mánudagur, 31. mars 2008

Þegar farþegarnir brustu í söng í 30.000 fetum






31. mars.





Staður: Sevilla.


Hitastig: 27 gráður.


Skýjafar: Ekki hnoðri.


Ástand bloggara: Örlítið sólbrenndur en voðalega lukkulegur.





Ég fór með Ryan Air frá Stanstead í gær og það var greinilegt strax í flugtakinu að stefndi í mikið teiti tveim sætaröðum fyrir framan mig.


Viskíflaskan gekk á milli og fyrr en varði sátu sex miðaldra karlmenn á hnjánum, öfugir í sætunum, og sögðu föruneyti sínu, eiginkonunum vænti ég, organdi fyndna brandara.


Þær hljóta að hafa kynnst á hláturnámskeiði því ég hef aldrei heyrt jafn groddalegan hlátur sem átti uppök sín lengst oní þind og braust reglulega út með hrollvekjandi óhljóðum.



Brandararnir urðu klúrari eftir því sem gekk á flöskuna og hláturrokurnar eftir því.


Það var gríðarleg ókyrrð í loftinu sem gerði ekkert nema gleðja partýið enn meir.



Nú er ég gædd einstöku jafnaðargeði en einmitt þegar ég ætlaði að kalla til flugþjón og stinga upp á að partýljónin yrðu bundin og kefluð heyrðist brak í hátalaranum og flugstjórinn kvað sér hljóðs.


Nú, hugsaði ég, það tekur því ekki, við erum að hrapa hvort eð er.





En nei, ó nei. Flugstjórinn vildi bara segja okkur farþegunum að William væri fimmtugur í dag og hvort við ættum ekki öll að syngja afmælissönginn!!!!




Ég er ekki að ljúga því en allir farþegarnir brustu í söng. Afmælissöngurinn var sunginn, öll tvö erindin, og stundum er staðan bara þannig að maður verður að syngja með. Það get ég svarið að aldrei hef ég sungið í jafnblönduðum kór í jafnmiklu törbúlansi.





Þessu lyktaði svo með tilheyrandi "hann lengi lifi-húrrahrópum".





Ég komst svo á hostelið mitt og ætla að fara nokkrum orðum um svona "budget-gistingu". Ég er með níu öðrum í herbergi og til að kveikja ljós notar maður lykilinn að herberginu.


Maður kann náttúrlega ekki við að kveikja ljós fyrir allar aldir svo ég þreifaði mig áfram í myrkrinu í morgun, skreið meðfram veggnum þangað til ég fann baðherbergið og burstaði tennur og málaði mig eftir hendinni. Mér til mikillar skelfingar heyrði ég að úti var úrhellisrigning en þegar til kom var það eitthvert niðurfall bak við hús og sólin skein óhindrað.




Í dag er ég búin að fara í túristabúss um hina undurfögru Sevilla, slysast inn á nautaat og flamengo, búin að éta tapas, svo ég get bara komið heim.


Nei, djók.





En hvað nautaatið varðar ætla ég bara að segja að ég fór út til að fá mér ís þegar fyrsta nautið var nánast ofurliði borið og heyrði fagnaðarlætin þegar það féll. Út streymdi fólk með börn (!!!????), mæður og börn grátandi.


Þar sem ég var sjálf komin með kökk á hálsinn fór ég ekki inn aftur.





Átti yndislegan dag í Reading daginn áður en ég kom hingað, við Anna Lilja fórum í leikhús og kíktum svo aðeins inn á lókalbarinn þar sem við hittum óstjórnlega skrýtnar og skemmtilegar skrúfur. Þar rigndi auðvitað hundum og köttum svo við sátum úti undir tjaldi og reyktum með mestu töffurunum.


Ég elska svona sætsúra bari:)





Set inn mynd af barrottunum og kannski hinu viðurstyggilega nautaati og fremur leiðinlegum og ofmetnum flamengodansi.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Heimsendafréttir eða fugladansinn?


Horfði í gærkvöldi á tóman vandræðagang frá Terminal 5 á Heathrow sem til stóð að opna almenningi. Þá kom í ljós að rándýra öryggiskerfið hafði ekki verið hugsað til enda þannig að komu- og brottfararfarþegar voru í sama rýminu og hægastur vandinn að smygla sér einhverstaðar um borð. Þeir voru harðlífislegir í framan sem svöruðu fyrir mistökin meðan hlakkaði örugglega í einhverjum sem voru fúlir yfir kostnaðinum og að British Airways sitji eitt að hinni glæsilegu byggingu.


Annars höfum við ekki áhyggjur af heimsmálunum hér í Sheerwood Street. Stundum verður maður bara að rækta garðinn sinn og láta aðra um að bjarga veröldinni sem virðist stefna lóðrétt til andskotans. Og ekki í fyrsta sinn. Vonandi verður þó viðsnúningur nú sem endranær.


Ég nýt þess á hverjum degi að vera með Annicu dótturdóttur minni, 11 mánaða, sem er auðvitað undrabarn eins og öll mín barnabörn.

Uppeldisaðferðir dagsins eru um margt ólíkar því sem maður gerði sjálfur, sem fólst aðallega í að gera ekkert sérstakt.

Annica er til dæmis enn á brjósti, fær sopa fyrir svefninn, en þegar hún byrjaði að borða fékk hún nákvæmlega það sem var í matinn. Ekkert stappað ofaní hana, bara kjöt, fiskur, grænmeti og ávextir eins og hinir borðuðu. Engin hnífapör fyrr en nýlega að hún fær að spreyta sig með skeið. Og hún borðar allt. Hún er jafn hamingjusöm með brokkolíið sitt og Nóapáskaeggið. Hún borðar meira að segja ólívur.

Síðan amma kom hefur auðvitað margt breyst til hins verra. Þegar hún er búin að raða öllu grænmetinu sínu í haug og fer að vökva það með vatninu fær amma hláturskast. Og barnið færist í aukana. Skvettir vatninu um allt og aðallega yfir sjálfa sig og tékkar reglulega hvort ömmu finnst hún ekki fyndin. Sem ömmu finnst. Svo syngjum við saman íslensku barnalögin og dönsum fugladansinn og macarena og hóký póký og Annica setur upp allskonar furðusvipi svo amma er að kafna úr hlátri. Set inn eina mynd af dansinum.


Í gær fórum við sem oftar í göngutúr í bæinn í blíðskaparveðri, en miðja vegu milli torgsins og strætisvagnsins opnuðust gáttir himins eins og þær gera bara í Bretlandi. Fólk sem ekki var vopnað regnhlífum leitaði skjóls undir yfirbyggðu skýli verslunarinnar John Lewis en regninu slotaði ekki. Verslunin hefur örugglega grætt á þessum langa skúr því á endanum fóru allir inn.


Þegar ég var nýflutt með stelpurnar mínar til Englands '98 voru við einhverntíma staddar Camden þegar gerði svona skýfall og í staðinn fyrir að leita skjóls hoppuðum við hamingjusamar í pollunum og urðum gegndrepa á nóinu. Sem betur fer kippa Bretar sér ekkert upp við fólk sem hagar sér eins og hálfvitar.

Nú líður að því að ég haldi áfram óvissuferðinni sem hófst í byrjun mánaðar og næsti áfangastaður er Cordoba á Spáni. Þar hef ég fengið íbúð og ætla að vera þar í tvo mánuði. Mun að sjálfsögðu halda áfram að skrifa fréttir fyrir eyjuna og blogga um alla flottu Spánverjana sem ég geri ráð fyrir að elti mig á röndum.

Legg af stað á sunnudaginn, með stuttbuxur og nokkra boli í tösku, tölvuna og myndavélina. Þeir eru svo hrikalega streit á farangrinum hjá Ryan Air.



sunnudagur, 23. mars 2008

...fráskilin að vestan... páskahugvekja

Vaknaði í morgun til að horfa á páskamessu á BBC og hlustað svo á messu heima í Dómkirkjunni. Það var meira stuð í Dómkirkjunni. Svo kann ég líka sálmana og hátíðarsvörin síðan ég var í kirkjukórnum.

Fögnum og verum glaðir, fögnum og verum glaðir ... á honum!

Ég fattaði ekki fyrr en nýlega á hverjum maður ætti að vera glaður, sum sé páskadeginum.

Ég fílaði í botn að mæta í páskamessur klukkan átta á páskadag. Það er kannski til marks um klofinn karkter að miðvikudaginn fyrir páska lá maður endilangur á einhverju barborðinu og söng "ég er fráskilin að vestan" og mætti svo í kirkjuna nokkrum dögum seinna, heilagur í framan, til fagna upprisu Krists.
Hér hafa verið etin páskaegg af öllum stærðum og gerðum þó ekki sé nema rétt rúmlega hádegi.

Annica lét ekki sitt eftir liggja og ég set inn páskamynd af prinsessunni.


Ég sá að á blogggáttinni var einhver var að auglýsa eftir vorinu sem fer á vængjum yfir flóann.

Það minnti mig á þegar ég var í ástsýkiskasti fyrir mörgum árum og varð svo inspíreruð af Ragga Bjarna þegar hann söng þetta lag að ég samdi eftirfarandi ljóð:


Ég sagð'onum

ég væri ástfangin

og vildi vang'ann

við vorið

sem fer á vængjum

yfir flóann

- og þá hló'ann


Þetta hnoð féll að sjálfsögðu í grýtta jörð og vakti ekki ást viðkomandi á höfundinum.

Erum samt á leið út í vorið sem er langt í frá komið í Englandi, í gær snjóaði, en sólin skín svo við tökum rúnt í nærliggjandi sæt þorp.

Gleðilega páska heim.

föstudagur, 21. mars 2008

Af taubleium og frægum í London


Það kom upp neyðarástand á litla heimilinu í Reading í gær. Það uppgötvaðist að bleiurnar voru búnar og amma var kölluð til í ofboði. Kanntu ekki að setja svona taubleiu á? spurði Anna Lilja. Að sjálfsögðu, sagði ég og braut bleiuna í þríhyrning. Svo var ég mát.

Ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvernig maður bar sig að og blessað barnið fékk ólögulega bleiu á bossann og gúmmíbuxur utanyfir. Sem betur fer hljóp pabbinn hið snarasta eftir bleiukassa.
Ég var samt frekar hissa að ég myndi ekki þessa einföldu aðgerð. Ég var með tvíbura sem aldrei fengu neitt nema taubleiur á sína bossa og hélt þetta væri eitt af því sem aldrei gleymdist, svona eins og að hjóla.
Anna Lilja spurði í þaula um taubleiubransann og það rifjaðist upp fyrir mér hvað þetta var í raun mikil vinna. Mamma vildi að ég syði bleiurnar í risapotti á eldavélinni og helst straujaði þær fyrir notkun.
Það var náttúrlega fellt með öllum greiddum atkvæðum (mín og strákanna) og ég held þeir hafi komið út úr þessu með þokkalegustu rassa.
Það er vetrarkuldi hér í Englandi en það rifjaðist upp fyrir mér þegar Egill var að blogga um fræga í London að ég hef aldrei hitt neinn frægan þar.
Sá samt Vanessu Redgrave á sviði í Óveðri Sheakspears í Sheakspeare Globe. Mér fannst ég næstum hafa talað við hana af því ég var í augnkontakt við hana alveg upp við sviðið.
Lauma því að hér, að þeir sem fara til London ættu að fara í Shakespeare-leikhúsið og kaupa sér hræódýra miða í stæðum. Manni líður eins og maður fari aldir aftur í tímann.



Hinsvegar verð ég að segja ykkur söguna af því þegar ég lenti á Gatwick fyrir nokkrum árum. Þá bjó ég í Englandi og þetta var á þeim tíma sem ég fór ekki upp í flugvél nema drekka að minnsta kosti fjóra tvöfalda í flugstöðinni og eitthvað í viðbót í flugvélinni.
Þegar við vorum komin inn í flughöfnina á Gatwick hlammaði ég mér í stól þar sem mátti reykja og tók upp koníakspelann.



Maðurinn við hliðina á mér hreifst með, opnaði bjór og skálaði. Við tókum tal saman og hann sagðist vera að koma frá Írlandi þar sem hann hefði verið að skemmta.
Skemmta hvernig?
Þekkirðu mig ekki? spurði hann hlessa. Ég heiti Norman en er þekktur sem Fatboy Slim.

Ég hafði aldrei heyrt á hann minnst en það fór svo vel á með okkur í flugstöðinni að við skiptumst á að fá okkur bjór og koníak og sungum saman nokkra írska drykkjusöngva.

Þegar ég loksins kom heim, löngu eftir að flugvélin lenti, voru stelpurnar orðnar smeykar og spurðu hvar ég hefði eiginlega verið.
Ég sagði þeim sem var að ég hefði sungið nokkrar vísur með einhverjum Fatboy Slim sem vildi endilega bjóða mér í heimsókn til sín í Brighton. Og ég veifaði nafnspjaldinu hans með símanúmerinu.
Ég hef aldrei séð þær jafn agndofa í framan og þegar ég nokkrum dögum síðar var búin að tína nafnspjaldinu með símanúmerinu fannst þeim ég næstum réttdræp. Allir ættu meira skilið að hitta frægt fólk en ég.






sunnudagur, 16. mars 2008

Af pólskum hetjum, góðum grönnum og okkur hinum


Fyrst Dr. Gunni afþakkar pent og er búinn að gefa júróvisjón upp á bátinn í bili ætla ég bara að eiga hanskana sjálf.

Ég held ég eigi eftir að vera ægilega elegant við uppvaskið í snoturri svuntu og hönskunum einum fata. Ef ég ætti mann yrði hann örugglega fyr og flamme að fá að þurrka:)


En af lífinu í Reading:

Í fyrra kynnti ég borgina fyrir lesendum á Moggablogginu og ætla bara að undirstrika að hún er enn jafn vinaleg. Ég er búin að fara í Oracle eða Véfréttina sem er stóra mollið í miðbænum og endurnýja kynnin við liðið á Boostbarnum og kaffiþjónana á Nero við kanalinn.

Hér heima höfum við það huggulegt ég og litla fjölskyldan, Anna Lilja, Chris og sólargeislinn Annica.

Pólska parið sem leigir hjá þeim fór til Kýpur í morgun. Ég dáist að þessum krökkum, hún vinnur í verksmiðju við að pakka bókum og fer stundum af stað fyrir allar aldir og vinnur fram á kvöld. Hann vinnur á lager í stóru vöruhúsi. Þau eru búin að spara af sínum litlu launum fyrir Kýpurferðinni og voru eins og lítil börn að bíða eftir jólunum í gær þegar undirbúningur stóð sem hæst. Þetta er í fyrsta skipti sem þau fara saman í frí. Meiri krúttin.


Við Anna erum soldið að spá í nágrannana, í garðinum hægra megin við okkur var allur gróður fjarlægður og leit helst út fyrir að ætti að steypa í allt saman. En nei, það hefur komið í ljós að þarna er fólk með fagurgræna fingur og er í óða önn að planta blómum og trjám og greinilegt að stefnt er í verðlaunagarð.

Hinumegin er óskaplega góð kona sem bjargaði hænunum sem ég minntist á um daginn úr ógeðsverksmiðju þar sem dýrin voru alin á hormónum og ég veit ekki hvað og hvað. Hún tekur þær í fangið á hverjum degi, lætur vel að þeim og spjallar við þær um daginn og veginn. Ég er viss um að þær launa elskulegheitin von bráðar með eggjum.

Skömmustulegar reynum við Anna að láta ekki mikið bera á reykingum og sígarettustubbum og þökkum guði fyrir Chris sem er búinn að útbúa safnhaug í horninu og skokkar berfættur um garðinn með garðklippurnar á lofti.


Amma súludansmær (Kate mamma hans Chris er dansari og er með súlu í stofunni sinni til æfa sig), hún dansar auðvitað ekki alvöru súludans á svoleiðis stöðum, ó nei, og Pierce "afi kreisí" eins og hann er alltaf kallaður eru farin til Grikklands. Þau fara á hverju ári og leigja þá seglbát sem þau sigla milli eyjanna.

Daníelle, systir Chris, er alltaf kölluð "frænka afi", hún er kennari hér í Listaskólanum, spilar á öll hljóðfæri og galdrar eins og alvöru galdrakarl, og skiptir frekar oft um kærustur sem allar eru jafn yndislegar. Debra litla systir er sæt og elskuleg og er að byrja í hjúkrunarfræði. Þetta er sumsé vænsta fólk sem gaman er að þekkja.


Verð að segja ykkur að í litlu matvörubúðinni við strætóstöðina er rekki með nýjum krimmum á 1.99 pund. Það er óhjákvæmilegt að stinga einni í körfuna í hverri ferð. Er samt að reyna að muna að pundið er hátt í 150 kall, sem er náttúrlega rosalegt.


Set inn eina mynd af yndislegu Annicu sem alltaf er brosandi.


föstudagur, 14. mars 2008

Kveðja til Dr. Gunna


Fór í Tesco í gær til að kaupa uppþvottabursta og gula gúmmíhanska. Get ekki vanist því að þvo upp með svampi.

Ég fann uppþvottaburstann í raftækjadeildinni eftir endalausar göngur um endalausa ganga, en enga gula gúmmíhanska. Ég fann hins vegar þessa svörtu gúmmíhanska og datt í hug að ef dr. Gunni héldi að þeir gætu verið honum inspírasjón í næstu Júróvisjón er ekkert sjálfsagðara en kaupa eitt par.

Ég get svarið að þeir eru ekki keyptir í fullorðins-latex-búðinni á horninu sem heitir "Devoted to Pleasure".
Fyrirsætan er Anna dóttir mín.

Áfram Gunni!

mánudagur, 10. mars 2008

Slagveður er auðvitað alltaf slagveður...

Komin til Englands með sótsvarta samvisku. Það var aldrei meiningin að kveðja Ísland í vælukjóastíl á forsíðu Morgunblaðsins né heldur fara þvert á reglur samtaka sem ekki má nefna. Ég bið samtökin eins og þau leggja sig afsökunar.

Hópurinn miðaldra konur er mér engu að síður afar hugleikinn, ekki síst vegna þess að þær sem ekki hlutu menntun hafa unnið hörðum höndum alla tíð, oftar en ekki láglaunastörf, eru margar í djúpum skít en hafa sig aldrei í frammi. Þær eru svo bara einn hópur af mörgum sem verða útundan í umræðunni.

Og nú kemur hér bráðskemmtileg ferðasaga.
Ég var komin á Paddington seint í gærkvöldi þar sem ég átti pantað herbergi á hræódýru "bed- and-breakfasti" í göngufæri við stöðina.
Lestin til Reading fer þaðan og ég hugsaði með mér að gott væri að hvílast eina nótt í London og halda svo áfram í býtið.
Ég var með tvær níðþungar ferðatöskur, handtösku og bakpokann með tölvunni. Eiginlega var ég alveg úrvinda þegar ég kom í gistinguna og féllust soldið hendur þegar ég sá stigann upp. Hann var u.þ.b. hálfur metri á breidd og snarbrattur. Herbergið mitt var á fyrstu hæð en ég þurfti samt að rogast með farangurinn upp tvo stiga og á svona stöðum býðst enginn til að hjálpa. Ég sofnaði eins og rotuð um leið og ég lagði höfuðið á koddann.

Þó mér finnist flest æðislegt í útlöndum hef ég aldrei sagt að mér þætti ALLT æðislegt. Slagveður er til dæmis ekki hætishótinu betra í Englandi en á Íslandi.
Ég fann að ég var með strengi um allan skrokk eftir burðinn daginn áður en lagði samt af stað fótgangandi þessa tíu mínútna ferð á lestarstöðina.
Það var mígandi úrhellisrigning þar sem ég öslaði pollana í djöfulmóð og kom svo á kolröngum stað að stöðinni. Í staðinn fyrir að vera á lestarstöðinni var ég við neðanjarðarlestina og lagði af stað með farangurinn niður 20 tröppur. Svo kom langur gangur og 20 tröppur upp. Á átjándu tröppu hálf skrikaði mér fótur og missti takið á ferðatöskunni sem rúllaði alla leið niður aftur.

Neei, öskraði ég, páskaeggin!!!!

Einhverjir störðu á mig og hristu regnhlífarnar sínar ólundarlega en ég settist í stigann og hugleiddi hvort ég ætti að dröslast með allt niður aftur eða skilja eitthvað eftir uppi meðan ég færi niður eftir töskunni.
Tvær konur buðust til að hjálpa mér, "we have to stick together" sögðu þær glaðlega og drösluðu töskunni upp.

Þetta með páskaeggin er grafalvarlegt mál og víkur nú sögunni nokkur ár aftur í tímann þegar Anna Lilja var að ljúka við stúdentsprófið sitt í Englandi.
Hana langað rosalega að sýna vinum sínum í skólanum íslenskt páskaegg, svo ég keypti eitt af veglegri gerðinni, pakkaði því varlega inn í handklæði og tuskur og skrifaði á kassann á að minnsta kosti þrem tungumálum: "Brothætt, meðhöndlist varlega."
Páskaeggið var mylsna þegar það kom á áfangastað og barnið auðvitað hundsvekkt. Nú ætlaði ég að koma eggjunum heilum alla leið og fór með þau eins og fjöregg.
Það tókst, þau eru heil:)

Sólin braust svo fram úr skýjunum á lestarstöðinni í Reading og geislandi bros dótturinnar og barnabarnsins Annicu þegar þær komu auga á mig bættu allt. Ég sendi sjálf geislandi bros til allra landa minna, sem mér þykir alltaf vænna um úr fjarlægð.

mánudagur, 3. mars 2008

Ó, Lord, hvað ég er að verða fræg!!!!

Nú er ég flutt inn á hótel í miðborg Reykjavíkur og lifi þar í vellystingum pragtuglega. Það er gott að eiga góða að.


Eigandi hótelsins, sem er á mínum aldri, laumaði því að mér á fyrsta degi að hinn frægi Snoop Dogg væri væntanlegur, en það væri algjört leyndó.

Ég varð soldið spennt og horfði rannsakandi á alla gestina en ákvað að hinn fjallmyndarlegi, þeldökki Snoop gæti ekki farið fram hjá mér. Og kannski gæti ég vélað hann í viðtal!!!!

Það kom svo í ljós að um misskilning var að ræða, það var meistari Lordi sem var hér hótelgestur en ekki rapparinn.

Eiganda hótelsins finnst þetta allt sama tóbakið og bara gaman að því.

Það var tekin mynd af mér og Lordi þegar hann var kominn í gallann og ég er að spá í gefa mömmu hana.

Einhverju sinni fór ég á blaðamannafund með Placido Domingo og verð að viðurkenna að ég hagaði mér eins og ástsjúkur táningur á leiðinni með ljósmyndaranum. Það var öðlingurinn Gunnar Andrésson sem mátti þola gelgjustælana í mér en hann var svo elskulegur að taka mynd af mér með goðinu, sem ég prentaði út og gaf mömmu.

Þessi mynd er nú innrömmuð í forstofunni hjá gömlu konunni og fer ekki framhjá nokkrum manni hvað hún á fræga dóttur. Nú er spurning hvort hún vill myndina af mér og Lordi á þennan sama vegg.



Í gærkvöldi opnaði svo á hótelinu nýr veitingastaður sem ber nafnið Studio 29, en hótelið sjálft heitir 4th floor og er á Laugaveginum, beint á móti Tryggingastofnun.

Fjölmargir mættu til að fagna með Óla hótelstjóra og Svenna markaðsfulltrúa og gestir fengu dýrindis veitingar og skemmtu sér konunglega með Sverri Stormsker við píanóið og hinum sívinsæla Geir Ólafssyni.

Stemmningin varð meiri eftir því sem leið á kvöldið og samviskusamlega var skipt á milli Sókratesar og Sinatra.

Studio 29 er annars fallegur veitingastaður á tveimur hæðum og þar er hægt að fá morgunverð, hádegisverð og salat og súpu að auki. Þá eru tertur og smáréttir á boðstólum allan daginn. Staðurinn er ætlaður fólki frá þrítugu og farið er fram á snyrtilegan klæðnað.

Til hamingju með þetta, strákar.

Ég ætla að setja hér inn nokkrar myndir af mér og fræga fólkinu:)