laugardagur, 26. janúar 2008

Heyrnarleysi og gæsagangur

26. janúar.

Hlýtur ekki að vera eitthvað alvarlegt að í lífi manns ef maður er farinn að blogga á laugardagsmorgni og það án þess að hafa nokkuð sérstakt að blogga um?

Annars er þetta prýðislaugardagur og bóndadagurinn var líka fínn, ég dekraði við sjálfa mig eins og ég ætti lífið að leysa því elskhuginn hugsanlegi er elskhugi í orðsins fyllstu og þeim kemur maður ekki upp á eitthvert bóndadagstrít.

Ég lenti hins vegar í aðstæðum í gær sem eru kunnuglegar, það er, ég ætlaði með mömmu gömlu í verslunarleiðangur og sagðist myndu hringja þegar ég legði af stað. Ég byrjaði að hringja um hádegið og lét hringja út sirkabát sjöhundruð sinnum áður en ég lagði af stað með lyklana til að athuga hvað væri í gangi. Hún er hálfheyrnarlaus þessi elska, en maður fær alltaf þennan óþægilega hnút í magann þar sem hún er líka með sykursýki á háu stigi og hjartveik. Á leiðinni uppeftir var ég farin að rifja upp hvaða sálma hún hafði einhverntíma skrifað svo nostursamlega á blað en síðan rifið af því hún ákvað að treysta mínum sálmasmekk, hvaða presta henni líkar við osfrv. Þegar ég kom í Breiðholtið sat sú gamla næstum tilbúin í sófanum með símann í höndunum.
Af hverju svararðu ekki í símann? spurði ég örugglega pínu pirruð í málrómnum.
Hann hefur ekkert hringt, sagði gamla.
Ég er búin að hringja látlaust í tvo tíma, sagði ég.
Það getur ekki verið, sagði hún. Það er bara eitthvað að símanum.
Ég taldi frá tíu og niðrúr og svo lögðum við af stað.

Má til með að segja ykkur frá því að ég þarf að fara gríðarlega brattar brekkur til að komast að heiman, en í mikilli ófærð freista ég þess stundum að fara aðra leið sem er örlítið meira aflíðandi. Á leið til mömmu í gær fór ég léttari leiðina og á undan mér var stór jeppi. Það var hinsvegar mjög dularfullt hversu hægt hann ók, og ég sem er yfirleitt hvers manns hugljúfi í umferðinni, var farin að bölva duglega meðan ég lét hringja út hjá gömlu. Jeppinn tók svo beygju upp á gangstétt og þá kom í ljós að gæsapar var á heilsubótargöngu í hjólförunum. Ég flautaði á þær og hef aldrei fengið annað eins augnaráð. Þær horfðu á mig nístandi augnaráði og ég "ók gæsagang" út götuna. Krúttlegt. En nú hringir dyrabjallan, haladiði ekki að ég sé að fá heimsókn!!!!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli