miðvikudagur, 3. desember 2008

Heil þjóð beitt heimilisofbeldi

Stödd í Englandi, fjarri Íslandsströndum, fylgist ég, eðli málsins samkvæmt, með framvindu mála heima og finn hvernig depurðin og reiðin hafa náð tökum á mér.
Sem betur fer er það bara hluti tilfinningaskalans, því litlum eins og hálfs árs gleðigjafa, sem enn hefur ekki hugmynd um synd heimsins, tekst að vekja hjá mér fögnuð daglega með geislandi brosi og ótrúlegum uppátækjum.
Hún veit ekki að þegar við syngjum með jólasveinunum “ég á heima á Grátlandi” fæ ég sting í hjartað. Skyndilega hefur þessi sakleysislega setning fengið nýja merkingu.

Ég hlustaði með öðru eyranu þegar lesið var úr forystugreinum dagblaðanna í morgun og hjó eftir að Mogginn fjallaði um mótmæli, en varaði við reiði og æsingi.
Alltaf jafn hófstilltur, Mogginn. Og nú á almenningur að vera hófstilltur líka. Skiptir ekki máli þó einhverjir hafi verið ákaflega óhófstilltir og rústað heilli þjóð.

Það er þekkt að konur sem eru beittar heimilisofbeldi koðna niður undan ofbeldinu. Reiði þeirra er brotin á bak aftur, sökin er þeirra og þá skiptir ekki máli hvort þær hófu sambandið vel menntaðar og fullar sjálfstrausts eða hvort þær komu úr erfiðari aðstæðum. Sjálfsvirðingin fer veg allrar veraldar og eftir situr einstaklingur sem er eins og skugginn af sjálfum sér.

Réttlát reiði hefði kannski bjargað einhverju.

Ég sá breska sjónvarpsmynd fyrir nokkrum árum sem gerðist á tímum kalda stríðsins. Myndin fjallaði um frelsið og sjálfsvirðinguna, um tvær ungar konur, aðra í ofbeldissambandi í Manchester, hina í rússnesku fangelsi þar sem hún sat inni fyrir skoðanir sínar.

Til að gera langa sögu stutta er punkturinn þessi:

Rússnesku stúlkunni tókst að hefja andann upp yfir fangelsismúrana, hún var frjáls því hún átti sannfæringu sem henni var ljúft að verja. Hún var þrátt fyrir allt mun frjálsari en sú breska, sem var brotin niður persónulega dag eftir dag.

Nú hefur íslenska þjóðin í heild verið beitt grófu heimilisofbeldi. Ofbeldismaðurinn gerir eins og hans er von og vísa: Skellir skuldinni á fórnarlambið og heimtar að það haldi stillingu sinni og verði áfram prútt og stillt.
Það er gjörsamlega óraunhæf krafa og vonandi að fórnarlambið haldi áfram að vera bálreitt og baráttuglatt. Annars koðnar það niður og missir alla reisn.

Fjöldi Íslendinga kvíðir jólunum og persónulega hef ég aldrei upplifað áður að hátíðleg jólatónlist, sem ég í örvæntingu hef spilað undanfarið, megni ekki að hefja andann upp yfir reiði- og depurðarmúrinn.

Ég neita samt að gera þetta að jólum þar sem bull, ergelsi og pirra gegna aðalhlutverki.
Heima bíða mín fleiri litlir gleðigjafar sem munu lýsa upp jólin.

Ég mun samt halda áfram að vera reið og eftir áramót geri ég upp við mig í hvaða farveg ég beini reiðinni. Reiði sem er réttlát og allt nema hófstillt.

3 ummæli:

  1. Þakk aþér fyrir góða grein. Það er ömurlegt að horfa upp á það ofbeldi sem þjóðin er beitt hvern einasta dag og ömurlegt að horfa upp á ofbeldispakkið bara herða krumluna fastar og fastar um háls hennar. Ég hef verulegar áhyggjur af málum hér heima..og ég verð reiðari hvern dag. Ég ætla að hætta að vera hófstilltur mótmælandi enda hrúgast nú upp innra með mér áður óþekktar tilfinningar..mig langar að sparka í einhvern og skemma eitthvað. Bara gera eitthvað róttækt til að losna við óværuna. Það er þekkt að í ofbeldissambönuum kemur stundum að þeim punkti að þolandinnhreinlega drepur kvalara sinn í hreinni örvæntingu. Þá örvæntingu förum við bráðum að sjá hjá heilli þjóð..og hvað þá??

    SvaraEyða
  2. Hey, er hægt að segja af sér sem Íslendingur? Við erum náttúrulega bara aumingjarnir undir nýju nýlenduherrunum sem tóku lán í útlöndum, skrifuðu nafnið okkar undir og nú þurfum við að borga skuldirnar. Svona týpískt þrælahald nema að enginn vorkennir svona hauslausum þrælum. En Eddan mín, notaðu máttinn í núinu á meðan þú ert úti. Klisjurnar lifi á hauslausum tímum.

    SvaraEyða
  3. Góð eins og alltaf, kannt svo sannarlega að koma fyrir þig orði.Lýsa reiði þinni og koma á framfæri samhyggð þinni en koma svo í restina og færa litla von, halda jólin hátíðleg þrátt fyrir allt. En er samt alltaf að velta fyrir mér hvernig hægt er að beina reiði fólks í farveg sem verður því til góðs andlega. Langvarandi reiði getur verið okkur mannlegum verum hættuleg. Gerir í raun ekki annað en valda vanlíðan hjá okkur sjálfum, sá eða þau sem við erum reið útí (eða jafnvel hötumst við) vita ekki einu sinni af reiði og tilfinningum hvers og eins. Auðvitað þurfum við á því að halda saman, en látum ekki reiðina stjórna för.

    SvaraEyða