mánudagur, 31. desember 2007
Tvö og hálft bónorð og kastalabrúðkaup
föstudagur, 28. desember 2007
Látiði dótið vera, krakkar, pabbi og frændi eru að leika...
Skelfileg synd hversu margir fengu jólagjafir sem þá langaði ekkert í. Maður á bara að gefa þeim sem standa manni næst, þá þekkir maður nógu vel til að vita að minnsta kosti hvað þeir vilja ekki. Þegar ég sagðist vera búin að kaupa allar Stiklurnar og diskinn með Geir Ólafssyni handa elsta syni mínum varð hann nánast fornermaður og spurði hvort ég ætlaði að svíkja hann um hamingjubókina eftir Þorgrím Þráins.
Ég er persónulega mjög lukkuleg með mínar gjafir, en jafnvel þó ég hefði ekki verið það hefði ég ekki nennt í biðröð til að skipta. Á ekki orð yfir þetta fólk alltsaman sem er nýsloppið úr jólaösinni en getur ekki beðið eftir næsta skammti á janúarútsölunum.
Talandi um jólagjafir þá verð ég að deila því með ykkur þegar ég ætlaði að sækja son minn (á fertugsaldri) á aðfangadagskvöld þar sem hann var staddur hjá tvíburabróður sínum.
Ertu að koma strax? spurði hann og ég heyrði angistina í röddinni.
Já, sagði ég, er það ekki allt í lagi?
Nei, við erum nýbyrjaðir að setja saman bílabrautina.
Þegar ég kom seinna um kvöldið var bílabrautin tilbúin og drengirnir sem áttu hana löngu sofnaðir. Pabbinn og frændinn hinsvegar ljómuðu eins og sólir þar sem þeir léku sér á gólfinu. Á öðru heimili sem ég þekki vel til fengu börnin leikjatölvu, en foreldrarnir og frændfólk sem býr þar yfir hátíðarnar hefur ekki litið upp síðan á aðfangadagskvöld. Þau eru í badminton, keilu og guð má vita hverju á tölvunni meðan börnunum sem eiga hana er bandað frá í óþolinmæði.
Getið þið ekki farið út að leika, krakkar? spyr fullorðna fólkið sem er búið að stórslasa sig hvað eftir annað í einhverjum Nintendo Vii-tölvuleikjum.
Dóttir mín fékk dagatal með myndum af David Hasselhof, það var innahússdjókur sem vakti mikla kátínu systkinanna en ég var ekki almennilega innvígð í það. Sjálf fékk ég dagatal frá vinkonu í Finnlandi, New York Firefighters, gríðarlega flottir karlmenn á hverri síðu og fannst það mjög fyndið!!!
Ég las bakþanka dr. Gunna í Fréttablaðinu í gær að mig minnir, þar sem hann kvartar yfir leikfangaumbúðum sem séu ekki á færi nema handlögnustu manna. Ég verð að leggja örlítið í það tuðpúkk því mér blöskruðu akkúrat umbúðirnar utan um allt dótið. Til dæmis var í einum risastórum kassa læknataska og læknadót sem hefðu rúmast í fimm sinnum minni pakkningu.
Að öðru. Ég verð alltaf soldið mikið glöð í hjartanu þegar fólk sem ég held að sé með allt á hreinu viðurkennir að það skilur ekki plottin í viðskiptalífinu. Þóra Kristín og Mikki Torfa ræddu þau mál í Kastljósi í gær og ég var svo fegin að heyra að þau botna hvorki upp né niður í Rei-dæminu öllu. Það geri ég ekki heldur. Svo verð ég að dást að Bubba með stórsveitinni þó hann hafi verið pínulítið svona eins og skopútgáfa af sjálfum sér, leikinn af Ómari Ragnarssyni. En flottur, alltaf flottur...
sunnudagur, 23. desember 2007
Sikksakkað í leit að leiðum og loðnar jólasveinahefðir
Mamma, sem bæði er með sykursýki og hjartveiki á háu stigi og fer helst ekki úr húsi allt árið, breytir alveg um persónuleika í desember. Hún skreytir greinar og býr til jólaskreytingar handa liðnum og lifendum og svo þarf að koma herlegheitunum á leiðin eða heim til þeirra sem enn tóra.
Útkeyrsla á þessum afurðum kom í minn hlut í gær. Gamla konan vill að sjálfsögðu koma með, sem er líka nauðsynlegt því ég veit ekkert hvar allt þetta fólk er niðurkomið. Við byrjuðum í Fossvoginum og gekk vel framan af. Svo fór þetta að verða örvæntingarfull leit að leiðum á merktum götum sem eru allar eins. Það hafðist þó fyrir rest.
Hún var líka með skreytingar handa hinum og þessum kerlingum og körlum og allt býr þetta fólk úti á landi.
Fyrst var það Garðabær.
"Veist þú ekki hvar þetta er," spyr hún í forundran þegar ég spyr hvert við ætlum.
"Nei, ég rata ekkert í Garðabæ."
"Það er áreiðanlega í þessa átt," segir hún og bendir, en tilfinningin segir mér að það sé akkúrat öfugt. Enda erum við rammvilltar í Garðabænum í hálftíma þangað til við finnum götuna.
"Það er þarna" segir hún glöð og bendir á blokk sem ég að sjálfsögðu snarast inn í og rýni á allar bjöllurnar.
"Það er ekki þarna," segi ég þegar ég kem aftur út í bíl.
"Þá er það þessi," segir hún og bendir á aðra blokk.
Eftir nokkrar svona fýluferðir hringi ég á 118 og fæ að vita húsnúmerið.
Þá er það Grafarholt.
"Þú hefur áður keyrt mig þangað," segir hún vongóð. "Þú veist hvar þetta er."
"Mamma, það var í fyrra og ég hef ekki klúu."
Svo finn ég samt götuna og spyr númer hvað.
"Ég veit það ekki," segir hún, "manstu virkilega ekki hvar þetta er?"
Niðurtalning og æðruleysi. Ég missi mig ekkert. Og aftur 118. Á endanum er allt komið þangað sem það á að fara. Ferðin tók rúma fjóra tíma. Þetta tilheyrir.
Jól eru fyrir börn og gamalmenni.
Ég dáist svo að krökkunum okkar sem láta sig hafa það að trúa á jólasvein sem engin leið er að henda reiður á, enda jólasveinahefð á Íslandi loðnari en orð fá lýst.
Búa þeir í Esjunni? Ekki kaupa börn í Vestmannaeyjum það. Þau kveðja Grýlu og jólasveinana á Þrettándanum og horfa á eftir þeim halda í átt að heimili sínu í Helgafelli.
Og búa jólasveinar á Norðurlandi í Esjunni?
Það þarf ekki að segja mér að nokkur Akureyringur samþykki það.
Er eitthvað sem bendir til að jólasveinar séu með dótafabrikku í einhverju fjallanna? Af hverju eru þeir á jólaböllum hist og her áður en þeir eru komnir til byggða?
Og hvað með gömlu jólasveinana, pörupiltana og þjófana sem við viljum endilega að börnin okkar þekki líka. Þetta er alveg glórulaust.
En nú er þetta að bresta á allt saman og ég óska lesendum eyjunnar gleðilegra jóla.
fimmtudagur, 20. desember 2007
Saga af rauðkáli, sykri og elskhuga
Verð að segja á þessum dimmasta og stysta degi ársins að þrátt fyrir góðan vilja hefur veðrið undanfarnar vikur náð að lauma sér inn í sálartetrið. Fimm krappar lægðir á viku er bara of mikið fyrir mig.
Verð auðvitað að taka fram að mér gengur allt í haginn, þannig séð, og um síðustu helgi var yngsta barnabarnið skírt í Kristskirkju við yndislega athöfn. Stúlkan fékk nafnið Thelma Rós. Annica litla Ísmey verður svo skírð fyrir áramót, áður en hún fer aftur til síns heima í Englandi. Það má til gamans geta þess að til stóð að skíra Annicu í Reading, í kirkjunni þar sem pabbi hennar var skírður og fermdur. Það er hins vegar ekki þeirra sókn svo presturinn gekkst inn á að gera þetta ef þau mættu með barnið í messu á hverjum sunnudegi í hálft ár.
My arse, sögðu foreldrarnir, þá getum við alveg eins skírt á Íslandi um jólin.
Það er sumsé margt búið að vera ljúft og skemmtilegt í desember, nema hvað ég hef ekki alveg náð að stjórna geðillskunni. Hún brýst meðal annars fram gagnvart sljóum unglingum við afgreiðslu og jafnvel gömlu fólki sem er að tína klinkið sitt í kassadömuna. Þetta afhjúpar auðvitað hvað ég er vond inn við beinið.
Í gær var ég stödd í Netto og ranglaði þar stefnulaust um, var að leita að sykrinum og var ótrúlega heimsk í framan þar sem ég góndi upp í hillurnar. Ég verð alltaf svona í búðum.
Þá var bankað létt á öxlina á mér og gömul kona brosti til mín og spurði hvort ég vissi um rauðkálið.
Nei, ég vissi ekki um það, vissi hún kannski um sykurinn?
Nú æxlaðist það þannig að ég fór að leita að rauðkáli og gamla konan að sykrinum. Þegar ég kom til hennar stuttu seinna með rauðkál bæði í dós og krukku hélt hún á sykurpokanum.
Við spjölluðum smá og hún var svo þakklát mér fyrir hjálpina!? Hún hafði svona bros eins og gamalt fólk hefur stundum, sem lýsir út um sálina og er bæði fullt af visku og þroska.
Það þurfti ekki meira til að koma mér í gott skap.
Og nú er elskhugadagur, það er, ef ég á elskhuga. Við elskhuginn höfum skipst á heilsufarssögum á netinu undanfarið, það er fátt krúttlegra en miðaldra fólk í tilhugalífi. Vonandi höfum við heilsu til að njóta dagsins, drekka kakó með rjóma, borða piparkökur og ....
...ef þetta er ekki allt ímyndun í mér....
laugardagur, 15. desember 2007
Af húsflugum, instant karma og desemberminningum
Ef einhver hefði spurt fyrir nokkrum dögum hvernig hún væri þessa Edda á eyjunni hefði svarið örugglega verið sirka "jú, hún er meinleysis týpa, sem gerir ekki flugu mein". En ekki lengur.
Ég þurfti að fara í smá rannsókn um daginn og ákvað að gera soldið jólalegt svo ég gæti látið fara vel um mig meðan ég væri að jafna mig. Það fór jóladúkur á borðið ásamt kertum af öllum stærðum og gerðum og svo fleygði ég seríum í gluggakisturnar. Löngu hætt að nenna að hengja þær upp.
Þar sem ég lá og las í sófanum fór skyndilega í gang eitthvert suð og allt í einu var húsfluga í stofunni. Hún var fyrst á flögri við lampann en ákvað svo að heilsa upp á mig þar sem ég lá og las. Ég bandaði henni frá nokkrum sinnum en hún kom jafnharðan aftur. Skyndilega missti ég mig, þreif dagblað og sló af öllum kröftum í áttina að flugunni. Það þarf náttúrlega ekki að orðlengja það að borðið fór um k0ll, kertin tókust á loft og vaxið lak á dúka, mottur og parket. Fluguhelv... lá örend í vaxinu.
Það er ekkert jólalegt hjá mér í augnablikinu, vaxið er einhvernveginn út um allt. Svo fékk ég þetta heiftarlega tak í bakið og get helst engan veginn verið. Það er trúlega instant karma útaf flugumorðinu. Hvað eru líka húsflugur að vilja upp á dekk í miðjum desember? Og hvernig nær maður kertavaxi úr mottum og dúkum?
Ég læta þetta samt ekki slá mig út af laginu og held ótrauð áfram í jólafílingnum. Í augnablikinu er það ekki erfitt því Laddi er í þætti í útvarpinu og við það rifjast upp gamlar desemberminningar. Til dæmis þegar Jóla hvað? kom út á sínum tíma. Við vorum tvær vinkonur á gamla Óðali að drekka hvítvín og í hvert skipti sem Skrámur sagði "jóla hvað" öskruðum við af hlátri og skáluðum þannig að fóturinn brotnaði undan glasinu.
Ég dröslaði vinkonu minni heim eftir skemmtunina og mamma hennar fékk áfall þegar hún sá hana. "Við verðum að kalla til lækni," sagði hún.
"Hvað meinarðu?" spurði amman sem bjó á heimilinu. "Sérðu ekki að krakkinn er dauðadrukkinn?"
Byttunni var komið í rúmið en minningin lifir:) Og rétt að geta þess að "krakkinn" var um tvítugt.
fimmtudagur, 6. desember 2007
Má ég spurja aðra spurningu????!!!!!
Frábært klip hjá Örnu um Bjarna Ben. þegar hann var tekinn. Vekur samt athygli, ekki síst í ljósi nýrra Pisa-niðurstaðna, að kennslukonan, brosmild og ljúf segir "þeim langaði að .....
...og sú sem spyr mest segir: Má ég spurja aðra spurningu...
Æ.....
miðvikudagur, 5. desember 2007
Gjaldþrot og nautnasýki
Átti samtal við vinkonu áðan sem er öryrki og búin að vera í mörg ár. Hún hafði ætlað að opna reikning í Landsbankanum en þá kom í ljós að lán á hana hafði verið afskrifað fyrir áratug eða svo og hún því í lífstíðarbanni hjá bankanum.
Hún var að vonum hálfsvekkt yfir þessu og minntist á að sumir eigendur bankanna hefðu orðið gjaldþrota en átt sér viðreisnar von. Það á litli maðurinn á Íslandi hins vegar ekki.
Ég hef sagt það áður og segi enn, ég skil ekki íslenska peningapólitík. Hef alltaf verið rati í fjármálum og aldrei jafn langt frá því að skilja algeng peningahugtök eins og nú. Ég hugsa um það eitt að eiga fyrir greiðsludreifingunni og skrimta á rest.
Ég fæ samt alltaf hland fyrir hjartað þegar því er slegið upp að Ísland sé best í heimi og velmegunin sé hér alla að drepa. Ég held það sé leitun á firrtari þjóð í jafn mikilli afneitun.
Ég nenni bara ekki lengur að láta það pirra mig.
Það kom til tals einhverstaðar þar sem ég var stödd í síðustu viku að ungt fólk á Íslandi eigi sér engar hugsjónir, yppti bara öxlum og segi, hvamar, erkialtilagi.
Ef það er rétt, sem mig grunar, þá er það mikil synd. Ungt fólk ætti að vera útbelgt af hugsjónum og baráttuhug fyrir betri heimi. Það bar líka á góma að þjóðin hefði glatað samúðinni og hæfileikanum til að setja sig í spor náungans. Ég vona að það sé ekki rétt.
Við þessi miðaldra eigum hinsvegar orðið nóg með að rækta eigin garð. Ég er upptekin af börnunum mínum og barnabörnum en finn hvað ég læt mér oft fátt um finnast það sem efst er á baugi hverju sinni.
Ég hef alltaf verið nautnasjúk og ekki lagast það með aldrinum. Stundum er hápunktur vikunnar hjá mér pop og kók og góð spóla. Eða náttúrlega elskhuginn. Ekki má gleyma honum, ef hann er þá til. Kikkið krakkar, kikkið skiptir máli.
Og ég er í fínu jólaskapi og læt ekki auglýsingar sem hamra á "þú verður að eignast" og "þú mátt ekki missa af" trufla mig hið minnsta. Nú gildir að standa keikur og fara inn í aðventuna með bros á vör þrátt fyrir blankheitin . Það má alltaf koma sér í jólafíling á aðventukvöldum sem kosta ekki neitt og hvað gjafir varðar þá kom það í ljós í breskri könnun að fæstir mundu hvað þeir fengu í jólagjöf í fyrra. Þess vegna ætla ég slök inn í jólin.
sunnudagur, 2. desember 2007
Af tilhleypingapartýjum og pólitískri rétthugsun
Ég er komin með barkabólgu af dönsku eftir að hafa verið bílstjóri danskra vina foreldra minna í þrjá daga. Ég rembist við að bera dönskuna fram með tilheyrandi kokhljóðum og skil ekkert í mér að tala ekki sænsku frekar, þau skilja hana ekkert síður.
Já, og hæ. Ég er sumsé komin með bloggið mitt á eyjuna þar sem ég býst við að verða tekið með tilheyrandi lúðrablæstri og fagnaðarlátum.
En aftur að dönsku gestunum, herra og frú Petersen. Þau hafa komið hingað skrilljón sinnum áður og telja nú trúlega að hver fari að verða síðastur að hitta mömmu, sem er gömul og lasin. Þau búa á Kabin-hóteli og af því einmitt þau hafa komið svo oft áður er ekki nauðsynlegt að þvæla þeim í bíltúra um allar trissur.
Og rétt þegar ég hélt að fólk gæti ekki lengur komið mér óvart kemur í ljós að frú Petersen er að safna umslögum utan af fjölnota lyfseðlum!!??? Mér tókst að grafa upp þrjá og og lýg því ekki, hún hefði ekki verið glaðari þó ég hefði afhent henni afsal að Magasin du Nord og öllu heila klabbinu og sent hana með handritin til baka að auki.
Í gærkvöldi stimplaði ég mig svo út af Danavaktinni og fór í árlegt tilhleypingapartý til klerksins í Óháða. Hann efnir til þessara teita af hjartans einlægni og ég spurði hann fyrir partý hvort þarna væri virkilega fullt um fína drætti og hvort bankabækur, hlutabréfaeignir og annað smálegt lægi frammi, svona rétt svo maður vissi að hverju maður gengi.
Hann hélt nú það en svo klikkaði klerkurinn á þessu. Þarna var hins vegar fullt af áhugaverðu fólki og óhætt að segja að hjá Pétri eigi gömlu sannindin við; að kristilegu blómin spretta, kringum hitt og þetta. Annars vogar maður sér ekki að minnast á kristindóm á opinberum vettvangi og þrætir blákalt fyrir að hafa keypt bleikt handa ömmustelpunum tveimur sem á meira að segja að skíra í desember. Úps!
En ég fór semsagt ein heim úr þessu ágæta partýi, enda hefur það komið fram í fyrri færslum að kannski á ég þegar elskhuga og á þar af leiðandi ekkert erindi í svona partý.
Nú er hins vegar komið að því að sinna Dönunum enn á ný. Þeir halda heimleiðis snemma í fyrramálið en fá að sjálfsögðu almennilegt kveðjuteiti í kvöld þar sem pólitísk rétthugsun verður rædd í þaula. Ingelise er nefnilega afar mikið niðri fyrir þegar kemur að innflytjendamálum og ég myndi ekki einu sinni þora að hafa eftir henni yfirlýsingarnar, hvað þá að ég þyrði að viðurkenna að stundum finnst mér hún hafa nokkuð til síns máls. Men, paa gensyn...
sunnudagur, 25. nóvember 2007
Kannski var flottasta Eddan afhent um helgina - nefnilega ég
Nú er verið að afhenda Eddur hægri vinstri í sjónvarpinu. Þá Eddu sem "hér heldur á penna" fær þó enginn afhenta, nema elskhuginn hafi um helgina fengið hana óskipta og þá ekki í samkeppni við nokkurn mann. Enda er hann langbestur og skemmtilegastur, að ekki sé talað um fimina í ... já, hérna, einmitt...
Annars hef ég engan áhuga á hinni eiginlegu Eddu-verðlaunaafhendingu nema hvað ég er arfaglöð að Egill skyldi valinn sjónvarpsmaður ársins. Hann er svo tvímælalaust bestur. Menn hafa reynt að apa hann eftir í hinum og þessum þáttum, en aldrei haft erindi sem erfiði. Og rétt í þessu fékk hann verðlaun fyrir Kiljuna. Jess. Til hamingju, Egill!!!!
Í síðasta Kiljuþætti var Egill með Sigurð Pálsson í viðtali og þar ræddi Sigurður um ástar/haturssamband sitt við Ísland og Frakkland.
Ég á sjálf í gríðarlega flóknu ástar/haturssambandi við landið mitt Ísland, og veit ekki alltaf hvernig ég á að höndla það.
Ég skil ekki þessa þjóð, finnst hún forpokuð og leiðinleg að mestu. Þrátt fyrir að vera "skrúuð " í öllu tilliti, sama hvort það eru bankarnir, olíufélögin, stórmarkaðirnir eða bensíverð og -samráð þá gerir fólk ekkert nema í mesta lagi að tuða kurteislega í leigubílum og eftirmiðdagsþáttum.
Ekki það að ég geri neitt heldur. Samt hef ég aldrei borgað meira fyrir símann, aldrei borgað hærri vexti í bönkum, ég sem stóð í þeirri trú að allt væri þetta gert í hagsmunaskyni fyrir pöpulinn. Ég hef heldur aldrei borgað meira fyrir matvöru þrátt fyrir "frjálsu samkeppnina".
Mér er alveg sama um forríka liðið en óttast sinnuleysi hinna sem hafa ekki lengur trú á verkalýðshreyfingunni eða stjórnmálamönnum. Enda sannar það sig ár eftir ár að kosningaloforð eru svikin og án afláts logið upp í opið geðið á manni. Viðkomandi lygarar bera þó aldrei ábyrgðina heldur svikarar síðan í fyrra eða hitteðfyrra. Fy fan.
Ég vildi að stjórnmálamenn væru með nef eins og Gosi.
Þar sem skítnum í þjóðfélaginu er að mestu sópað undir teppi, tók ég glöð þátt í bænagöngu á laugardaginn, bara til að sýna að mér stendur ekki á sama. Þetta er eitthvert jákvæðasta framtak hér í langan tíma og hellingur af fólki sem sá ástæðu til að mæta.
Ég sá samt engan auðjöfur í hópnum og enga pólitíkusa. Beðið var fyrir þjóðinni framan við Alþingishúsið, en það örlaði ekki á neinum alþingismanni. Þeir voru í helgarfríi.
Svo á ég við það að stríða að elska þetta land og verja það með kjafti og klóm undir ákveðnum kringumstæðum. Ég á von á Englendingum sem ætla að dvelja hjá mér yfir áramótin og stend mig að því að vona brjálæðislega að veðrið verði gott svo þeir geti séð geðveikina sem tíðkast hér á á gamlárs. Og ég er pínu montin og hlakka til að segja við þau: Já, þetta sjáið þið náttlega hvergi annarstaðar. (Eins og mér blöskrar bruðlið.) Ég þykist líka ætla með þau í Bláa lónið, sem mér persónulega finnst agalega misheppnað, nema ef ég er með útlendinga með mér. Hvað er það? Og að fólk sé í biðröðum fyrir utan dótabúðir í marga klukkutíma!!!! Hvað er það????
Ég get ekki hugsað um þetta fyrir svefninn, verð pinnstíf af pirringi og andvaka í alla nótt.
Ætla þess vegna að horfa á Law and Order og reyna að gleyma "fokkings" ruglinu eins og unglingarnir segja...