laugardagur, 20. september 2008

einkamál.is

Mig langar í kærasta.

Spurningin er bara hvar miðaldra, flott kona eins og ég finn frambærilegan mann til að verða kærastinn minn.

Ekki nenni ég á skemmtistaðina þar sem misdrukknir og óaðlaðandi karlar manga til við mig á xx glasi.

Eftirmiðdagselskhuginn er yndislegur og ég er bullandi skotin í honum. Þar eru samt takmörk.

Það er leynisamband.

“Af hverju ferðu ekki inn á einkamál.is? Þar er fullt af flottum gæjum.”

Segja vinkonurnar.

“Ef þeir eru svona flottir af hverju eru þeir á einkamál.is?”

“Erum við ekki flottar? Við erum á einkmál.is.”

Segja þær.

“Ég hef ekki séð neina kærasta. Hefur ykkur orðið eitthvað ágengt?”

“Já, já, við erum alltaf að máta okkur við hina og þessa gæja. Einn góðan veðurdag verður það sá rétti.”

Hmm....

Ég skvera inn auglýsingu á einkamál.is.

Og það stendur ekki á viðbrögðunum.

Eftir að hafa farið í gegnum bréfaflóðið standa tveir eftir sem eru vel skrifandi og ákaflega frambærilegir að eigin sögn.

Annar vill heyra í mér eftir tveggja daga bréfaskriftir, enda kannski ekki meira að segja bréfleiðis, tiplandi undir fölsku nafni.

Hann er í fínni stöðu, skemmtilegur, klár og rómantískur og vill nudda á mér fæturna.

Hann hringir og er faktískt skemmtilegur viðræðu. Ítrekar nokkrum sinnum þetta með fótanuddið.

Er maðurinn með einhverskonar fótafetish?

Hann vill hittast í vikunni.

Hringir nokkrum sinnum í viðbót, hress og ákaflega umhyggjusamur.

Kannski ég slái bara til og hitti hann!?

Fer daginn eftir og hittti vinkonu sem er sérfræðingur í einkamálabransanum.

Segist hafa prófað og kannski fari ég og hitti mann í vikunni.

“Ég líka,” segir hún spennt. “Hvað heitir þinn?”

Ég segi henni það. “En þinn?”

Það er sama nafnið. Sami maður.

Maður sem hún heyrði í kvöldinu áður og vill endilega nudda á henni lappirnar.

Ég fer efst í pirringsskalann og spyr hvort henni finnist þetta ekkert sick?

“Nei. Ekki vitund. Fólk er að leita og þá hittir það auðvitað sem flesta.”

Það er nefnilega það.

Ég held ég afþakki.

Það má alltaf kaupa sér fótanudd ef það verður issjú í lífi manns.

Og skrái mig út af einkamálum.is.

sunnudagur, 14. september 2008

Í táradal á háheiðinni



Niðursveiflutal er það sem helst dynur á þjóðinni þessa haustdaga og niðursveiflan er mæld í torræðum tölum stofnana um að allt sé á leiðinni þráðbeint til helvítis.
Minna er talað um tilfinningalega niðursveiflu þegnanna í svartagallsrausinu.

Ég hef eðlislæga tilhneigingu til að sveiflast soldið um tilfinningaskalann og hef verið venju fremur slæm á drungalegum slagveðursdögum septembermánaðar.

Í gær sló ég met í margskonar skilningi.

Af því ég er svo helvíti skynsöm og veit að allt líður þetta hjá, hafði ég ákveðið að verja helginni í nokkurri gleði norður í sveitum.
Það plan breyttist og í staðinn tók ég að mér að vera sérstakur hirðljósmyndari vinar míns Nikulásar, sem tróð upp með Leynibandinu á réttarballi í Aratungu, hvorki meira né minna.

Rétt áður en ég lagði af stað barst mér símtal langt að sem gladdi mig mjög á sama tíma og það staðfesti nokkuð sem ég hafði trúlega ómeðvitað óttast um tíma.

Mér fannst ég myndi hrista þetta af mér eins og annað og lagði af stað í austurátt.

En...
...ég er viss um að aldrei fyrr hefur nokkur bílstjóri, jafn náttblindur og ég, grenjað jafn mikið í jafn mikilli riginingu og kolsvartamyrkri á Hellisheiðinni.

Ég snýtti mér hraustlega og þurrkaði framan úr mér grenjurnar skömmu áður en ég kom í Aratungu. Málaði á mig nýtt andlit og fór svo, eins og sá stuðbolti sem ég innst inni er, á ballið.
Þar tók ég fljótlega gleði mína á ný.

Ekki bara var Nikulás til mikillar prýði heldur voru á ballinu íslenskar alþýðuhetjur, veðraðar úr göngum og fjárdrætti, sem kættu mig ógurlega.
Dásamlega hjólbeinóttar og góðglaðar stigu þær dans sem hvergi sést nema á alvöru, íslensku sveitaballi.

Ég hafði ætlað að gista á Laugarvatni hjá Niko um nóttina, en af því ég var svo vel vakandi ákvað ég að aka í bæinn.

Það var uppstytta þegar ég lagði af stað um þrjúleytið og kampakátur, fullur máni lýsti mér leiðina fyrsta spölinn.
Hann óð í skýjum og sveipaði umhverfið dulmagnaðri birtu sem er engu lík. Trúlega er ekkert jafn magnað og að vera einn á ferð um miðja nótt í íslenskri sveit, hvenær sem er ársins.

Gáttir himins opnuðust svo á ný þegar ég nálgaðist Hveragerði en nú tók ég ekki persónulega þátt í ósköpunum.
Þurrkurnar höfðu ekki undan en ökumaðurinn söng hástöfum, algjörlega ógrenjandi, alla leiðina heim.
“Innst í þínum eigin barmi, eins í gleði og eins í harmi, ymur Íslands lag....”

Það var ekkert að óttast, engar leyniskyttur í fjöllunum, í mesta lagi meinlausir draugar á sveimi.

Svo lifum við bara niðursveifluna af.
Set inn mynd af Nikulási í uppsveiflu.

Er samt hugsi yfir yfirlýsingu Geirs í Silfrinu um ekkert atvinnuleysi. Eru allir sem hafa fengið reisupassann í fjöldauppsögnum undanfarið búnir að fá vinnu?

Skotheldir Skotar

Það fór eins og mig grunaði. Skotarnir voru gleðigjafar sumarsins.
Íslendingum veitti sennilega ekki af örlítilli kennslu hjá Skotunum um hvernig á að halda uppi jákvæðu og almennilegu stuði dag eftir dag eftir dag.
Ég fór og spjallaði við Skotana, sem voru belgfullir af ást á lífinu eins og það lagði sig. Hér er trúlega best að láta myndirnar tala.
Á einni myndinni er undirrituð, en það er auðvitað felumynd þar sem ég fell inn í hópinn eins og flís við rass. (Þessi færsla fór einhverra hluta vegna ekki inn þegar hún var vistuð á sínum tíma, en hún er látin vaða núna.)




































.)

sunnudagur, 7. september 2008

Karlakórskarl í kaupbæti


Það er ekkert að marka það sem ég segi. Í úrhellinu á menningarnótt hét ég því að fara ekki á fleiri útihátíðir í grenjandi rigningu og slagveðri. Svo lét ég mig ekki muna um að rigna niður á Ljósanótt.


Á föstudagskvöldið fór ég á ball á Ránni þar sem Rúni Júl. tróð upp ásamt hljómsveit og verð að segja, þrátt fyrir ást mína á Hljómum, Trúbrot og Rúnari sjálfum, að nú er þetta orðið fínt.

Hann getur ekki haldið dampi heilt kvöld, en var hins vegar óborganlegur á laugardagskvöldinu þegar hann söng tvö lög með Karlakór Keflavíkur.

Kórinn var líka æðislegur og karlarnir sætir í lopapeysunum.


Ég fór síðar um kvöldið í tjaldið þeirra, þar sem þeir voru að selja geisladiskana sína.


"Fylgir ekki einhleypur karlakórskarl hverjum diski?" spurði ég.
"Að sjálfsögðu," sögðu þeir.
"Þá ætla ég að fá tvo," sagði ég og fannst það öruggara ef annar karlanna væri eitthvað gallaður.

Karlarnir hafa reyndar ekki skilað sér enn...

Og þetta hefur sannarlega verið mikið úti-partía-sumar.
Það besta er samt eftir.

Skoska landsliðið er nefnilega á leiðinni og vonandi verður það eins og síðast þegar þeir komu. Þá fylgdu þeim hundruð syngjandi Skota á Skotapilsum, sem voru slíkir gleðigjafar að það hálfa hefði verið nóg.

Fullur bær af berleggjuðum karlmönnum er akkúrat það sem okkur einhleypu stelpurnar vantar núna.

Ef þeir mæta heldur mér ekkert frá miðbænum, ekki einu sinni fellibylurinn Sísí.

Læt fylgja mynd af lopapeysustrákunum.





fimmtudagur, 4. september 2008

Tónlistareinvígi á rauðu ljósi

Lífið getur verið ótrúlega tilfþrifalítið á köflum.
Hápunktar undanfarinna daga hafa verið heimsókn til gamals vinar og tónlistareinvígi á rauðu ljósi.

Fyrst heimsóknin.

Þessi gamli vinur minn er náttúrlega ekkert venjulega skemmtilega klikkaður. Það muna auðvitað allir eftir syngjandi fiskinum sem var ægivinsæll fyrir nokkrum árum.
Vinurinn er búinn að setja sinn upp á baðherberginu, sem væri ekki í frásögur færandi nema af því hann setti nema á fiskskrattann, sem gerir það að verkum að hann byrjar að syngja um leið og sest er á salernið.

Don't worry - be happy syngur fiskurinn og engin leið að stopp'ann.

Ekki veit ég hvort þetta hefur áhrif á hægðir til slæms eða góðs. Best gæti ég trúað að krónískt harðlífi verði afleiðingin fyrir eigandann.

Svo tónlistareinvígið.

Ég þurfti að stoppa á rauðu ljósi í dag og við hliðina á mér var ungur töffari að spila eitthvað sem er örugglega flokkað undir tónlist.
Ég var hinsvegar með karlakór og einsöngvara í mínum bíl sem sungu þrumraust um Stenka Rasin.

Bæði voru með niðurskrúfaðar rúður.

Drengurinn horfði ögrandi á mig og hækkaði í sínum græjum.
Ég hækkaði í mínum.
Hann hækkaði meira og glotti sjálfumglaður.
Ég setti í botn.

Þá skyndilega lækkaði hann og benti mér að lækka líka.
Svo brosti hann út að eyrum og kallaði: Djöfull ertu töff.
Það merkilega var að ég sá að hann meinti það.
Ég ók lukkuleg á brott og hugsaði að ekki hefði kúlið krumpast hjá mér í dag.

Af sambýlinu hér er ekkert að frétta. Nýi leigjandinn er aldrei heima, var greinilega bara að leigja húsnæði undir pottana sína og hreinlætisvörurnar.

Hann kemur samt stundum á morgnana til að fá sér heilsudrykk áður en hann fer til vinnu og þá er ógurlega glatt á hjalla hjá honum og Danna.
Það vill til að ég byrja að vinna sex á morgnana og er komin yfir morgungeðvonskuna þegar þeir hlæja eins og hýenur yfir morgunmatnum.

Eftir Stuðmannaballið um síðustu helgi er ég komin á bragðið og ætla á Ljósanótt um helgina og stunda böllin grimmt.

Eftirmiðdagselskhuginn þurfti að skreppa af landi brott, en er nú á heimleið.
Ég sakna hans.

Ein pæling í lokin.
Hétu fellibyljir ekki alltaf kvenmannsnöfnum eða er það einhver meinloka í mér?

Og Ps: Hvernig er hægt að taka mark á forsetaframbjóðanda sem heitir sama nafni og pítsufyrirtæki?