mánudagur, 8. desember 2008

Þetta er neyðaraðvörun, ég endurtek......þetta er neyðaraðvörun.

Nei, þetta tengist Íslandi ekki neitt, aldrei þessu vant.

Við mæðgurnar vorum á leið í neðanjarðarlest í London þegar skyndilega kvað við í kallkerfinu:

"This is an emergency announcement, everybody must leave this station immediately, I repeat.... "


Það skipti engum togum, móðirin tók stigann í tveimur stökkum og henti sér lárétt inn í lest sem stóð við brautarpallinn.

Á elleftu stundu, þegar hurðin var í þann veginn að lokast, kom dóttirin (27 ára) hlaupandi og tróð sér inn í vagninn. Hún klemmdist í hurðinni en tókst með harðfylgi að losa sig og stóð svo fyrir framan móður sína, eitt spurningarmerki.

“Ætlaðirðu að skilja mig eftir?”

(Úps!)

“Nei, ert’eitthvað verri? Ég hélt þú værir alveg á hælunum á mér.”

Við fengum aldrei skýringu á hver neyðin var á brautarstöðinni, en þetta rifjaði upp fyrir okkur annað atvik sem gerðist fyrir nokkrum árum þegar við bjuggum í Englandi.

Ég var vön að keyra Önnu Lilju, umrædda dóttur, í skólarútuna á morgnana.
Einn morguninn kvaddi ég hana að venju með kossi og knúsi og rak svo bílinnn í gír um leið og hún steig út.
Bíllinn tók kipp og það var með naumindum að henni tókst að víkja sér undan.
Hún sagði mér þegar hún kom heim úr skólanum að bílstjóranum hefði þótt þetta skrýtið:

“Mikið var þetta einkennilegt. Fyrst kyssir hún þig og knúsar og svo reynir hún að keyra yfir þig.”
Sagði bílstjórinn.

Hm.

“So much for the greatest love of all,” segi ég nú bara og skammast mín smá.

En bara smá, því ég elska hana af öllu hjarta og hún veit það vel.

Við áttum yndislegan dag í London, fórum í Jólalandið í Hyde Park (soldið mikið túrista en okkur var alveg sama), hlustuðum á klassíska tónlist í Covent Garden og gengum glaðar í gegnum Soho í mannþrönginni.

Íslenskt efnahagsklúður víðs fjarri og jólaljósin og kátína mannfólksins í London það eina sem skipti máli.

Er á meðan er.

Sé í fréttunum að ástandið heima versnar bara - ef eitthvað.

Tekst á við það þegar ég kem heim eftir viku.

Myndin er af Önnu Lilju í Jólalandinu.
miðvikudagur, 3. desember 2008

Heil þjóð beitt heimilisofbeldi

Stödd í Englandi, fjarri Íslandsströndum, fylgist ég, eðli málsins samkvæmt, með framvindu mála heima og finn hvernig depurðin og reiðin hafa náð tökum á mér.
Sem betur fer er það bara hluti tilfinningaskalans, því litlum eins og hálfs árs gleðigjafa, sem enn hefur ekki hugmynd um synd heimsins, tekst að vekja hjá mér fögnuð daglega með geislandi brosi og ótrúlegum uppátækjum.
Hún veit ekki að þegar við syngjum með jólasveinunum “ég á heima á Grátlandi” fæ ég sting í hjartað. Skyndilega hefur þessi sakleysislega setning fengið nýja merkingu.

Ég hlustaði með öðru eyranu þegar lesið var úr forystugreinum dagblaðanna í morgun og hjó eftir að Mogginn fjallaði um mótmæli, en varaði við reiði og æsingi.
Alltaf jafn hófstilltur, Mogginn. Og nú á almenningur að vera hófstilltur líka. Skiptir ekki máli þó einhverjir hafi verið ákaflega óhófstilltir og rústað heilli þjóð.

Það er þekkt að konur sem eru beittar heimilisofbeldi koðna niður undan ofbeldinu. Reiði þeirra er brotin á bak aftur, sökin er þeirra og þá skiptir ekki máli hvort þær hófu sambandið vel menntaðar og fullar sjálfstrausts eða hvort þær komu úr erfiðari aðstæðum. Sjálfsvirðingin fer veg allrar veraldar og eftir situr einstaklingur sem er eins og skugginn af sjálfum sér.

Réttlát reiði hefði kannski bjargað einhverju.

Ég sá breska sjónvarpsmynd fyrir nokkrum árum sem gerðist á tímum kalda stríðsins. Myndin fjallaði um frelsið og sjálfsvirðinguna, um tvær ungar konur, aðra í ofbeldissambandi í Manchester, hina í rússnesku fangelsi þar sem hún sat inni fyrir skoðanir sínar.

Til að gera langa sögu stutta er punkturinn þessi:

Rússnesku stúlkunni tókst að hefja andann upp yfir fangelsismúrana, hún var frjáls því hún átti sannfæringu sem henni var ljúft að verja. Hún var þrátt fyrir allt mun frjálsari en sú breska, sem var brotin niður persónulega dag eftir dag.

Nú hefur íslenska þjóðin í heild verið beitt grófu heimilisofbeldi. Ofbeldismaðurinn gerir eins og hans er von og vísa: Skellir skuldinni á fórnarlambið og heimtar að það haldi stillingu sinni og verði áfram prútt og stillt.
Það er gjörsamlega óraunhæf krafa og vonandi að fórnarlambið haldi áfram að vera bálreitt og baráttuglatt. Annars koðnar það niður og missir alla reisn.

Fjöldi Íslendinga kvíðir jólunum og persónulega hef ég aldrei upplifað áður að hátíðleg jólatónlist, sem ég í örvæntingu hef spilað undanfarið, megni ekki að hefja andann upp yfir reiði- og depurðarmúrinn.

Ég neita samt að gera þetta að jólum þar sem bull, ergelsi og pirra gegna aðalhlutverki.
Heima bíða mín fleiri litlir gleðigjafar sem munu lýsa upp jólin.

Ég mun samt halda áfram að vera reið og eftir áramót geri ég upp við mig í hvaða farveg ég beini reiðinni. Reiði sem er réttlát og allt nema hófstillt.