sunnudagur, 24. febrúar 2008

Hey mr. Taliman, talley me banana...

Ég er í miðjum flutningum og var kannski doldið pirruð fyrr í dag. Nú er hvergi hægt að drepa niður fæti fyrir drasli en samt er hellingur eftir.
Ég misreiknaði mig alveg með kassana og fór í morgun í Bónus til að fá fleiri. Þeir áttu bara svona bananakassa en sögðu að allir væru vitlausir í þá sem væru að flytja. Ég þáði átta stykki og starfsmaðurinn setti þá á trillu og hvarf.

Það var örugglega eitthvert kast á trillunni og á leiðinni í gegnum verslunina stímdi ég þrisvar á og fimm sinnum ultu kassarnir um allt.

Svo fór ég í Byko til að kaupa meira bóluplast og límband.

Ég talaði við þrjá starfsmenn á leiðinni gegnum búðina sem allir voru að tala í síma. Einn benti mér í áttina að plastinu og sagði starfsmann þar á sveimi. Ég leitaði í korter að starfsmanninum og missti svo þolinmæðina, reif plastið af stranganum og fann svo sög sem ég notaði til að sarga plastið í sundur. Á endanum þurfti ég að rífa og það var eins og rotta hefði hefði komist í samskeytin.
Enn bólaði ekki á neinum starfsmanni svo ég fór sjálf að leita að límbandinu og fann það á endanum. Á kassanum var hins vegar ekki hægt að afgreiða mig þar sem ég hafði misst þolinmæðina með plastið og enginn vissi hversu marga metra ég væri með né hvað metrinn kostaði.
Þegar ég dröslaði kössunum heim var ég að hugsa um að meðan ég drakk var alltaf hægt að fá fólk með sér í flutninga. Maður þurfti bara að eiga nógan bjór og lofa pítsu. Á þessum tímapunkti hefði ég örugglega verið farin að syngja bananalagið með Harry Belafonte.

Kassarnir fylltust hraðar en auga á festi og nú var límbandið líka búið.

Ég skammast mín ekki fyrir að segja það en sumt eiga konur ekki að þurfa að kunna. Eins og hvernig svona límbandsrúlla er tekin af græjunni og ný sett á.
Ég böðlaðist í hálftíma, en tók svo græjuna og nýja límbandið með mér því ég þurfti hvort sem var fleiri kassa.

Nú fór ég í Elko og fékk fína kassa og þjónustulipur strákur á lagernum skipti um límrúllu. Ég ákvað að koma við á kaffihúsinu og kaupa sætmeti með kaffinu, ekki veitti af orkunni.

Þar taldi ég sjö starfsstúlkur sem allar horfðu opinmynntar á konu sem sagðist vera að sækja köku sem hún hefði pantað. Enginn kannaðist við það og meðan ein stúlkan útskýrði í löngu máli að um misskilning væri að ræða stóðu allar hinar aðgerðarlausar og horfðu sljóar á. Ég ætla ekki að orðlengja það, en hálftíma seinna komst ég út með tvo kanilsnúða í farteskinu.

Ég er ekki að segja að ég hafi verið brjáluð yfir þessari þjónustu, ég var ARFABRJÁLUÐ.

Þegar ég kom heim hringdi ég í dóttur mína til að þusa, en sex ára dóttir hennar, Lilja Maren, svaraði.
Mamma er ekki heima, sagði Lilja.
Hvert fór hún? spurði ég.
Eitthvað í ljós og svoleiðis. Ég er að elda.
Hvað ertu að elda?
Nú, mat handa fjölskyldunni og ömmu Lind og langömmu.
Hvað ætlarðu að gefa þeim?
Lamabahrygg með öllu.
Þú ert svo æðisleg, verst að amma sér þig alltof sjaldan.
Nei, er það nokkuð? Við sjáumst nú alltaf af og til, sagði Lilja.
Ég var alveg að springa úr hlátri.
Ætlarðu að segja mömmu að ég hafi hringt?
Já, ef ég steingleymi því ekki í matartilbúningnum.

Ég lagði niður tólið og hugsaði: Rosalega er þetta skemmtilegt og gáfað barn.
Og hef verið í góðu skapi síðan.

Gunnhildur vinkona mín hefur staðið í ströngu með mér. Ég er henni óendanlega þakklát.

laugardagur, 23. febrúar 2008

Eurobandið? Ert'ekk'að grínast?

Ég eyddi hátt á fjórða þúsund krónum í símakosningu Júróvisjón, en minn kandidat komst ekki á blað.
Mér fannst Ragnheiður Gröndal og Buffið bera af, en það er dæmigert fyrir þessa þjóð að velja karakterlaust og steindautt "teknó-diskó" sem mun hverfa innanum öll hin karakterlausu lögin í Serbíu.
Ekki að það skipti neinu máli.
Mér fannst bara Ragnheiður svo æðisleg. .

miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Að blóðmjólka fréttir

Rak augun í það á pressuvefnum að pressudagurinn er á laugardaginn og búið að tilnefna margt ágætisfólk til blaðamannaverðlauna.
Það gleður mitt gamla hjarta að vinir mínir á ritstjórn DV skuli vera tilnefndir og spurning hvort DV fær þar ekki nokkra uppreisn æru þó aðrir væru teknir við stjórnartaumum.

Mörg þörf og áhugaverð mál voru tekin fyrir á gamla DV þó þjóðin væri öll í móðursýkiskasti undir það síðasta.

Á vefnum er kosning um hvað fólki finnst um tilnefningarnar og í augnablikinu er staðan þessi: Mjög góðar og eðlilegar : 20%. Flestar eðlilegar og í lagi: 41%. Fæstar eðlilegar og í lagi: 32%. Allar út í hött : 7%.

Það má örugglega alltaf deila um hver er verðugur, en persónulega finnst mér skúbbið vega þyngra hjá DV-ritstjórninni en eftirfylgni um sama mál á RÚV.
Það var meira að segja ekki laust við að fólk væri búið að fá nóg af umfjöllun RÚV þar sem látunum ætlaði aldrei að linna og hver ógæfumaðurinn á fætur öðrum var dreginn grátandi fram í kastljósið. Spurning hvað er hægt að blóðmjólka sömu kúna lengi.

Ég held að minnsta kosti með einvala liði á ritstjórn DV.

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Hvað er ég, Imelda eitthvað?

Hvern hefði órað fyrir því að út úr fataherberginu mínu, sem er reyndar geymsla líka, kæmu 32 pör af skóm, að Nokia-stígvélunum meðtöldum. Hvað er ég, Imelda eitthvað?

Og út úr sama herbergi hef ég nú talið 18 rúllur af gjafapappír, afmælis og jóla, og tvo sneisafulla poka af borðum til að skreyta með. Örugglega af því ég er annáluð fyrir svo rosalega smekklegar gjafir!!??

Þá er ég ansi hugsi yfir hátt í 400 nafnspjöldum sem ég hef sankað að mér á undanförnum árum, sex stílabókum fullum af fróðleik frá Árósum, haug af tölvudiskum sem ég hef ekki klúu um hvað innihalda og tuttugu og tveim jóladúkum í öllum stærðum.

Já, ég er að flytja. Kannski jafn gott.

fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Gamalt samtal og gestsaugu

Horfði á Kiljuna í gærkvöldi og það rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við frábæra blaðakonu (nafni hennar verður að sjálfsögðu haldið stranglega leyndu) um Egil Helga.
Ég sagði að Egill væri maður sem ég hefði auðveldlega getað orðið skotin í og þá kom hún mér gjörsamlega á óvart (af því hún er svona streit týpa og enginn galgopi eins og ég) og sagði að ef hann væri á lausu þyrfti ég fyrst að berjast við hana.

Þetta var fyrir mörgum, mörgum árum.

En það er allt í lagi að mæra Egil, hann á alveg fyrir því. Það er ekki tilviljun að maður missir helst ekki af þáttunum hans, hvort sem um er að ræða þjóðfélagsmál eða menningarþátt á borð við Kiljuna. Það er líka athyglisvert að aðrir sem hafa farið af stað með sambærilega þætti hafa ekki haft erindi sem erfiði.

Ég var gjörsamlega heilluð af Vestur-Íslendingnum sem hann talaði við í gær og grét í hjartanu yfir sannleiksgildi orða hans þegar hann lýsti nútíma Íslendingnum sem væri ekki lengur í samhljómi við landið sitt og menningararfleifð. Þar sannaðist að glöggt er gestsaugað.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Súrrealísk yfirhalning

Mikið gengur á og í dag sat ég eins og örugglega flestir og ranghvoldi augunum á herbergi í Valhöll þar sem aumingja Villi (kýs að kalla hann það frekar en gamla Villa) hafði boðað til blaðamannafundar. Sem dróst og dróst þannig að hálf þjóðin upplifði “deja vu” og svokallað “húnasyndróm” sem tengist húninum í Höfða og Ingva Hrafni. Aumingja Villi segi ég einfaldlega af því hann hlakkaði svo til að verða borgarstjóri, ætlaði að gera svo vel og enda pólitískan feril með soltlum stæl. Fara úr embætti elskaður og dáður af borgarbúum. Eiginlega enginn vissi hver Villi var meðan hann var óbreyttur borgarfulltrúi í minnihluta svo þetta er allt afar mannlegt.


Svo gengur bara allt á afturfótunum. Auminga Villi, sem er opinn, einlægur og fljótfær, reynist ekki starfanum vaxinn. Hann hefur örugglega haldið eins og ég að það væri ekkert mál að vera borgarstjóri. Fannst kannski að fyrrverandi borgarstjórar væru ekki að gera neitt sérstakt, borgarstjórnarflokkurinn sæi um vesenið meðan borgarstjórinn stundaði borðaklippingar, skóflustungur, og veislur og tæki brosandi mót borgarbúum á skrifstofunni.
Gefum nú aumingja Villa tækifæri til að bæta sig.

Og ég minni á að farsælir stjórnmálamenn hafa haft mjög gloppótt minni. Eða eru allir búnir að gleyma okkar heittelskaða Steingrími Hermannssyni sem klóraði sér svo krúttlega í kollinum og mundi aldrei neitt?

Óla F-málið var líka eitt allsherjar örvæntingarklúður og nú gerist ég persónuleg. Ólafur var spurður út í veikindi sín og fór undan í flæmingi í stað þess að standa keikur og segjast hafa þjáðst af þunglyndi sem hann væri búinn að ná sér af. Þarna sýndi Óli F. fordóma sína gagnvart geðsjúkdómum sem aðrir hafa bloggað um og ástæðulaust að bæta nokkru í það.

Málið stendur mér nærri þar sem ég greindist nefnilega með ofurkvíða fyrir ekki svo margt löngu og hef átt mjög erfitt með horfast í augu við það. Meðal annars til að vinna á eigin fordómum skrifaði ég bráðskemmtilega grein í Morgunblaðið um þunglyndi sem hægt er að lesa inni á vef Handarinnar, sem eru mannræktarsamtök. Greinin er á forsíðu og heitir Ég er nagli og hlusta ekki á nætt væl um þunglyndi. Höndin efnir einmitt til málþings um efnið í byrjun mars. Og eins og það er leiðinlegt að hlusta á sjúkrasögur annarra (næst verst eftir að hlusta á drauma annarra), fullvissa ég lesendur um að þetta er þrusugóð grein.

Undanfarnar vikur hefur mér elnað sóttin og það lýsir sér með þunglyndi, auknum kvíðaköstum, lélegri sjálfsímynd og allsherjar tilvistarklúðri. Og nú ætla ég að segja ykkur skondna sögu.

Ég er leigjandi hjá gömlum hjónum í Kópavogi og sambúðin hefur að mestu gengið vel. Undanfarið hefur þó borið nokkuð á geðvonsku gamla mannsins vegna bílastæða okkar megin götunnar og hann hefur ráðist með óbótaskömmum á fólk sem í grandaleysi leggur þar. Mínir gestir hafa ekki farið varhluta af þessari þráhyggju gamla mannsins og á jólunum keyrði um þverbak þegar fyrrverandi tengdadóttir mín svaraði honum fullum hálsi með þeim afleiðingum að karl sagði mér upp leigunni. Það hafa því miður fallið nokkuð stór orð síðan því mér þykir vænt um gömlu hjónin.

Leiðindin náðu svo hámarki á föstudaginn. Ég var úti að skafa bílinn og gamli maðurinn var að moka snjó úr innkeyrslunni. Hann kom til mín þar sem ég var að skafa og hafði í hótunum og eftir því sem ég reiddist meir varð ég harðhentari við sköfuna. Ekki veit ég hvort snjór frá mér hefur lent á karlinum en hann gerði sér allt í einu lítið fyrir og jós yfir mig snjó úr skóflunni.
Þetta var í orðsins fyllstu merkingu súrrealískt andartak, svo súrralískt að ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta, en hraðaði mér burt á bílnum hið snarasta.
Reiðin sauð og kraumaði í mér meðan ég sinnti nokkrum erindum og þegar ég kom heim aftur bankaði ég upp á hjónunum og jós úr mér uppsafnaðri reiði. Þar hitti auðvitað skrattinn ömmu sína því karlinn er miklu betri í svona rifrildum en ég og á endanum var allt sem ég sagði óskiljanlegt vegna þess hvað ég grenjaði rosalega.

Gamla konan kom upp í látunum, rak mann sinn niður og hélt utan um mig meðan ég grét hömlulaust. Hún heimtaði að ég kæmi niður og drykki með þeim kaffi þegar ég væri búin að jafna mig og ég gerði það. Við föðmuðumst öll að skilnaði og ég vona að brottför mín úr þessu húsi verði án frekari vandræða. Ég tók samt allt föstudagkvöldið í að grenja fyrst ég var byrjuð á annað borð. Það var svo ótalmargt sem ég átti ógrátið eftir veturinn.

Ég var með barnabörnin mín á laugardaginn og ekkert gat huggað jafn vel og yndisleg systkin, Lilja Maren og Jón Breki, sem kúrðu hjá ömmu sinni og sögðu að hún væri besta amman í heiminum. Þau bættu að vísu við listann fjölmörgum öðrum sem væru líka bestir í heiminum, en það gerði ekkert til. Best væri einmitt að við værum öll best í heiminum.