laugardagur, 26. janúar 2008

Heyrnarleysi og gæsagangur

26. janúar.

Hlýtur ekki að vera eitthvað alvarlegt að í lífi manns ef maður er farinn að blogga á laugardagsmorgni og það án þess að hafa nokkuð sérstakt að blogga um?

Annars er þetta prýðislaugardagur og bóndadagurinn var líka fínn, ég dekraði við sjálfa mig eins og ég ætti lífið að leysa því elskhuginn hugsanlegi er elskhugi í orðsins fyllstu og þeim kemur maður ekki upp á eitthvert bóndadagstrít.

Ég lenti hins vegar í aðstæðum í gær sem eru kunnuglegar, það er, ég ætlaði með mömmu gömlu í verslunarleiðangur og sagðist myndu hringja þegar ég legði af stað. Ég byrjaði að hringja um hádegið og lét hringja út sirkabát sjöhundruð sinnum áður en ég lagði af stað með lyklana til að athuga hvað væri í gangi. Hún er hálfheyrnarlaus þessi elska, en maður fær alltaf þennan óþægilega hnút í magann þar sem hún er líka með sykursýki á háu stigi og hjartveik. Á leiðinni uppeftir var ég farin að rifja upp hvaða sálma hún hafði einhverntíma skrifað svo nostursamlega á blað en síðan rifið af því hún ákvað að treysta mínum sálmasmekk, hvaða presta henni líkar við osfrv. Þegar ég kom í Breiðholtið sat sú gamla næstum tilbúin í sófanum með símann í höndunum.
Af hverju svararðu ekki í símann? spurði ég örugglega pínu pirruð í málrómnum.
Hann hefur ekkert hringt, sagði gamla.
Ég er búin að hringja látlaust í tvo tíma, sagði ég.
Það getur ekki verið, sagði hún. Það er bara eitthvað að símanum.
Ég taldi frá tíu og niðrúr og svo lögðum við af stað.

Má til með að segja ykkur frá því að ég þarf að fara gríðarlega brattar brekkur til að komast að heiman, en í mikilli ófærð freista ég þess stundum að fara aðra leið sem er örlítið meira aflíðandi. Á leið til mömmu í gær fór ég léttari leiðina og á undan mér var stór jeppi. Það var hinsvegar mjög dularfullt hversu hægt hann ók, og ég sem er yfirleitt hvers manns hugljúfi í umferðinni, var farin að bölva duglega meðan ég lét hringja út hjá gömlu. Jeppinn tók svo beygju upp á gangstétt og þá kom í ljós að gæsapar var á heilsubótargöngu í hjólförunum. Ég flautaði á þær og hef aldrei fengið annað eins augnaráð. Þær horfðu á mig nístandi augnaráði og ég "ók gæsagang" út götuna. Krúttlegt. En nú hringir dyrabjallan, haladiði ekki að ég sé að fá heimsókn!!!!

fimmtudagur, 24. janúar 2008

Af hallarbyltingum

Kannski er þessi mynd af ráðhúsi Reykjavíkur táknræn fyrir lætin þar að undanförnu. Það er þó að sjá á myndinni að geimverur hafi ráðist að húsinu góða á Tjarnarbakkanum, en það sem nú gerist eru sprengingar innanfrá. Hver hallarbyltingin á fætur annarri, algjör sirkus, og maður veit varla hver er sirkusstjórinn hverju sinni.

Menn tala um að engin fordæmi séu fyrir því að fólk sé beðið að rýma áhorfendapalla og það sé gróf aðför að lýðræðinu, en þess er skemmst að minnast þegar fjölmiðlafrumvarpinu var mótmælt á Austurvelli, þá mættu mótmælendum fílefldir verðir þegar þeir ætluðu á þingpalla og enginn komst inn.

Það er hinsvegar einkenni á íslensku þjóðinni að allir verða búnir að gleyma þessu í næstu kosningum.

Ég hef persónulega ekkert á móti Óla F., hinsvegar er hann holdgervingur þeirra sem reka upp ramakvein í hvert skipiti sem til stendur að jafna ónýt og ljót hús við jörðu. Sömuleiðis virðist hann haldinn þráhyggju gagnvart flugvellinum. Skrýtin skrúfa Ólafur.

Það er reyndar orðið þannig að í hvert skipti sem einhverstaðar er á ferðinni nýtt deiliskipulag reka íbúar á svæðinu upp ægilegt hýenuvæl og mótmæla hástöfum.
Ég man reyndar hvað ég var sjálf á móti byggingu ráðhússins á sínum tíma og hét því að koma þar aldrei inn fyrir dyr. Nú man ég ekki lengur af hverju ég var svona rosalega á móti. Ég var líka á móti Perlunni og öllu mögulegu öðru sem er löngu gleymt.

Þetta hefur verið rosalegur mánuður, í hvert skipti sem maður ætlar að blogga um eitthvað sem er að gerast hafa ný og heitari mál verið á dagskrá. Ég ætlaði til dæmis að tjá mig um hinsta legstað Fishers af því mér fannst amerískur sérvitringur ekki eiga neitt erindi í grafreit á Þingvöllum. Með allri virðingu fyrir karlinum og minningu hans. En það kom aldrei til að maður þyrfti að hafa skoðun á því. Svo er það boltinn og allt honum tengt...

Þetta er mánuðurinn sem mig langar mest að leggjast í hýði eins og hver annar björn, en í ofanálag við þetta allt gæti ég átt dýrðlegan leynielskhuga sem ég myndi aldrei vanrækja ef hann er til á annað borð. Það verður semsagt ekki lagst í hýði enn um sinn.

föstudagur, 18. janúar 2008

Af berdreymi og laufléttum lykilorðum

18. janúar.

Ég vissi að strákarnir myndu tapa stórt í gær, ég er svo ægilega næm á allt svona. Rétt eins og kerlingin sem var svo berdreymin: "Mig dreymdi einu sinni Ragnar Arnalds heila nótt og það var eins og við manninn mælt: Fimm árum seinna fór að gjósa í Vestmannaeyjum." Sagði hún.

En ég er reyndar ekkert að djóka með þessa tilfinningu í gær. Ég treysti mér ekki til að horfa á leikinn og sökkti mér niður í Rimla hugans eftir Einar Má í staðinn. Kíkti fram í hálfleik og sneri mér strax aftur að bókinni, sem er frábær þó lopinn sé máski teygður örlítið á stöku stað.

Annars ætlaði ég að gera lykilorð að umræðuefni. Það verður sífellt flóknara að lifa því maður þarf að muna gommu af lykilorðum, inn á e-meilin og alla vefina sem maður er áskrifandi að, inn á öll kortin og bankareikningana og svo framvegis. Fyrir fólk með páfagauksminni er þetta ekkert grín.
Ég var að lesa grein í sænsku dagblaði í morgun þar sem fjallað er um lykilorð. Það kom í ljós í rannsókn í Svíþjóð að langalgengustu lykilorð fólks þar eru "hejsan" og "hemligt" ásamt talnarununni 123456. Þetta segja sérfræðingar að sé vitagagnslaust, allir hakkarar komist fram hjá svona lélegum lykilorðum. Sömuleiðis segja þeir að fæðingardagar og ár séu handónýt.

Ég greip á sínum tíma til þess ráðs að nota alltaf sama lykilorðið. Stundum eru lykilorð vegin og metin og ég hef alltaf fengið einkunnina "mjög veikt" fyrir mitt.
Tölvusérfræðingar í Bretlandi gerðu líka einu sinni könnun sem fólst í að þeir spurðu nokkra einstaklinga á vinnustað persónulegra spurninga. Þeir fundu út lykilorð allra starfsmannanna eftir samtölin. Svona er mannskepnan ferlega gegnsæ og ófrumleg.

fimmtudagur, 10. janúar 2008

Skrýtin skýring á kjörsókn

Heyrði á RÚV í gær getgátur um ástæður velgengni Hilary í kosningaslagnum. Ein af ástæðunum var jafnvel talin sú að vegna veðurblíðunnar hefðu miðaldra konur drifið sig á kjörstað.
Þetta er einhver dapurlegasta skýring á kjörsókn sem ég hef heyrt. Þó ég sé tilbúin að trúa flestu misjöfnu upp á Bandaríkjamenn vona ég innilega að kynsystur mínar þar séu ekki svo miklar teprur að veðrið stjórni gjörðum þeirra í jafn mikilvægum málum og kosningum.

Það má segja margt um miðaldra konur, og að þær séu sérdeilis "grumpy" og hafi flest á hornum sér á örugglega við um heilu hópana. Ég er að minnsta kosti rosalegur geðvonskupúki alla jafna. Ég þoli til dæmis ekki orðin úrvalsvísitala og stýrivextir ásamt fjölda annarra orða um efnahagslífið sem ég botna ekkert í. Nú skilst mér að kreppa sé í aðsigi en ég hef enga hugmynd um af hverju þrátt fyrir hvern sérfræðinginn á fætur öðrum sem reynir að útskýra þetta fyrir mér í sjónvarpinu. Ef maður á hvorki eignir né hlutabréf heldur þá ekki lífið bara áfram að vera sama strögglið og venjulega?

Og talandi um miðaldra konur. Þær eiga margar hverjar veikar mæður sem þarfnast hjálpar. Ég sé þær ekki væla yfir veðrinu né láta það stjórna sér þegar þarf að koma gömlu til hjálpar.
Kannski deyja mæður miðaldra kerlinga í Bandaríkjunum vegna þess að dæturnar treysta sér ekki út í rigninguna.
Og fyrst ég er byrjuð að tuða langar mig leggja orð í belg um hrófatildrin á Laugaveginum. Rífum þessa forljótu kofa og gerum eitthvað af viti fyrir Laugaveginn.

Annað: Ég las nýlega í lærðu tímariti að börn biðu engan skaða af að fá leikfangavopn að leika með. Ég hef alltaf verið á móti því að gefa börnum vopn og þessi jól var ég í heilagri kantinum og gaf barnabörnunum handmálaða krossa til að hengja upp fyrir ofan rúmin þeirra. Strákarnir rifu pappírinn utan af og fóru umsvifalaust í byssuleik með krossana. Hinn handmálaði Jesú á krossunum vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið. Bang, bang. En strákar eru og verða strákar.

sunnudagur, 6. janúar 2008

Sprengjugnýr og bláberjagums

6. janúar.
Ég ætla að hætta að borða nammi, fara í sund á hverjum degi, ganga fram og til baka í laugina, spara, vera aðeins jákvæðari, ja - lýsa bara upp umhverfið eins og sólargeisli hvar sem ég kem... Döh..!

Auðvitað er ég löngu hætt að strengja nýjársheit sem ég svík í fyrstu vikunni í janúar. Það er svo arfaslæmt fyrir egóið. En af því ég fékk langþráðan blandara í jólagjöf ákvað ég að vígja hann áðan og búa til heilsudrykk. Það tók mig þrjú korter að hreinsa bláberjagumsið af borðum, skáphurðum, veggjum og gólfi af því ég nennti ekki að lesa leiðarvísinn.
Geri aðra tilraun á morgun. Ég er líka að skrifa þetta blogg til að síðasta bloggfærsla birtist, færsla síðan 3. janúar sem mér tókst aldrei að vista rétt, hvað þá að raða myndunum sómasamlega.
Nú eru Bretarnir farnir heim og þrátt fyrir brjálað veður voru þeir í sæluvímu með dvölina. Ég horfði á landið mitt breskum gestsaugum meðan þeir stöldruðu við og var ekki nærri því jafn neikvæð og ég er vön. Sem er gott.
Það er allt að verða vitlaust hér í kring, ég heyri ekki tónlistina sem ég er að spila fyrir viðvarandi sprengjugný. Skelfing verður gott þegar þessu linnir og hversdagurinn tekur við.