18. janúar.
Ég vissi að strákarnir myndu tapa stórt í gær, ég er svo ægilega næm á allt svona. Rétt eins og kerlingin sem var svo berdreymin: "Mig dreymdi einu sinni Ragnar Arnalds heila nótt og það var eins og við manninn mælt: Fimm árum seinna fór að gjósa í Vestmannaeyjum." Sagði hún.
En ég er reyndar ekkert að djóka með þessa tilfinningu í gær. Ég treysti mér ekki til að horfa á leikinn og sökkti mér niður í Rimla hugans eftir Einar Má í staðinn. Kíkti fram í hálfleik og sneri mér strax aftur að bókinni, sem er frábær þó lopinn sé máski teygður örlítið á stöku stað.
Annars ætlaði ég að gera lykilorð að umræðuefni. Það verður sífellt flóknara að lifa því maður þarf að muna gommu af lykilorðum, inn á e-meilin og alla vefina sem maður er áskrifandi að, inn á öll kortin og bankareikningana og svo framvegis. Fyrir fólk með páfagauksminni er þetta ekkert grín.
Ég var að lesa grein í sænsku dagblaði í morgun þar sem fjallað er um lykilorð. Það kom í ljós í rannsókn í Svíþjóð að langalgengustu lykilorð fólks þar eru "hejsan" og "hemligt" ásamt talnarununni 123456. Þetta segja sérfræðingar að sé vitagagnslaust, allir hakkarar komist fram hjá svona lélegum lykilorðum. Sömuleiðis segja þeir að fæðingardagar og ár séu handónýt.
Ég greip á sínum tíma til þess ráðs að nota alltaf sama lykilorðið. Stundum eru lykilorð vegin og metin og ég hef alltaf fengið einkunnina "mjög veikt" fyrir mitt.
Tölvusérfræðingar í Bretlandi gerðu líka einu sinni könnun sem fólst í að þeir spurðu nokkra einstaklinga á vinnustað persónulegra spurninga. Þeir fundu út lykilorð allra starfsmannanna eftir samtölin. Svona er mannskepnan ferlega gegnsæ og ófrumleg.
föstudagur, 18. janúar 2008
Af berdreymi og laufléttum lykilorðum
Ritaði Edda Jóhannsdóttir kl. 11:48
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli