fimmtudagur, 10. janúar 2008

Skrýtin skýring á kjörsókn

Heyrði á RÚV í gær getgátur um ástæður velgengni Hilary í kosningaslagnum. Ein af ástæðunum var jafnvel talin sú að vegna veðurblíðunnar hefðu miðaldra konur drifið sig á kjörstað.
Þetta er einhver dapurlegasta skýring á kjörsókn sem ég hef heyrt. Þó ég sé tilbúin að trúa flestu misjöfnu upp á Bandaríkjamenn vona ég innilega að kynsystur mínar þar séu ekki svo miklar teprur að veðrið stjórni gjörðum þeirra í jafn mikilvægum málum og kosningum.

Það má segja margt um miðaldra konur, og að þær séu sérdeilis "grumpy" og hafi flest á hornum sér á örugglega við um heilu hópana. Ég er að minnsta kosti rosalegur geðvonskupúki alla jafna. Ég þoli til dæmis ekki orðin úrvalsvísitala og stýrivextir ásamt fjölda annarra orða um efnahagslífið sem ég botna ekkert í. Nú skilst mér að kreppa sé í aðsigi en ég hef enga hugmynd um af hverju þrátt fyrir hvern sérfræðinginn á fætur öðrum sem reynir að útskýra þetta fyrir mér í sjónvarpinu. Ef maður á hvorki eignir né hlutabréf heldur þá ekki lífið bara áfram að vera sama strögglið og venjulega?

Og talandi um miðaldra konur. Þær eiga margar hverjar veikar mæður sem þarfnast hjálpar. Ég sé þær ekki væla yfir veðrinu né láta það stjórna sér þegar þarf að koma gömlu til hjálpar.
Kannski deyja mæður miðaldra kerlinga í Bandaríkjunum vegna þess að dæturnar treysta sér ekki út í rigninguna.
Og fyrst ég er byrjuð að tuða langar mig leggja orð í belg um hrófatildrin á Laugaveginum. Rífum þessa forljótu kofa og gerum eitthvað af viti fyrir Laugaveginn.

Annað: Ég las nýlega í lærðu tímariti að börn biðu engan skaða af að fá leikfangavopn að leika með. Ég hef alltaf verið á móti því að gefa börnum vopn og þessi jól var ég í heilagri kantinum og gaf barnabörnunum handmálaða krossa til að hengja upp fyrir ofan rúmin þeirra. Strákarnir rifu pappírinn utan af og fóru umsvifalaust í byssuleik með krossana. Hinn handmálaði Jesú á krossunum vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið. Bang, bang. En strákar eru og verða strákar.

1 ummæli:

  1. Við breytum sjálfsagt seint þeirri tilhneiginu lítilla drengja að gera vopn úr öllu, en fyndið fannst mér þó að daginn eftir að litli drengurinn skaut háaldraða og fárveika langömmu sína með jesú á krossinum að vopni, vorum við að ræða veðrið. Hann er meðvitaður um að jólin séu Jesú og þakka en heldur því jafnframt fram að ef engin væru jólin, væri enginn snjórinn. Eftir að hafa keyrt heiðina á jóladag fannst mér snjóþunginn heldur of mikið af því góða og sagði sem svo að Jesú hlyti nú að vera eitthvað "ruglaður" að láta snjóa svona mikið. Litli sannkristni drengurinn afneitaði móður sinni þar með, "Svona talar maður ekki um Jesú mamma !!!"

    SvaraEyða