sunnudagur, 31. ágúst 2008

Sambýlismenn og Stuðmannaball







Þegar ég var í þann veginn að drepast úr leiðindum í gærkvöldi ákvað ég að fara á Stuðmannaball sem er að því mér skilst árlegur viðburður hér í íþróttahúsinu á Nesinu.

Sambýlismennirnir voru að heiman, en nánar um það á eftir.

Ballið var frábært þó mér litist ekki meira en svo á blikuna þegar ég var á leiðinni inn og sá ekkert nema brosandi, fótnettar flugfreyjur, sneisafullar af yndisþokka, á leið inn í húsið. Það kom í ljós að þetta var Flugfreyjukórinn sem steig á svið með Stuðmönnum undir stjórn Magnúsar Kjartans.


Það voru allir þarna, Bjarni Ármanns, Jón Ásgeir og frú og fyrrverandi borgarstjóri (já, ég veit ég þarf að skilgreina það nánar, sumsé Óli F.) og fleiri flottir. Ég er hér um bil viss um að þeir voru allir á gestalista. Það var bara pöpullinn sem greiddi 2.500 fyrir fjörið.

En þetta ball markaði tímamót í mínu lífi sem ég ætla að útskýra hér.


Þegar ég var átján ára var ég í bæjarvinnunni og lenti í að skera niður rofabörð á Hólmsheiðinni. Síðan var sáð í allt heila klabbið og nú er þarna undurfagurt.

Trúlega stendur það ekki mikið lengur ef þeir malbika allt í hólf og gólf undir flugvöll.

Þetta var sumarið 1975.

Sumar á Sýrlandi kom út þetta ár og í kaffitjaldinu var segulband. Í öllum matar- og kaffitímum ómuðu perlur eins og Stína stuð og Í bláum skugga, en ég sem var að farast úr ógleði, gat ekki hlustað á þessa tónlist í áratugi á eftir án þess að fá flashback og verða fárveik.


Nú eru tvíburarnir sem ég bar undir belti á þessum tíma að verða 33 ára og annar elskar Stuðmenn, hinn þolir sumt og annað ekki.

Palla finnst þeir geðveikt góðir og nær alveg danssporunum hans Egils, Jóa finnst Með allt á hreinu brilljant svo og Sumar á Sýrlandi. Hann fór samt einhverntíma á ball þar sem þeir spiluðu og fannst þeir hundleiðinlegir. Jóhann getur verið langrækinn og hann erfir þetta við Stuðmenn.

Í gær fann ég ekki fyrir neinni ógleði þegar ég dansaði í taumlausri gleði við Stínu stuð svo þetta markar upphafið að nýjum kafla í mínu lífi:)

En sumsé, nýi, fallegi leigjandinn flutti inn í gær. Ég segi flutti inn, en flutti og flutti. Hann kom með rúmið sitt, tvíbreitt, og nokkra potta. Við ræddum svolítið saman, um mataræði og svona, og ég komst að því að hann er heilsufrík og leggur enga blessun yfir það að ég borða oftast prins póló í kvöldmat. Hann tekur gjarnan að sér að kenna mér að borða tófú eða hvað það nú heitir og baunaspírur.

Svo fór hann. Kom með rúmið, fór og kom ekki aftur fyrr en rétt áðan.

Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að reikna út hvað það þýðir!!!!

Enda komið á daginn að hann á gullfallega kærustu.

Okkur Danna ber saman um að þetta séu hálfgerð svik.

Ég veit ekki hvar ég væri ef Danni stæði ekki svona pottþétt með mér.

Myndirnar: Nýi, fallegi leigjandinn er með bílfarma af allskonar dóti sem hann er að koma fyrir í skápum, skúffum og þar sem yfirleitt finnst lófastór blettur.
Það geta allir séð hversu óhemju fagur hann er og svo er mynd af þeim Danna saman.









miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Af partíum og enskuslettum


Þar sem þjóðin á að vera í partískapi í dag ætla ég að upplýsa að persónulega hefur mér förlast svo í partíhaldi að þyngra er en tárum taki. Ég sem var mesta partítröll ever.

Ég ætla ekki að gefa upp hversu margir mættu í partíið sem við héldum hér á Nesinu um daginn.

Kannski var hægt að telja þá á fingrum annarrar handar - kannski ekki.

Þeir fá samt endalaust mörg prik sonur minn Páll og vinur hans Siggi sem mættu í glimrandi partístuði með gítarinn á bakinu og fóru á kostum, að ekki sé meira sagt.

Vonandi mæta fleiri í silfurpartíið í dag þrátt fyrir rigninguna.
Það er nefnilega soldið freistandi að fylgjast bara með beinni útsendingu undir sæng.

Aðeins að öðru.
Mér finnst oft áhugavert að fylgjast með hvaða fréttir fólk "kommentar" á hér á vefnum. Í dag er hneykslast á bruðli ráðherra, en skólabörnin ungu sem eru á vergangi eftir skóla virðast fá litla athygli.

Vonandi stendur fólki þó ekki á sama að ekki takist að manna frístundaheimilin.

Og eitt enn.


Ég sletti oft í mínum texta og hef þá hrokafullu skoðun að þeir sem eru góðir í íslensku geti leyft sér að sletta. Hinir ekki.


Samt fer um mig ónotatilfinning í hvert skipti sem ég sé auglýsingu á Skjá einum sem endar á orðunum: Singing Bee, nýr íslenskur þáttur. Tja...


Set inn mynd af stuðboltunum með gítarinn. Sonurinn er sá í lopapeysunni. Þá hlýtur hinn að vera Siggi.






fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Flögur og kannski dýfu?


Ég sat í rólegheitum inni í herbergi áðan þegar ég heyrði skyndilega hávaða og fannst ég rétt sem snöggvast stödd í Hollywood árið '80.

Þegar ég kom fram í stofu var Danni búinn að stilla upp græjunum!!! og spilaði diskó í botni.

Ég (æpandi gegnum hávaðann): Hvað ertu að spila? Ég þoli ekki diskó.

D (æpandi enn hærra): Hvað meinarðu? Ég hélt þú elskaðir diskó. Sagðirðu það ekki um daginn?

Ég: Lækkaðu!!!!

D: Já, já. Slakaðu á. Vorum við ekki að tala um að við elskuðum hommatónlist? Þetta er hommatónlist.

Ég: Ég sagði vemmilega júróvisjóntónlist og íslenska slagara.

D: Úps. Og svo kemur Palli sonur þinn með Súkkat til að kóróna allt saman.

Ég: Við verðum að skipuleggja upp á nýtt.

D: Já. Verðum við ekki að hætta við að grilla? Það verður grenjandi rigning.

Ég: Jú, en hvað eigum við þá að hafa?

D: Veit ekki. Hvað ertu búin að bjóða mörgum?

Ég: Engum. Eða jú, kannski einum eða tveimur. En þú?

D: Tveimur. Þeir eru báðir uppteknir.

Ég: Bíddu, ætlarðu þá ekki að bjóða einhverjum öðrum?

D: Ég man ekki eftir fleirum. En þú. Ætlar þú ekki að bjóða fleirum?

Ég: Ég man heldur ekki eftir fleirum.


Þögn.

D: Við verðum þá bara fá.

Ég: Hm. Við verðum samt að taka til. Kannski munum við eftir fleirum á morgun.

D: Kannski. En við þurfum ekkert að taka til.

Ég: Hvað með að kaupa eitthvað. Snakk og dýfur?

D: Já. Eða segja fólki að koma með það.

Ég: Þetta stefnir í dj. gott partý.

D: Ekki spurning. Ég er að fara út að borða núna. Þú mátt nota græjurnar eins og þú vilt á meðan.

Ég: Takk.

Og set græjurnar í botn. Finn júróvisjónlög og gamla slagara. Dansa gjörsamlega kreisí. Hvað eins og þurfi eitthvert fólk...

Ég er samt viss um að þetta verður gott partý. Á morgun bjóðum við fullt af fólki.
... og það mun verða veislunni margtí ...






miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Þarf elskhugaleyfi?




Það eru engar ýkjur að litla sambýlið á Nesinu, sem með sanni má kalla kærleiksheimilið, er með ólíkindum ljúft. Við búum hér í góðu yfirlæti ég, Danni og Donald, en nú er komið að því að Donald yfirgefi hreiðrið og haldi til náms í Lundi.


Sem þýðir að herbergið hans er laust.


Ingibjörg leigusali, sem er sjarmur af guðs náð, ætlar að sjálfsögðu að leigja herbergið út aftur og í vikunni kom hún með óguðlega fagran kandidat af karlkyni til að skoða aðstæður.
Okkur Danna var að sjálfsögðu teflt fram sem helsta aðdráttaraflinu, því þó heimilið sé fallegt er lítið varið í það ef heimilisfólkið er óalandi og óferjandi.
Við fórum létt með að sýna okkar bestu hliðar, fórum með gamanmál og vorum í alla staði ómótstæðileg eins og okkur er svo lagið.


Það varð líka fljótlega ljóst að "nýi leigjandinn" var fyr og flamme að fá herbergið og eftir því sem ég best veit flytur hann inn um mánaðamótin.
Í svona sambýli gilda auðvitað húsreglur og það barst í tal hvort leyfilegt væri að hafa hjá sér kærasta/kærustu yfir nótt.
Danni á rosalega sæta kærustu, en ég ætla ekkert að gefa það upp hér hvort hún hefur kúrt undir sænginni hans nótt og nótt.

Sjálf hef ég komið mér upp vikulegum eftirmiðdagselskhuga og enn fást engar upplýsingar um hvernig það fyrirkomulag hefur lukkast í sambýlinu.
Nú veit ég ekki hvort nýi leigjandinn á kærustu en mér kæmi það ekki á óvart jafn sjarmerandi og hann er.
Auðvitað vona ég hálfpartinn að hann eigi enga.

En Ingibjörg upplýsti okkur um að hjásofelsi í húsnæðinu væri með öllu bannað.
Herbergin væru einstaklingsherbergi og það þýðir einfaldlega einn einstaklingur í hverju herbergi.
Við mölduðum smá í móinn og spurðum hvort það væri ekki bara okkar á milli hvort einhverjir blunduðu hér af og til en hún var ósveigjanleg með það að reglur væru reglur.
Nú er lítið plott í gangi, við Danni ætlum nefnilega að halda partý um helgina (sem er líka bannað) og Ingibjörg verður heiðursgestur.

Partýið er þó hugsað sem kveðjupartý fyrir Donald, sem er líka sérlega lymskulegt þar sem hann er að vinna umrætt partýkvöld, er nákvæmlega ekkert fyrir partý, reykir hvorki né drekkur og býst við að leggja sitt þreytta höfuð á koddann um leið og hann kemur heim úr vinnunni.
Hann heyrir bara með öðru eyranu og ætlar að liggja fast á því.

Við munum hinsvegar reifa þessi mál við Ingibjörgu þegar líður á kvöldið og reyna að fá einhverskonar grænt ljós.
Hún mun þá væntanlega ákveða hversu oft væri ásættanlegt og hugsanlega setja einhver hávaðamörk.
Þetta getur nefnilega verið stórmál.

Hvað ef til dæmis nýi leigjandinn og ég næðum rosa góðu sambandi eitthvert kvöldið og ákvæðum að færa það yfir á æðra plan? Þyrftum við þá að hringja í Ingibjörgu og biðja um leyfi?
Þetta er auðvitað ekkert einfalt.

Og þarf ég leyfi fyrir eftirmiðdagselskhugann?

Þetta skýrist vonandi allt á föstudagskvöldið svo allir geti átt almennilegan menningardag/nótt:)
Set inn mynd af Donald og Danna, Danni er sá í jakkafötunum.








mánudagur, 18. ágúst 2008

Þegar atburðarásin tekur völdin











Ég komst aldrei í nettenginu á Skagaströnd, sem var kannski jafn gott.
Stundum gerist eitthvað ófyrirsjáanlegt í lífi manns sem setur allt úr skorðum og jafnvel þó maður vilji snúa atburðarásinni við heldur hún áfram að vinda upp á sig. Til hins verra.
Kem að því aftur síðar, en burtséð frá því héldu Skagstrendingar glimrandi kántrýhátíð.
Á föstudagskvöldið var ég stödd í kaffihúsinu Bjarmanesi þar sem Sigríður Klingenberg spákona var með óborganlega uppákomu.
Umsjónarkona kaffihússins, Steinunn Ósk, hefur unnið þar þrekvirki í sumar og eins og allt sem hún kemur nálægt eru veitingarnar ómótstæðilegar og húsið endalaust kósý, meðal annars skreytt listaverkum eftir Steinunni sjálfa.
Sigríður fór náttúrlega á kústum, nei, ég meina kostum, og viðstaddir grétu úr hlátri.
Í beinu framhaldi af þessu var fjölmennt á ball í Kántrýbæ og stuðið í algleymingi.
Skagstrendingar voru búnir að skreyta bæinn hátt og lágt, dagskráin var við allra hæfi og það var ekki leiðinlegt að sitja út undir húsvegg með KK, Leo Gillispie og vinum þeirra og upplifa ekta jamsessjón.
Á laugardagsmorgninum varð þó viðsnúningur hjá mér persónulega, lítið atvik gerði mig reiða, og því meir sem ég barðist gegn reiðinni því verri varð hún.
Ég yfirgaf Skagaströnd eftir frábæra tónlistaruppákomu Gunnars Jóhannssonar skipstjóra og lagði leið mína á Blönduós.
Þar á ég vísa lokrekkju á Vesturbakkanum og svaf þar um nóttina.
Köttur með ekkert nafn var gestkomandi í húsinu og eftir að hafa spígsporað lengi nætur við rekkjuna ákvað hann að halda hinum arga gesti selskap, stökk upp í rúmið og tók öllum mínum klögumálum með stóískri kattaró, sleikti burtu tárin með hrjúfri tungunni og malaði án afláts.
Hafi hann endalaust þökk fyrir.

Á leiðinni í bæinn hlustaði ég á disk með karlakórnum Lóuþrælum og kvennakórnum Sandlóum og þrátt fyrir yndislegan texta við lag Sarastros úr Töfraflautu Mozarts tókst mér ekki að vinna bug á reiðinni.
Reiði er erfið tilfinning en svo sem hvorki rétt eða röng. Hún bara er.
Textinn fjallar um kærleikann og þar segir:
"Leggur hann ei á aðrar skyldur
umber hann hroka, svik og tildur.
Leitar hins hrjáða, huggar þann smáða,
sefar hvern þjóst í þeli hans.
Þannig er máttur kærleikans."
Enn hefur textinn og undurfagurt lagið ekki náð að sefa þjóstinn í þeli mínu, en ég reikna með að það gerist fyrr en seinna.
Dagurinn á Blönduósi var bæðevei frábær.
Set inn nokkrar myndir af vel heppnaðri kántrýhátíð. Ég segi vel heppnaðri því geðvonskukast undirritaðrar hafði að sjálfsögðu ekki nokkur áhrif á gang mála á hátíðinni.




















föstudagur, 15. ágúst 2008

Skrapp frá - kem trúlega ekki aftur

15. ágúst.


Þessi fyrirsögn átti nú að vísa í kvikmyndina Skrapp frá sem ég sá í Háskólabíói á dögunum og gafst upp í hléinu.
Þrátt fyrir að vera einlægur aðdáandi Diddu, sem var frábær eins og alltaf, bar hún ekki myndina uppi ein og sér, og svo er ég auðvitað með ólæknandi fordóma þegar kemur að íslenskum bíómyndum.
Nú er samt spurning hvort borgarstjórar Reykjavíkur ættu ekki að fá lánað pappaspjaldið hennar Diddu með skökku stöfunum, og bæta við: "Kem trúlega ekki aftur. "
Eða þannig.



Annars ætlaði ég líka að gera nokkrar athugasemdir við áhugaverða grein sem birtist í slúðurfréttum eyjunnar í gær, um að til stæði að gera nýja Rocky Horror-mynd í óþökk Richard O’Brien.
Þetta eru náttúrlega helgispjöll.
Þessi mynd er "klassík" og nýir leikarar, að ekki sé talað um nýja tónlist, jaðrar við guðlast.
Myndin á að vera nákvæmlega eins og hún er af því hún getur ekki orðið betri.
Það var ekki að ástæðulausu að ákveðin kynslóð Íslendinga flykktist á miðnætursýningar í Nýja bíó í den, ýmist útúr stónd eða algerlega óedrú, og gekk af göflunum í hvert eitt sinn.
Myndin er "cult".
Ég hef tvisvar séð Rocky Horror á sviði í Englandi og þeirri upplifun verður ekki líkt við neitt. Í seinna skiptið fór ég með Önnu Lilju dóttur minni og manninum hennar (virðulegum stærðfræðingi) sem lét sig ekki muna um að fara í leðurpils og netsokkabuxur.
Allir voru í búningum og kunnu sýninguna í smáatriðum og svöruðu þegar við átti. Hámark gleðinnar var svo þegar Richard O'Brien birtist óvænt á sviðinu í lokin og fagnaðarlátum ætlaði aldrei að linna.

Ég bloggaði um þetta á sínum tíma á öðrum stað, en ætla að setja inn nokkrar myndir.
Stóra myndin er af dóttur minni og tengdasyni en hinar eru dæmi um átfittið á gestum sýningarinnar.
Svo vona ég að svona fáránlegar ídeur Sky Movies og MTV deyi drottni sínum.
Annars er ég stödd í Húnavatnssýslu og ætla að taka þátt í hátíð á Skagaströnd um helgina.
Sakir plássleysis hefur mér verið komið fyrir á elliheimilinu og býst nú alveg eins við að ílendast þar. Ég meina, kannski hleypa þér mér ekki út aftur.
Svo er ég hvort sem er að leita að karli og hlýt að finna hér ríkan, sætan og senil kall í göngugrind:)
Ég giftist honum í snatri, ræski mig svo óvænt eitthvert kvöldið og honum bregður svo illa að hann dettur dojaður niður.
Eftir sit ég með rómansinn og auðæfin.
Ef einhver heldur að ég meini þetta er sá hinn sami ekki í lagi.
En fréttir munu berast ykkur frá Skagaströnd - og myndir að sjálfsögðu.
PS. Svo er ég að spá í hvort stjórnmálamenn í borginni séu kannski eftir allt saman geimverur.



















fimmtudagur, 7. ágúst 2008

Ofurmannakíkir Jóhannesar og Björgólfs

6. ágúst.

Lífið heldur áfram að vera æsispennandi. Í gær var ég að passa Lilju Maren og Jón Breka, frábæru barnabörnin mín, og við áttum æðislegan dag.

Þar sem við sitjum niðri á Kaffi París í uppstyttunni um fimmleytið kemur föngulegur hópur ungra stúlkna í áttina til okkar og greinilegt að ein var hætt að freelanca eins og ég í karlamálum, og ætlaði að gifta sig innan tíðar.

Hópurinn kom til okkar og bauð okkur ofurmannakíki til kaups.

Jón Breki, sem er að sjálfsögðu ofurmaður, sýndi kíkinum ekki sérstakan áhuga enda greinilega heimagerður úr eldhúspappírsrúllu og álpappír.

Ég vildi hins vegar festa kaup á gripnum.

Þegar ég var að róta í veskinu mínu eftir klinki kom órói að gæsahópnum og þær kváðust þurfa að skreppa en kæmu strax aftur.
Svo hurfu þær með kíkinn.

Ég vissi strax hvað var í gangi því mínútu áður höfðu komið gangandi framhjá, næstum arm í arm, Jóhannes í Bónus og sjálfur Björgólfur.
Greinilegt að samrunapælingar Mogga og Fréttablaðs eru ekki úr lausu lofti gripnar.

Eftir skamma stund komu stúlkurnar aftur með kíkinn og sögðu að bæði Jóhannes og Björgólfur hefðu handfjatlað hann og kíkt í báða enda.

Nú er ég að spá í að bjóða kíkinn upp á e-bay, þetta er náttúrlega orðinn milljarðakíkir eftir þessa uppákomu. Það er þó ekki víst að viðskiptavinir þar þekki haus né sporð á strákunum svo lesendur eyjunnar eiga séns.
Mér dattt í hug að fyrsta boð yrði hálfur milljarður og svo tökum við það bara þaðan...

Mynd af kíkinum mun birtast hér síðar í dag.

þriðjudagur, 5. ágúst 2008

Hvar er minn "Big"?











5. ágúst.

Það er ekki eins og ekkert sé að gerast í lífi manns þó maður bloggi sjaldan.
Ég fór til dæmis í bíó í síðustu viku og sá Sex and the City.
Rosalegt hvað "Big" er sætur. Ég var eiginlega hálf domm og einmana þegar ég kom heim þó ég láti sem mér finnist rosalega kúl að vera svona "freelance" í karlamálum.
Kommúnusambýlið á Nesinu gengur vel og samleigjendurnir eru yndislegir. Donald, sem er breskur, sést lítið heima, og Anna María sem er að fara á Bifröst, er ótrúleg skotta. Alin upp í sveit og getur einhvernveginn reddað öllu.
Set inn nokkrar myndir af henni þegar hún braust inn eftir að hafa læst sig úti.
Svo keypti ég mér Júróvisjóndisk í vikunni og syng hástöfum með í bílnum.
"Diggi lo, Diggi ley, alla tittar på mig, där jag går i mina gyldna skor" ræð ég ágætlega við og finnst við hæfi. Það er á sænsku sem ég er fín í. Og eru ekki gylltir skór einmitt í tísku?
Það er verra með Ein Bichen Frieden og þýskuna. Þar minnir maður nú soldið á sjálfan sig í æsku þegar maður söng textana með Bítlalögunum á heldur einkennilegri ensku.
Eins og sjá má er mikið að gerast og ekki ástæða til að kvarta.
Vonandi fæ ég íbúð bráðum og mín eigin sængurföt, það er tilhökkunarefni.
Og Hinsegin dagar í uppsiglingu!!! Og menningarnótt!!!
Meira stuð, segi ég nú bara:)