19. júlí.
Ég er komin heim og búin að hreiðra um mig í herbergi á Seltjarnarnesi. Við erum þrjú sem leigjum saman, en meira um það síðar.
Nú er ég stödd á Laugarvatni í boði góðs vinar.
Ég hef sosum ekki lesið Secret-bókina sem allir eru að tala um, en ég hef tekið eftir því að ef ég held því nógu stíft fram að ég sé prinsessa er ég stundum trítuð sem slík.
Ég hef til dæmis verið hér í ótrúlegu yfirlæti hjá austurrískum vini mínum Nikulási.
Í gær, eftir geðveika máltíð á Lindinni, fórum við í bíltúr um sveitina. Það var enginn látlaus bíltúr eins og tíðkast hér í Tungunum heldur vorum við á blæjubílnum hans, BMW Z4-sporttýpunni - og að sjálfsögðu með Sinatra í botni.
Ég tók mynd þegar við vorum að leggja af stað, það var hinsvegar ótækt að ég væri með á myndinni.
Nikulás getur nefnilega verið svo stíliseraður. Þarna er hann til dæmis í Armani-buxum, Prada-jakka og með trefil frá Dolce Gabbana.
Ég er hins vegar í tveggja punda strigaskóm úr Primemark og ódýrasta vindjakkanum sem ég fann í kaupfélaginu í Hell.
Þar, nota bene, dó gamla myndavélin mín og sumarfríið hófst. Skýrir lélega bloggframmistöðu í mánuð.
Í Haukadalnum vissi Nikulás um heita laug á víðavangi svo við ákváðum að prófa hana. Þegar búið var að kasta klæðum var ekkert því til fyrirstöðu að við værum mynduð saman.
Þar sem við sátum í lauginni kom bíll akandi og ég var viss um að þar væri á ferð arfabrjálaður bóndi til að rukka okkur fyrir að sitja í pollinum.
Þetta voru hins vegar stelpur ofan af Geysi og þær eiga heiðurinn af myndunum. Ég hef áður birt af mér nektarmyndir í þessu bloggi svo þetta er ekki verra en vant er.
Eftir slímugt baðið ókum við inn á afleggjara þar sem engin var löggan né umferðin og fórum á rúmlega tvöhundruð nokkurn spöl.
Say no more.
Í morgun fórum við svo í kaffi í Skálholt, enn með blæjuna niðri og tónlistina á fullu.
Eftir að ég var í Þrándheimi í júní fór ég til Englands þar sem ég hitti Gunnhildi vinkonu mína og við stöldruðum m.a. við á Isle of Wight og í London.
Og af því að Mandela átti í alvöru afmæli í gær verð ég að segja ykkur frá því þegar við Gunnhildur fórum í Hyde Park þar sem tónleikarnir til heiðurs honum voru haldnir.
Það var ekkert prinsessulegt við mig þá, staurblönk og átti ekki fyrir aðgöngumiða, en við stilltum okkur upp við hliðið þar sem sást í sviðið.
Þegar sjálfur Mandela steig í svið æptu einhverjir í hópnum fyrir utan "free Mandela... ", hentu járngrindunum frá og að minnsta kosti 300 manns hlupu inn. Verðirnir voru ótrúlega lengi að átta sig, en það sem eftir lifði tónleikanna voru þeir í óða önn að hlaða upp grindum við háðslegar glósur þeirra sem eftir stóðu. Ég hljóp ekki inn þar sem ég óttaðist að Gunnhildur, sem er ómöguleg í fótunum, yrði eftir.
Eftir öll ferðalögin í útlöndum verð ég að segja að hápunkturinn er alltaf að koma heim og hitta fjölskyldu og vini.
Og að aka um íslenska sveit á bjartri sumarnóttu tekur öllum útlöndum fram.
Ég ætla að setja inn nokkrar myndir, og tek undir það sem segir í vísunni:
"Livet er ikke det værste man har,
- om lidt er kaffen klar... "
Engin ummæli:
Skrifa ummæli