hurðarhúninn í Höfða forðum. Engar upplýsingar að hafa og fólk er engu nær.
Bið er lykilorðið í augnablikinu.


Ég verð að játa að ég er ekki nógu vel gefin til að skilja raunverulega hvað er í gangi. Þegar hætt var að tala um íslenska milljónamæringa og milljarðamæringarnir tóku við var ég soldið eins og þorskur á þurru. Ég missti líka fljótlega áhugann á því hvaða milljarðar skiptu um eigendur í það og það skiptið.
Það var hvort eð er ekki séns að henda reiður á þessu og mér kom þetta ekkert við.


Samt vissi ég alltaf, og það er trúlega bara “common sense” þess sem hefur þó ekkert vit á peningum, að einn góðan veðurdag hryndi allt til grunna.


Ég er að sjálfsögðu alfarið á móti því að skattgreiðendur axli ábyrgðina og trúi því ekki upp á lífeyrissjóðina að þeir komi hlaupandi með milljarða til bjargar.

Milljarðamæringarnir verða sjálfir að díla við sitt klúður.

Ég lýsi því líka hér með yfir að ég ber enga ábyrgð og tala þar örugglega fyrir munn allra þeirra sem högnuðust ekkert í partíinu. Voru ekki boðnir og langaði meira að segja ekkert að mæta.


Allt tal um nú verði allir að standa saman er fínt svo langt sem það nær.


Það rísa samt á mér hárin við tilhugsunina um að ég muni ekki eiga fyrir bensíni og húsaleigu í framtíðinni.
Vonandi kemur eitthvað af viti út úr þessum viðræðum í Tjarnargötunni og þeir sem komu öllu á hvínandi hausinn finni lausn sem bitnar ekki á þeim sem síst skyldi.

Svo vonum við bara að Eyjólfur fari að hressast....

laugardagur, 20. september 2008

einkamál.is

Mig langar í kærasta.

Spurningin er bara hvar miðaldra, flott kona eins og ég finn frambærilegan mann til að verða kærastinn minn.

Ekki nenni ég á skemmtistaðina þar sem misdrukknir og óaðlaðandi karlar manga til við mig á xx glasi.

Eftirmiðdagselskhuginn er yndislegur og ég er bullandi skotin í honum. Þar eru samt takmörk.

Það er leynisamband.

“Af hverju ferðu ekki inn á einkamál.is? Þar er fullt af flottum gæjum.”

Segja vinkonurnar.

“Ef þeir eru svona flottir af hverju eru þeir á einkamál.is?”

“Erum við ekki flottar? Við erum á einkmál.is.”

Segja þær.

“Ég hef ekki séð neina kærasta. Hefur ykkur orðið eitthvað ágengt?”

“Já, já, við erum alltaf að máta okkur við hina og þessa gæja. Einn góðan veðurdag verður það sá rétti.”

Hmm....

Ég skvera inn auglýsingu á einkamál.is.

Og það stendur ekki á viðbrögðunum.

Eftir að hafa farið í gegnum bréfaflóðið standa tveir eftir sem eru vel skrifandi og ákaflega frambærilegir að eigin sögn.

Annar vill heyra í mér eftir tveggja daga bréfaskriftir, enda kannski ekki meira að segja bréfleiðis, tiplandi undir fölsku nafni.

Hann er í fínni stöðu, skemmtilegur, klár og rómantískur og vill nudda á mér fæturna.

Hann hringir og er faktískt skemmtilegur viðræðu. Ítrekar nokkrum sinnum þetta með fótanuddið.

Er maðurinn með einhverskonar fótafetish?

Hann vill hittast í vikunni.

Hringir nokkrum sinnum í viðbót, hress og ákaflega umhyggjusamur.

Kannski ég slái bara til og hitti hann!?

Fer daginn eftir og hittti vinkonu sem er sérfræðingur í einkamálabransanum.

Segist hafa prófað og kannski fari ég og hitti mann í vikunni.

“Ég líka,” segir hún spennt. “Hvað heitir þinn?”

Ég segi henni það. “En þinn?”

Það er sama nafnið. Sami maður.

Maður sem hún heyrði í kvöldinu áður og vill endilega nudda á henni lappirnar.

Ég fer efst í pirringsskalann og spyr hvort henni finnist þetta ekkert sick?

“Nei. Ekki vitund. Fólk er að leita og þá hittir það auðvitað sem flesta.”

Það er nefnilega það.

Ég held ég afþakki.

Það má alltaf kaupa sér fótanudd ef það verður issjú í lífi manns.

Og skrái mig út af einkamálum.is.

sunnudagur, 14. september 2008

Í táradal á háheiðinniNiðursveiflutal er það sem helst dynur á þjóðinni þessa haustdaga og niðursveiflan er mæld í torræðum tölum stofnana um að allt sé á leiðinni þráðbeint til helvítis.
Minna er talað um tilfinningalega niðursveiflu þegnanna í svartagallsrausinu.

Ég hef eðlislæga tilhneigingu til að sveiflast soldið um tilfinningaskalann og hef verið venju fremur slæm á drungalegum slagveðursdögum septembermánaðar.

Í gær sló ég met í margskonar skilningi.

Af því ég er svo helvíti skynsöm og veit að allt líður þetta hjá, hafði ég ákveðið að verja helginni í nokkurri gleði norður í sveitum.
Það plan breyttist og í staðinn tók ég að mér að vera sérstakur hirðljósmyndari vinar míns Nikulásar, sem tróð upp með Leynibandinu á réttarballi í Aratungu, hvorki meira né minna.

Rétt áður en ég lagði af stað barst mér símtal langt að sem gladdi mig mjög á sama tíma og það staðfesti nokkuð sem ég hafði trúlega ómeðvitað óttast um tíma.

Mér fannst ég myndi hrista þetta af mér eins og annað og lagði af stað í austurátt.

En...
...ég er viss um að aldrei fyrr hefur nokkur bílstjóri, jafn náttblindur og ég, grenjað jafn mikið í jafn mikilli riginingu og kolsvartamyrkri á Hellisheiðinni.

Ég snýtti mér hraustlega og þurrkaði framan úr mér grenjurnar skömmu áður en ég kom í Aratungu. Málaði á mig nýtt andlit og fór svo, eins og sá stuðbolti sem ég innst inni er, á ballið.
Þar tók ég fljótlega gleði mína á ný.

Ekki bara var Nikulás til mikillar prýði heldur voru á ballinu íslenskar alþýðuhetjur, veðraðar úr göngum og fjárdrætti, sem kættu mig ógurlega.
Dásamlega hjólbeinóttar og góðglaðar stigu þær dans sem hvergi sést nema á alvöru, íslensku sveitaballi.

Ég hafði ætlað að gista á Laugarvatni hjá Niko um nóttina, en af því ég var svo vel vakandi ákvað ég að aka í bæinn.

Það var uppstytta þegar ég lagði af stað um þrjúleytið og kampakátur, fullur máni lýsti mér leiðina fyrsta spölinn.
Hann óð í skýjum og sveipaði umhverfið dulmagnaðri birtu sem er engu lík. Trúlega er ekkert jafn magnað og að vera einn á ferð um miðja nótt í íslenskri sveit, hvenær sem er ársins.

Gáttir himins opnuðust svo á ný þegar ég nálgaðist Hveragerði en nú tók ég ekki persónulega þátt í ósköpunum.
Þurrkurnar höfðu ekki undan en ökumaðurinn söng hástöfum, algjörlega ógrenjandi, alla leiðina heim.
“Innst í þínum eigin barmi, eins í gleði og eins í harmi, ymur Íslands lag....”

Það var ekkert að óttast, engar leyniskyttur í fjöllunum, í mesta lagi meinlausir draugar á sveimi.

Svo lifum við bara niðursveifluna af.
Set inn mynd af Nikulási í uppsveiflu.

Er samt hugsi yfir yfirlýsingu Geirs í Silfrinu um ekkert atvinnuleysi. Eru allir sem hafa fengið reisupassann í fjöldauppsögnum undanfarið búnir að fá vinnu?

Skotheldir Skotar

Það fór eins og mig grunaði. Skotarnir voru gleðigjafar sumarsins.
Íslendingum veitti sennilega ekki af örlítilli kennslu hjá Skotunum um hvernig á að halda uppi jákvæðu og almennilegu stuði dag eftir dag eftir dag.
Ég fór og spjallaði við Skotana, sem voru belgfullir af ást á lífinu eins og það lagði sig. Hér er trúlega best að láta myndirnar tala.
Á einni myndinni er undirrituð, en það er auðvitað felumynd þar sem ég fell inn í hópinn eins og flís við rass. (Þessi færsla fór einhverra hluta vegna ekki inn þegar hún var vistuð á sínum tíma, en hún er látin vaða núna.)
.)

sunnudagur, 7. september 2008

Karlakórskarl í kaupbæti


Það er ekkert að marka það sem ég segi. Í úrhellinu á menningarnótt hét ég því að fara ekki á fleiri útihátíðir í grenjandi rigningu og slagveðri. Svo lét ég mig ekki muna um að rigna niður á Ljósanótt.


Á föstudagskvöldið fór ég á ball á Ránni þar sem Rúni Júl. tróð upp ásamt hljómsveit og verð að segja, þrátt fyrir ást mína á Hljómum, Trúbrot og Rúnari sjálfum, að nú er þetta orðið fínt.

Hann getur ekki haldið dampi heilt kvöld, en var hins vegar óborganlegur á laugardagskvöldinu þegar hann söng tvö lög með Karlakór Keflavíkur.

Kórinn var líka æðislegur og karlarnir sætir í lopapeysunum.


Ég fór síðar um kvöldið í tjaldið þeirra, þar sem þeir voru að selja geisladiskana sína.


"Fylgir ekki einhleypur karlakórskarl hverjum diski?" spurði ég.
"Að sjálfsögðu," sögðu þeir.
"Þá ætla ég að fá tvo," sagði ég og fannst það öruggara ef annar karlanna væri eitthvað gallaður.

Karlarnir hafa reyndar ekki skilað sér enn...

Og þetta hefur sannarlega verið mikið úti-partía-sumar.
Það besta er samt eftir.

Skoska landsliðið er nefnilega á leiðinni og vonandi verður það eins og síðast þegar þeir komu. Þá fylgdu þeim hundruð syngjandi Skota á Skotapilsum, sem voru slíkir gleðigjafar að það hálfa hefði verið nóg.

Fullur bær af berleggjuðum karlmönnum er akkúrat það sem okkur einhleypu stelpurnar vantar núna.

Ef þeir mæta heldur mér ekkert frá miðbænum, ekki einu sinni fellibylurinn Sísí.

Læt fylgja mynd af lopapeysustrákunum.

fimmtudagur, 4. september 2008

Tónlistareinvígi á rauðu ljósi

Lífið getur verið ótrúlega tilfþrifalítið á köflum.
Hápunktar undanfarinna daga hafa verið heimsókn til gamals vinar og tónlistareinvígi á rauðu ljósi.

Fyrst heimsóknin.

Þessi gamli vinur minn er náttúrlega ekkert venjulega skemmtilega klikkaður. Það muna auðvitað allir eftir syngjandi fiskinum sem var ægivinsæll fyrir nokkrum árum.
Vinurinn er búinn að setja sinn upp á baðherberginu, sem væri ekki í frásögur færandi nema af því hann setti nema á fiskskrattann, sem gerir það að verkum að hann byrjar að syngja um leið og sest er á salernið.

Don't worry - be happy syngur fiskurinn og engin leið að stopp'ann.

Ekki veit ég hvort þetta hefur áhrif á hægðir til slæms eða góðs. Best gæti ég trúað að krónískt harðlífi verði afleiðingin fyrir eigandann.

Svo tónlistareinvígið.

Ég þurfti að stoppa á rauðu ljósi í dag og við hliðina á mér var ungur töffari að spila eitthvað sem er örugglega flokkað undir tónlist.
Ég var hinsvegar með karlakór og einsöngvara í mínum bíl sem sungu þrumraust um Stenka Rasin.

Bæði voru með niðurskrúfaðar rúður.

Drengurinn horfði ögrandi á mig og hækkaði í sínum græjum.
Ég hækkaði í mínum.
Hann hækkaði meira og glotti sjálfumglaður.
Ég setti í botn.

Þá skyndilega lækkaði hann og benti mér að lækka líka.
Svo brosti hann út að eyrum og kallaði: Djöfull ertu töff.
Það merkilega var að ég sá að hann meinti það.
Ég ók lukkuleg á brott og hugsaði að ekki hefði kúlið krumpast hjá mér í dag.

Af sambýlinu hér er ekkert að frétta. Nýi leigjandinn er aldrei heima, var greinilega bara að leigja húsnæði undir pottana sína og hreinlætisvörurnar.

Hann kemur samt stundum á morgnana til að fá sér heilsudrykk áður en hann fer til vinnu og þá er ógurlega glatt á hjalla hjá honum og Danna.
Það vill til að ég byrja að vinna sex á morgnana og er komin yfir morgungeðvonskuna þegar þeir hlæja eins og hýenur yfir morgunmatnum.

Eftir Stuðmannaballið um síðustu helgi er ég komin á bragðið og ætla á Ljósanótt um helgina og stunda böllin grimmt.

Eftirmiðdagselskhuginn þurfti að skreppa af landi brott, en er nú á heimleið.
Ég sakna hans.

Ein pæling í lokin.
Hétu fellibyljir ekki alltaf kvenmannsnöfnum eða er það einhver meinloka í mér?

Og Ps: Hvernig er hægt að taka mark á forsetaframbjóðanda sem heitir sama nafni og pítsufyrirtæki?

sunnudagur, 31. ágúst 2008

Sambýlismenn og StuðmannaballÞegar ég var í þann veginn að drepast úr leiðindum í gærkvöldi ákvað ég að fara á Stuðmannaball sem er að því mér skilst árlegur viðburður hér í íþróttahúsinu á Nesinu.

Sambýlismennirnir voru að heiman, en nánar um það á eftir.

Ballið var frábært þó mér litist ekki meira en svo á blikuna þegar ég var á leiðinni inn og sá ekkert nema brosandi, fótnettar flugfreyjur, sneisafullar af yndisþokka, á leið inn í húsið. Það kom í ljós að þetta var Flugfreyjukórinn sem steig á svið með Stuðmönnum undir stjórn Magnúsar Kjartans.


Það voru allir þarna, Bjarni Ármanns, Jón Ásgeir og frú og fyrrverandi borgarstjóri (já, ég veit ég þarf að skilgreina það nánar, sumsé Óli F.) og fleiri flottir. Ég er hér um bil viss um að þeir voru allir á gestalista. Það var bara pöpullinn sem greiddi 2.500 fyrir fjörið.

En þetta ball markaði tímamót í mínu lífi sem ég ætla að útskýra hér.


Þegar ég var átján ára var ég í bæjarvinnunni og lenti í að skera niður rofabörð á Hólmsheiðinni. Síðan var sáð í allt heila klabbið og nú er þarna undurfagurt.

Trúlega stendur það ekki mikið lengur ef þeir malbika allt í hólf og gólf undir flugvöll.

Þetta var sumarið 1975.

Sumar á Sýrlandi kom út þetta ár og í kaffitjaldinu var segulband. Í öllum matar- og kaffitímum ómuðu perlur eins og Stína stuð og Í bláum skugga, en ég sem var að farast úr ógleði, gat ekki hlustað á þessa tónlist í áratugi á eftir án þess að fá flashback og verða fárveik.


Nú eru tvíburarnir sem ég bar undir belti á þessum tíma að verða 33 ára og annar elskar Stuðmenn, hinn þolir sumt og annað ekki.

Palla finnst þeir geðveikt góðir og nær alveg danssporunum hans Egils, Jóa finnst Með allt á hreinu brilljant svo og Sumar á Sýrlandi. Hann fór samt einhverntíma á ball þar sem þeir spiluðu og fannst þeir hundleiðinlegir. Jóhann getur verið langrækinn og hann erfir þetta við Stuðmenn.

Í gær fann ég ekki fyrir neinni ógleði þegar ég dansaði í taumlausri gleði við Stínu stuð svo þetta markar upphafið að nýjum kafla í mínu lífi:)

En sumsé, nýi, fallegi leigjandinn flutti inn í gær. Ég segi flutti inn, en flutti og flutti. Hann kom með rúmið sitt, tvíbreitt, og nokkra potta. Við ræddum svolítið saman, um mataræði og svona, og ég komst að því að hann er heilsufrík og leggur enga blessun yfir það að ég borða oftast prins póló í kvöldmat. Hann tekur gjarnan að sér að kenna mér að borða tófú eða hvað það nú heitir og baunaspírur.

Svo fór hann. Kom með rúmið, fór og kom ekki aftur fyrr en rétt áðan.

Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að reikna út hvað það þýðir!!!!

Enda komið á daginn að hann á gullfallega kærustu.

Okkur Danna ber saman um að þetta séu hálfgerð svik.

Ég veit ekki hvar ég væri ef Danni stæði ekki svona pottþétt með mér.

Myndirnar: Nýi, fallegi leigjandinn er með bílfarma af allskonar dóti sem hann er að koma fyrir í skápum, skúffum og þar sem yfirleitt finnst lófastór blettur.
Það geta allir séð hversu óhemju fagur hann er og svo er mynd af þeim Danna saman.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Af partíum og enskuslettum


Þar sem þjóðin á að vera í partískapi í dag ætla ég að upplýsa að persónulega hefur mér förlast svo í partíhaldi að þyngra er en tárum taki. Ég sem var mesta partítröll ever.

Ég ætla ekki að gefa upp hversu margir mættu í partíið sem við héldum hér á Nesinu um daginn.

Kannski var hægt að telja þá á fingrum annarrar handar - kannski ekki.

Þeir fá samt endalaust mörg prik sonur minn Páll og vinur hans Siggi sem mættu í glimrandi partístuði með gítarinn á bakinu og fóru á kostum, að ekki sé meira sagt.

Vonandi mæta fleiri í silfurpartíið í dag þrátt fyrir rigninguna.
Það er nefnilega soldið freistandi að fylgjast bara með beinni útsendingu undir sæng.

Aðeins að öðru.
Mér finnst oft áhugavert að fylgjast með hvaða fréttir fólk "kommentar" á hér á vefnum. Í dag er hneykslast á bruðli ráðherra, en skólabörnin ungu sem eru á vergangi eftir skóla virðast fá litla athygli.

Vonandi stendur fólki þó ekki á sama að ekki takist að manna frístundaheimilin.

Og eitt enn.


Ég sletti oft í mínum texta og hef þá hrokafullu skoðun að þeir sem eru góðir í íslensku geti leyft sér að sletta. Hinir ekki.


Samt fer um mig ónotatilfinning í hvert skipti sem ég sé auglýsingu á Skjá einum sem endar á orðunum: Singing Bee, nýr íslenskur þáttur. Tja...


Set inn mynd af stuðboltunum með gítarinn. Sonurinn er sá í lopapeysunni. Þá hlýtur hinn að vera Siggi.


fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Flögur og kannski dýfu?


Ég sat í rólegheitum inni í herbergi áðan þegar ég heyrði skyndilega hávaða og fannst ég rétt sem snöggvast stödd í Hollywood árið '80.

Þegar ég kom fram í stofu var Danni búinn að stilla upp græjunum!!! og spilaði diskó í botni.

Ég (æpandi gegnum hávaðann): Hvað ertu að spila? Ég þoli ekki diskó.

D (æpandi enn hærra): Hvað meinarðu? Ég hélt þú elskaðir diskó. Sagðirðu það ekki um daginn?

Ég: Lækkaðu!!!!

D: Já, já. Slakaðu á. Vorum við ekki að tala um að við elskuðum hommatónlist? Þetta er hommatónlist.

Ég: Ég sagði vemmilega júróvisjóntónlist og íslenska slagara.

D: Úps. Og svo kemur Palli sonur þinn með Súkkat til að kóróna allt saman.

Ég: Við verðum að skipuleggja upp á nýtt.

D: Já. Verðum við ekki að hætta við að grilla? Það verður grenjandi rigning.

Ég: Jú, en hvað eigum við þá að hafa?

D: Veit ekki. Hvað ertu búin að bjóða mörgum?

Ég: Engum. Eða jú, kannski einum eða tveimur. En þú?

D: Tveimur. Þeir eru báðir uppteknir.

Ég: Bíddu, ætlarðu þá ekki að bjóða einhverjum öðrum?

D: Ég man ekki eftir fleirum. En þú. Ætlar þú ekki að bjóða fleirum?

Ég: Ég man heldur ekki eftir fleirum.


Þögn.

D: Við verðum þá bara fá.

Ég: Hm. Við verðum samt að taka til. Kannski munum við eftir fleirum á morgun.

D: Kannski. En við þurfum ekkert að taka til.

Ég: Hvað með að kaupa eitthvað. Snakk og dýfur?

D: Já. Eða segja fólki að koma með það.

Ég: Þetta stefnir í dj. gott partý.

D: Ekki spurning. Ég er að fara út að borða núna. Þú mátt nota græjurnar eins og þú vilt á meðan.

Ég: Takk.

Og set græjurnar í botn. Finn júróvisjónlög og gamla slagara. Dansa gjörsamlega kreisí. Hvað eins og þurfi eitthvert fólk...

Ég er samt viss um að þetta verður gott partý. Á morgun bjóðum við fullt af fólki.
... og það mun verða veislunni margtí ...


miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Þarf elskhugaleyfi?
Það eru engar ýkjur að litla sambýlið á Nesinu, sem með sanni má kalla kærleiksheimilið, er með ólíkindum ljúft. Við búum hér í góðu yfirlæti ég, Danni og Donald, en nú er komið að því að Donald yfirgefi hreiðrið og haldi til náms í Lundi.


Sem þýðir að herbergið hans er laust.


Ingibjörg leigusali, sem er sjarmur af guðs náð, ætlar að sjálfsögðu að leigja herbergið út aftur og í vikunni kom hún með óguðlega fagran kandidat af karlkyni til að skoða aðstæður.
Okkur Danna var að sjálfsögðu teflt fram sem helsta aðdráttaraflinu, því þó heimilið sé fallegt er lítið varið í það ef heimilisfólkið er óalandi og óferjandi.
Við fórum létt með að sýna okkar bestu hliðar, fórum með gamanmál og vorum í alla staði ómótstæðileg eins og okkur er svo lagið.


Það varð líka fljótlega ljóst að "nýi leigjandinn" var fyr og flamme að fá herbergið og eftir því sem ég best veit flytur hann inn um mánaðamótin.
Í svona sambýli gilda auðvitað húsreglur og það barst í tal hvort leyfilegt væri að hafa hjá sér kærasta/kærustu yfir nótt.
Danni á rosalega sæta kærustu, en ég ætla ekkert að gefa það upp hér hvort hún hefur kúrt undir sænginni hans nótt og nótt.

Sjálf hef ég komið mér upp vikulegum eftirmiðdagselskhuga og enn fást engar upplýsingar um hvernig það fyrirkomulag hefur lukkast í sambýlinu.
Nú veit ég ekki hvort nýi leigjandinn á kærustu en mér kæmi það ekki á óvart jafn sjarmerandi og hann er.
Auðvitað vona ég hálfpartinn að hann eigi enga.

En Ingibjörg upplýsti okkur um að hjásofelsi í húsnæðinu væri með öllu bannað.
Herbergin væru einstaklingsherbergi og það þýðir einfaldlega einn einstaklingur í hverju herbergi.
Við mölduðum smá í móinn og spurðum hvort það væri ekki bara okkar á milli hvort einhverjir blunduðu hér af og til en hún var ósveigjanleg með það að reglur væru reglur.
Nú er lítið plott í gangi, við Danni ætlum nefnilega að halda partý um helgina (sem er líka bannað) og Ingibjörg verður heiðursgestur.

Partýið er þó hugsað sem kveðjupartý fyrir Donald, sem er líka sérlega lymskulegt þar sem hann er að vinna umrætt partýkvöld, er nákvæmlega ekkert fyrir partý, reykir hvorki né drekkur og býst við að leggja sitt þreytta höfuð á koddann um leið og hann kemur heim úr vinnunni.
Hann heyrir bara með öðru eyranu og ætlar að liggja fast á því.

Við munum hinsvegar reifa þessi mál við Ingibjörgu þegar líður á kvöldið og reyna að fá einhverskonar grænt ljós.
Hún mun þá væntanlega ákveða hversu oft væri ásættanlegt og hugsanlega setja einhver hávaðamörk.
Þetta getur nefnilega verið stórmál.

Hvað ef til dæmis nýi leigjandinn og ég næðum rosa góðu sambandi eitthvert kvöldið og ákvæðum að færa það yfir á æðra plan? Þyrftum við þá að hringja í Ingibjörgu og biðja um leyfi?
Þetta er auðvitað ekkert einfalt.

Og þarf ég leyfi fyrir eftirmiðdagselskhugann?

Þetta skýrist vonandi allt á föstudagskvöldið svo allir geti átt almennilegan menningardag/nótt:)
Set inn mynd af Donald og Danna, Danni er sá í jakkafötunum.
mánudagur, 18. ágúst 2008

Þegar atburðarásin tekur völdinÉg komst aldrei í nettenginu á Skagaströnd, sem var kannski jafn gott.
Stundum gerist eitthvað ófyrirsjáanlegt í lífi manns sem setur allt úr skorðum og jafnvel þó maður vilji snúa atburðarásinni við heldur hún áfram að vinda upp á sig. Til hins verra.
Kem að því aftur síðar, en burtséð frá því héldu Skagstrendingar glimrandi kántrýhátíð.
Á föstudagskvöldið var ég stödd í kaffihúsinu Bjarmanesi þar sem Sigríður Klingenberg spákona var með óborganlega uppákomu.
Umsjónarkona kaffihússins, Steinunn Ósk, hefur unnið þar þrekvirki í sumar og eins og allt sem hún kemur nálægt eru veitingarnar ómótstæðilegar og húsið endalaust kósý, meðal annars skreytt listaverkum eftir Steinunni sjálfa.
Sigríður fór náttúrlega á kústum, nei, ég meina kostum, og viðstaddir grétu úr hlátri.
Í beinu framhaldi af þessu var fjölmennt á ball í Kántrýbæ og stuðið í algleymingi.
Skagstrendingar voru búnir að skreyta bæinn hátt og lágt, dagskráin var við allra hæfi og það var ekki leiðinlegt að sitja út undir húsvegg með KK, Leo Gillispie og vinum þeirra og upplifa ekta jamsessjón.
Á laugardagsmorgninum varð þó viðsnúningur hjá mér persónulega, lítið atvik gerði mig reiða, og því meir sem ég barðist gegn reiðinni því verri varð hún.
Ég yfirgaf Skagaströnd eftir frábæra tónlistaruppákomu Gunnars Jóhannssonar skipstjóra og lagði leið mína á Blönduós.
Þar á ég vísa lokrekkju á Vesturbakkanum og svaf þar um nóttina.
Köttur með ekkert nafn var gestkomandi í húsinu og eftir að hafa spígsporað lengi nætur við rekkjuna ákvað hann að halda hinum arga gesti selskap, stökk upp í rúmið og tók öllum mínum klögumálum með stóískri kattaró, sleikti burtu tárin með hrjúfri tungunni og malaði án afláts.
Hafi hann endalaust þökk fyrir.

Á leiðinni í bæinn hlustaði ég á disk með karlakórnum Lóuþrælum og kvennakórnum Sandlóum og þrátt fyrir yndislegan texta við lag Sarastros úr Töfraflautu Mozarts tókst mér ekki að vinna bug á reiðinni.
Reiði er erfið tilfinning en svo sem hvorki rétt eða röng. Hún bara er.
Textinn fjallar um kærleikann og þar segir:
"Leggur hann ei á aðrar skyldur
umber hann hroka, svik og tildur.
Leitar hins hrjáða, huggar þann smáða,
sefar hvern þjóst í þeli hans.
Þannig er máttur kærleikans."
Enn hefur textinn og undurfagurt lagið ekki náð að sefa þjóstinn í þeli mínu, en ég reikna með að það gerist fyrr en seinna.
Dagurinn á Blönduósi var bæðevei frábær.
Set inn nokkrar myndir af vel heppnaðri kántrýhátíð. Ég segi vel heppnaðri því geðvonskukast undirritaðrar hafði að sjálfsögðu ekki nokkur áhrif á gang mála á hátíðinni.
föstudagur, 15. ágúst 2008

Skrapp frá - kem trúlega ekki aftur

15. ágúst.


Þessi fyrirsögn átti nú að vísa í kvikmyndina Skrapp frá sem ég sá í Háskólabíói á dögunum og gafst upp í hléinu.
Þrátt fyrir að vera einlægur aðdáandi Diddu, sem var frábær eins og alltaf, bar hún ekki myndina uppi ein og sér, og svo er ég auðvitað með ólæknandi fordóma þegar kemur að íslenskum bíómyndum.
Nú er samt spurning hvort borgarstjórar Reykjavíkur ættu ekki að fá lánað pappaspjaldið hennar Diddu með skökku stöfunum, og bæta við: "Kem trúlega ekki aftur. "
Eða þannig.Annars ætlaði ég líka að gera nokkrar athugasemdir við áhugaverða grein sem birtist í slúðurfréttum eyjunnar í gær, um að til stæði að gera nýja Rocky Horror-mynd í óþökk Richard O’Brien.
Þetta eru náttúrlega helgispjöll.
Þessi mynd er "klassík" og nýir leikarar, að ekki sé talað um nýja tónlist, jaðrar við guðlast.
Myndin á að vera nákvæmlega eins og hún er af því hún getur ekki orðið betri.
Það var ekki að ástæðulausu að ákveðin kynslóð Íslendinga flykktist á miðnætursýningar í Nýja bíó í den, ýmist útúr stónd eða algerlega óedrú, og gekk af göflunum í hvert eitt sinn.
Myndin er "cult".
Ég hef tvisvar séð Rocky Horror á sviði í Englandi og þeirri upplifun verður ekki líkt við neitt. Í seinna skiptið fór ég með Önnu Lilju dóttur minni og manninum hennar (virðulegum stærðfræðingi) sem lét sig ekki muna um að fara í leðurpils og netsokkabuxur.
Allir voru í búningum og kunnu sýninguna í smáatriðum og svöruðu þegar við átti. Hámark gleðinnar var svo þegar Richard O'Brien birtist óvænt á sviðinu í lokin og fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna.

Ég bloggaði um þetta á sínum tíma á öðrum stað, en ætla að setja inn nokkrar myndir.
Stóra myndin er af dóttur minni og tengdasyni en hinar eru dæmi um átfittið á gestum sýningarinnar.
Svo vona ég að svona fáránlegar ídeur Sky Movies og MTV deyi drottni sínum.
Annars er ég stödd í Húnavatnssýslu og ætla að taka þátt í hátíð á Skagaströnd um helgina.
Sakir plássleysis hefur mér verið komið fyrir á elliheimilinu og býst nú alveg eins við að ílendast þar. Ég meina, kannski hleypa þér mér ekki út aftur.
Svo er ég hvort sem er að leita að karli og hlýt að finna hér ríkan, sætan og senil kall í göngugrind:)
Ég giftist honum í snatri, ræski mig svo óvænt eitthvert kvöldið og honum bregður svo illa að hann dettur dojaður niður.
Eftir sit ég með rómansinn og auðæfin.
Ef einhver heldur að ég meini þetta er sá hinn sami ekki í lagi.
En fréttir munu berast ykkur frá Skagaströnd - og myndir að sjálfsögðu.
PS. Svo er ég að spá í hvort stjórnmálamenn í borginni séu kannski eftir allt saman geimverur.fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Ofurmannakíkir Jóhannesar og Björgólfs

6. ágúst.

Lífið heldur áfram að vera æsispennandi. Í gær var ég að passa Lilju Maren og Jón Breka, frábæru barnabörnin mín, og við áttum æðislegan dag.

Þar sem við sitjum niðri á Kaffi París í uppstyttunni um fimmleytið kemur föngulegur hópur ungra stúlkna í áttina til okkar og greinilegt að ein var hætt að freelanca eins og ég í karlamálum, og ætlaði að gifta sig innan tíðar.

Hópurinn kom til okkar og bauð okkur ofurmannakíki til kaups.

Jón Breki, sem er að sjálfsögðu ofurmaður, sýndi kíkinum ekki sérstakan áhuga enda greinilega heimagerður úr eldhúspappírsrúllu og álpappír.

Ég vildi hins vegar festa kaup á gripnum.

Þegar ég var að róta í veskinu mínu eftir klinki kom órói að gæsahópnum og þær kváðust þurfa að skreppa en kæmu strax aftur.
Svo hurfu þær með kíkinn.

Ég vissi strax hvað var í gangi því mínútu áður höfðu komið gangandi framhjá, næstum arm í arm, Jóhannes í Bónus og sjálfur Björgólfur.
Greinilegt að samrunapælingar Mogga og Fréttablaðs eru ekki úr lausu lofti gripnar.

Eftir skamma stund komu stúlkurnar aftur með kíkinn og sögðu að bæði Jóhannes og Björgólfur hefðu handfjatlað hann og kíkt í báða enda.

Nú er ég að spá í að bjóða kíkinn upp á e-bay, þetta er náttúrlega orðinn milljarðakíkir eftir þessa uppákomu. Það er þó ekki víst að viðskiptavinir þar þekki haus né sporð á strákunum svo lesendur eyjunnar eiga séns.
Mér dattt í hug að fyrsta boð yrði hálfur milljarður og svo tökum við það bara þaðan...

Mynd af kíkinum mun birtast hér síðar í dag.

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Hvar er minn "Big"?5. ágúst.

Það er ekki eins og ekkert sé að gerast í lífi manns þó maður bloggi sjaldan.
Ég fór til dæmis í bíó í síðustu viku og sá Sex and the City.
Rosalegt hvað "Big" er sætur. Ég var eiginlega hálf domm og einmana þegar ég kom heim þó ég láti sem mér finnist rosalega kúl að vera svona "freelance" í karlamálum.
Kommúnusambýlið á Nesinu gengur vel og samleigjendurnir eru yndislegir. Donald, sem er breskur, sést lítið heima, og Anna María sem er að fara á Bifröst, er ótrúleg skotta. Alin upp í sveit og getur einhvernveginn reddað öllu.
Set inn nokkrar myndir af henni þegar hún braust inn eftir að hafa læst sig úti.
Svo keypti ég mér Júróvisjóndisk í vikunni og syng hástöfum með í bílnum.
"Diggi lo, Diggi ley, alla tittar på mig, där jag går i mina gyldna skor" ræð ég ágætlega við og finnst við hæfi. Það er á sænsku sem ég er fín í. Og eru ekki gylltir skór einmitt í tísku?
Það er verra með Ein Bichen Frieden og þýskuna. Þar minnir maður nú soldið á sjálfan sig í æsku þegar maður söng textana með Bítlalögunum á heldur einkennilegri ensku.
Eins og sjá má er mikið að gerast og ekki ástæða til að kvarta.
Vonandi fæ ég íbúð bráðum og mín eigin sængurföt, það er tilhökkunarefni.
Og Hinsegin dagar í uppsiglingu!!! Og menningarnótt!!!
Meira stuð, segi ég nú bara:)
laugardagur, 19. júlí 2008

Í grænni lautu...
19. júlí.


Ég er komin heim og búin að hreiðra um mig í herbergi á Seltjarnarnesi. Við erum þrjú sem leigjum saman, en meira um það síðar.
Nú er ég stödd á Laugarvatni í boði góðs vinar.
Ég hef sosum ekki lesið Secret-bókina sem allir eru að tala um, en ég hef tekið eftir því að ef ég held því nógu stíft fram að ég sé prinsessa er ég stundum trítuð sem slík.
Ég hef til dæmis verið hér í ótrúlegu yfirlæti hjá austurrískum vini mínum Nikulási.
Í gær, eftir geðveika máltíð á Lindinni, fórum við í bíltúr um sveitina. Það var enginn látlaus bíltúr eins og tíðkast hér í Tungunum heldur vorum við á blæjubílnum hans, BMW Z4-sporttýpunni - og að sjálfsögðu með Sinatra í botni.

Ég tók mynd þegar við vorum að leggja af stað, það var hinsvegar ótækt að ég væri með á myndinni.
Nikulás getur nefnilega verið svo stíliseraður. Þarna er hann til dæmis í Armani-buxum, Prada-jakka og með trefil frá Dolce Gabbana.
Ég er hins vegar í tveggja punda strigaskóm úr Primemark og ódýrasta vindjakkanum sem ég fann í kaupfélaginu í Hell.
Þar, nota bene, dó gamla myndavélin mín og sumarfríið hófst. Skýrir lélega bloggframmistöðu í mánuð.
Í Haukadalnum vissi Nikulás um heita laug á víðavangi svo við ákváðum að prófa hana. Þegar búið var að kasta klæðum var ekkert því til fyrirstöðu að við værum mynduð saman.
Þar sem við sátum í lauginni kom bíll akandi og ég var viss um að þar væri á ferð arfabrjálaður bóndi til að rukka okkur fyrir að sitja í pollinum.
Þetta voru hins vegar stelpur ofan af Geysi og þær eiga heiðurinn af myndunum. Ég hef áður birt af mér nektarmyndir í þessu bloggi svo þetta er ekki verra en vant er.
Eftir slímugt baðið ókum við inn á afleggjara þar sem engin var löggan né umferðin og fórum á rúmlega tvöhundruð nokkurn spöl.
Say no more.
Í morgun fórum við svo í kaffi í Skálholt, enn með blæjuna niðri og tónlistina á fullu.
Eftir að ég var í Þrándheimi í júní fór ég til Englands þar sem ég hitti Gunnhildi vinkonu mína og við stöldruðum m.a. við á Isle of Wight og í London.
Og af því að Mandela átti í alvöru afmæli í gær verð ég að segja ykkur frá því þegar við Gunnhildur fórum í Hyde Park þar sem tónleikarnir til heiðurs honum voru haldnir.
Það var ekkert prinsessulegt við mig þá, staurblönk og átti ekki fyrir aðgöngumiða, en við stilltum okkur upp við hliðið þar sem sást í sviðið.
Þegar sjálfur Mandela steig í svið æptu einhverjir í hópnum fyrir utan "free Mandela... ", hentu járngrindunum frá og að minnsta kosti 300 manns hlupu inn. Verðirnir voru ótrúlega lengi að átta sig, en það sem eftir lifði tónleikanna voru þeir í óða önn að hlaða upp grindum við háðslegar glósur þeirra sem eftir stóðu. Ég hljóp ekki inn þar sem ég óttaðist að Gunnhildur, sem er ómöguleg í fótunum, yrði eftir.
Eftir öll ferðalögin í útlöndum verð ég að segja að hápunkturinn er alltaf að koma heim og hitta fjölskyldu og vini.
Og að aka um íslenska sveit á bjartri sumarnóttu tekur öllum útlöndum fram.
Ég ætla að setja inn nokkrar myndir, og tek undir það sem segir í vísunni:
"Livet er ikke det værste man har,
- om lidt er kaffen klar... "fimmtudagur, 19. júní 2008

Frá Erlings-skakka-götu í átt að Glitni

19. júní.
Er að kveðja Þrándheim með nokkrum trega, hlakka til að koma til Englands engu að síður. Ég er alveg búin að skipta um skoðun á Norðmönnum, finnst þeir bara frábærir.
Ég hef setið hér á Brukbar og unnið undanfarna daga og er nú orðinn einn af fastagestunum. Fæ kaffi eins og ég get í mig látið.

Þrándheimur er gríðarlega fallegur og skólabókardæmi um hvernig hægt er að varðveita gömul hús í bland við ný svo vel fari.
Ég valdi mér ódýrustu gistingu sem ég fann, sem heitir Sommerhotellet og er nokkurskonar farfuglaheimili.
Stúlkan í afgreiðslunni (ca. 18 ára) tók við greiðslunni og sagði brosandi: Þú ferð svo bara þarna niður stigann.
Og hún benti í áttina.
Þegar niður stigann var komið var ekkert að sjá nema sturtu og ótótlega geymslu.
Ég fór upp aftur og sagðist ekki sjá neinn "sovesal".
Hún stóð þá upp og kom með mér niður en fann heldur ekki "sovesalen". Ungur strákur var kallaður til og hann fann hurð þar sem á stóð Helga og sagði: Það er hér.

En þá fundust ekki lyklarnir.

Þeir fundust þó fyrir rest og í "sovesalen" reyndust vera tólf kojur, tveir gluggar en engar gardínur. Ég sagði að það gengi aldrei, ég sem kæmi frá Íslandi gæti ekki sofið í skjannabirtu, hvað þá hinir.

Hálftíma seinna var drengurinn búinn að setja upp gardínur og ég skemmti mér konunglega á þessu unglingaheimili og kynntist áhugaverðu fólki.

Mér hefur líka gengið óvenjuvel að rata, ef ég bara beygi hjá Erlings-skakka-götu og tek svo strikið í áttina að Glitnisskiltinu eru mér allir vegir færir.
Í Olavs-Tryggvason-götu fann ég svo félagsskapinn minn sem ég leita uppi í hverju landi.

Nú er ég á leið til Englands seinnipartinn, á ráðstefnu í Winchester.
Og stelpur! Til hamingu með daginn!!!

Ps. Ég ítreka enn að mig vantar samastað í júlí og ágúst ef einhver þarf að láta passa íbúð, hund eða kött:)

mánudagur, 16. júní 2008

Unaðsstaðurinn Hell16. júní.Komin til Þrándheims eftir geggjaða ráðstefnu í Hell.
Það sem var merkilegast var að þar var skítkallt og engir lögfræðingar:)
Dagskráin var til slíkrar fyrirmyndar að það hálfa hefði verið nóg. Ég ætla samt aðallega að halda mig við uppákomurnar í þessu bloggi.
Árlegri boltakeppni (brennó og kýló) lyktaði með sigri gestgjafanna sem svindluðu án afláts en reglan er hvort sem er að þeir vinni.
Þá var Hellovison, árleg söngkeppni, sérlega glæsileg í ár. Rússneskir gestir á ráðstefnunni sýndu glæsilega frammistöðu svo og breski gesturinn, lítil og grönn kona frá Wales sem er að skrifa bók um höfundarrétt. Hún gerði tilraun til að múta dómurunum sem þáðu pundin hennar með þökkum en sögðust svo engu geta lofað. Hún söng meira að segja dónavísur en varð í fjórða sæti með Dönum, Svíum, Norðmönnum og Íslendingum.
Það voru sumsé við Geir sem sungum Maístjörnuna í röddum og allt, en við höfðum sungið hana í kvöldverði kvöldið áður og fengum mínusstig fyrir það. Plússtig fyrir að kalla fram tár hjá nokkrum ráðstefnugestum en það dugði ekki því Finnarnir voru langbestir.

Það er að segja, þeir halda ráðstefnuna að ári svo ákveðið var að smjaðra fyrir þeim til að hafa þá góða.
Ég hitti mýgrút af gömlum vinum og verð að segja að ég nýt þess gríðarlega að vera á svona norrænum samkomum og tala blöndu af hrognamáli.
Ég mun gera ráðstefnunni betri skil síðar. Set inn nokkrar myndir.
Verð samt að leiðrétta að Hell er ekki dregið af hellir heldur hellu, þannig að við vorum eiginlega á Hellu alla helgina.
Og hvað er þetta með ísbirnina heima????

miðvikudagur, 4. júní 2008

Fan vad jävla bra det skal bli i Hell4. júní.

Ég er að skrifast á við norræna kollega mína sem ég mun hitta á ráðstefnu í Hell í Noregi í næstu viku. Þetta er bara lítið dæmi um hvað við erum svakalega fyndin:)

Nafnið á þessum bæ er reyndar dregið af orðinu hellir og hefur ekkert með stuðið í neðra að gera.


Lífið í Englandi er alltaf jafn dýrðlegt og Bretarnir stórkostlegir.


Ég átti tíma í dag í litun og plokkun en þegar ég mætti sagði afskapleg kurteis enskur snyrtifræðingur að því miður væri ekki hægt að gera þetta í dag þar sem gleymst hefði að gera á mér ofnæmispróf.

Ég sagði henni að láta bara vaða, kona sem setur í sig þrjá hárliti á einu kvöldi kallar nú ekki allt ömmu sína.

En það var ekki við það komandi. Prufan var gerð og ég á tíma aftur á morgun.


Anna Lilja fór í bankann á meðan til að millifæra af sínum reikningi á Chris, en elskuleg bresk starfsstúlka ráðlagði henni eindregið að taka peninginn út og labba með hann í næstu götu þar sem Chris er með sinn reikning. Hitt væri bæði dýrara og tæki lengri tíma!!!!

Chris getur svo tekið þennan pening út eftir þrjá virka daga. Er þetta ekki dásamlegt?Á leiðinni heim í strætó las ég á bannskiltið þar sem stendur að harðbannað sé að reykja eða drekka og fólki beri að tala lágt í gemsana sína og hafa græjurnar á eyrunum lágt stilltar. Þá er bannað að vera með fæturna uppi á sætunum og táfýlufætur eru stranglega bannaðir. Mín vegna mætti ganga alla leið með þetta og banna fólki aðgang sem er með ógeðslega vonda ilmvatnslykt sem er að kæfa mann, eða gamla svita- og fúkkalykt.


Ísbílinn kemur líka hér á hverjum degi. Fyrst heyrist "We Are Sailing" með Rod Stewart í bjölluútgáfu og ef það dugir ekki til að æsa upp í fólki íslöngunina er skipt yfir í skoskan mars með trommum og alles og endað á glory, glory hallelúja...

Sá sem ekki verður að fá ís eftir það er eitthvað sljór.

Ég ætla að klikkja út með skordýrasögu sem er dagsönn, en við Anna Lilja eigum það sameiginlegt að vera frekar fóbískar.

Þegar ég var að reykja út í garði í gær, þá síðustu fyrir svefninn, fann ég að eitthvert kvikyndi skreið eftir hálsinum á mér. Ég hristi mig alla en fann þá þúsund litlar lappir færa sig niður á bak. Ég endasentist upp, henti af mér bol og buxum, hristi eins og ég ætti lífið að leysa, og fór svo upp í rúm. En - þegar Anna Lilja kom til að kyssa mig góða nótt varð hún skyndilega kríthvít í framan og hentist út í vegg.

Ég dáist að henni að hafa ekki æpt og vakið barnið því köngulóin sem hljóp í ofboði undir koddann minn var RISA.

Ég svaf ekki mikið þessa nótt, við fundum náttúrlega aldrei köngulóna og ég svaf með brúsa af hárspreyi innan seilingar. Mig hefur klæjað síðan.

Ég hef engar sérstakar myndir að birta en af því Egill Helga er að birta svo flottar myndir af blómum frá Krít ætla ég að herma og birta blómamyndir frá Spáni.
Annars fer útlegðinni að ljúka í bili, ég er samt enn heimilislausa blaðakonan, svo ef einhver þarf að láta passa íbúð, herbergi, bíl, hund eða kött í júlí og ágúst er ég tilvalin:)