19. júní.
Er að kveðja Þrándheim með nokkrum trega, hlakka til að koma til Englands engu að síður. Ég er alveg búin að skipta um skoðun á Norðmönnum, finnst þeir bara frábærir.
Ég hef setið hér á Brukbar og unnið undanfarna daga og er nú orðinn einn af fastagestunum. Fæ kaffi eins og ég get í mig látið.
Þrándheimur er gríðarlega fallegur og skólabókardæmi um hvernig hægt er að varðveita gömul hús í bland við ný svo vel fari.
Ég valdi mér ódýrustu gistingu sem ég fann, sem heitir Sommerhotellet og er nokkurskonar farfuglaheimili.
Stúlkan í afgreiðslunni (ca. 18 ára) tók við greiðslunni og sagði brosandi: Þú ferð svo bara þarna niður stigann.
Og hún benti í áttina.
Þegar niður stigann var komið var ekkert að sjá nema sturtu og ótótlega geymslu.
Ég fór upp aftur og sagðist ekki sjá neinn "sovesal".
Hún stóð þá upp og kom með mér niður en fann heldur ekki "sovesalen". Ungur strákur var kallaður til og hann fann hurð þar sem á stóð Helga og sagði: Það er hér.
En þá fundust ekki lyklarnir.
Þeir fundust þó fyrir rest og í "sovesalen" reyndust vera tólf kojur, tveir gluggar en engar gardínur. Ég sagði að það gengi aldrei, ég sem kæmi frá Íslandi gæti ekki sofið í skjannabirtu, hvað þá hinir.
Hálftíma seinna var drengurinn búinn að setja upp gardínur og ég skemmti mér konunglega á þessu unglingaheimili og kynntist áhugaverðu fólki.
Mér hefur líka gengið óvenjuvel að rata, ef ég bara beygi hjá Erlings-skakka-götu og tek svo strikið í áttina að Glitnisskiltinu eru mér allir vegir færir.
Í Olavs-Tryggvason-götu fann ég svo félagsskapinn minn sem ég leita uppi í hverju landi.
Nú er ég á leið til Englands seinnipartinn, á ráðstefnu í Winchester.
Og stelpur! Til hamingu með daginn!!!
Ps. Ég ítreka enn að mig vantar samastað í júlí og ágúst ef einhver þarf að láta passa íbúð, hund eða kött:)
fimmtudagur, 19. júní 2008
Frá Erlings-skakka-götu í átt að Glitni
mánudagur, 16. júní 2008
Unaðsstaðurinn Hell
16. júní.
Komin til Þrándheims eftir geggjaða ráðstefnu í Hell.
Það sem var merkilegast var að þar var skítkallt og engir lögfræðingar:)
Dagskráin var til slíkrar fyrirmyndar að það hálfa hefði verið nóg. Ég ætla samt aðallega að halda mig við uppákomurnar í þessu bloggi.
Árlegri boltakeppni (brennó og kýló) lyktaði með sigri gestgjafanna sem svindluðu án afláts en reglan er hvort sem er að þeir vinni.
Þá var Hellovison, árleg söngkeppni, sérlega glæsileg í ár. Rússneskir gestir á ráðstefnunni sýndu glæsilega frammistöðu svo og breski gesturinn, lítil og grönn kona frá Wales sem er að skrifa bók um höfundarrétt. Hún gerði tilraun til að múta dómurunum sem þáðu pundin hennar með þökkum en sögðust svo engu geta lofað. Hún söng meira að segja dónavísur en varð í fjórða sæti með Dönum, Svíum, Norðmönnum og Íslendingum.
Það voru sumsé við Geir sem sungum Maístjörnuna í röddum og allt, en við höfðum sungið hana í kvöldverði kvöldið áður og fengum mínusstig fyrir það. Plússtig fyrir að kalla fram tár hjá nokkrum ráðstefnugestum en það dugði ekki því Finnarnir voru langbestir.
Það er að segja, þeir halda ráðstefnuna að ári svo ákveðið var að smjaðra fyrir þeim til að hafa þá góða.
Ég hitti mýgrút af gömlum vinum og verð að segja að ég nýt þess gríðarlega að vera á svona norrænum samkomum og tala blöndu af hrognamáli.
Ég mun gera ráðstefnunni betri skil síðar. Set inn nokkrar myndir.
Verð samt að leiðrétta að Hell er ekki dregið af hellir heldur hellu, þannig að við vorum eiginlega á Hellu alla helgina.
Og hvað er þetta með ísbirnina heima????
miðvikudagur, 4. júní 2008
Fan vad jävla bra det skal bli i Hell
4. júní.
Ég er að skrifast á við norræna kollega mína sem ég mun hitta á ráðstefnu í Hell í Noregi í næstu viku. Þetta er bara lítið dæmi um hvað við erum svakalega fyndin:)
Nafnið á þessum bæ er reyndar dregið af orðinu hellir og hefur ekkert með stuðið í neðra að gera.
Lífið í Englandi er alltaf jafn dýrðlegt og Bretarnir stórkostlegir.
Ég átti tíma í dag í litun og plokkun en þegar ég mætti sagði afskapleg kurteis enskur snyrtifræðingur að því miður væri ekki hægt að gera þetta í dag þar sem gleymst hefði að gera á mér ofnæmispróf.
Ég sagði henni að láta bara vaða, kona sem setur í sig þrjá hárliti á einu kvöldi kallar nú ekki allt ömmu sína.
En það var ekki við það komandi. Prufan var gerð og ég á tíma aftur á morgun.
Anna Lilja fór í bankann á meðan til að millifæra af sínum reikningi á Chris, en elskuleg bresk starfsstúlka ráðlagði henni eindregið að taka peninginn út og labba með hann í næstu götu þar sem Chris er með sinn reikning. Hitt væri bæði dýrara og tæki lengri tíma!!!!
Chris getur svo tekið þennan pening út eftir þrjá virka daga. Er þetta ekki dásamlegt?
Á leiðinni heim í strætó las ég á bannskiltið þar sem stendur að harðbannað sé að reykja eða drekka og fólki beri að tala lágt í gemsana sína og hafa græjurnar á eyrunum lágt stilltar. Þá er bannað að vera með fæturna uppi á sætunum og táfýlufætur eru stranglega bannaðir. Mín vegna mætti ganga alla leið með þetta og banna fólki aðgang sem er með ógeðslega vonda ilmvatnslykt sem er að kæfa mann, eða gamla svita- og fúkkalykt.
Ísbílinn kemur líka hér á hverjum degi. Fyrst heyrist "We Are Sailing" með Rod Stewart í bjölluútgáfu og ef það dugir ekki til að æsa upp í fólki íslöngunina er skipt yfir í skoskan mars með trommum og alles og endað á glory, glory hallelúja...
Sá sem ekki verður að fá ís eftir það er eitthvað sljór.
Ég ætla að klikkja út með skordýrasögu sem er dagsönn, en við Anna Lilja eigum það sameiginlegt að vera frekar fóbískar.
Þegar ég var að reykja út í garði í gær, þá síðustu fyrir svefninn, fann ég að eitthvert kvikyndi skreið eftir hálsinum á mér. Ég hristi mig alla en fann þá þúsund litlar lappir færa sig niður á bak. Ég endasentist upp, henti af mér bol og buxum, hristi eins og ég ætti lífið að leysa, og fór svo upp í rúm. En - þegar Anna Lilja kom til að kyssa mig góða nótt varð hún skyndilega kríthvít í framan og hentist út í vegg.
Ég dáist að henni að hafa ekki æpt og vakið barnið því köngulóin sem hljóp í ofboði undir koddann minn var RISA.
Ég svaf ekki mikið þessa nótt, við fundum náttúrlega aldrei köngulóna og ég svaf með brúsa af hárspreyi innan seilingar. Mig hefur klæjað síðan.
Ég hef engar sérstakar myndir að birta en af því Egill Helga er að birta svo flottar myndir af blómum frá Krít ætla ég að herma og birta blómamyndir frá Spáni.
Annars fer útlegðinni að ljúka í bili, ég er samt enn heimilislausa blaðakonan, svo ef einhver þarf að láta passa íbúð, herbergi, bíl, hund eða kött í júlí og ágúst er ég tilvalin:)
sunnudagur, 1. júní 2008
Í allri einlægni
1. júní.
Nú er ég búin að vera í Englandi síðan 27. maí og er enn að bíða eftir sálinni. Yfirleitt þegar ég kem til Englands fer ég beint til Reading þar sem dóttir mín býr með fjölskyldu sinni.
Ég fæ mér kaffi á pöbbnum fyrir utan brautarstöðina og bíð þar eftir sálinni sem oftast kemur með næstu lest. Það er einhvern veginn öðruvísi núna.
Síðasta daginn minn í Cordoba fór ég í göngutúr um gamla bæinn, kyssti þjónana bless sem höfðu brosað til mín í hvert eitt sinn og vissu alltaf hvað ég vildi svo ég þurfti ekki einu sinni að panta.
Svo fór ég um slóðirnar sem mér er farið að þykja svo vænt um og skildi eftir þakklæti á hverju götuhorni fyrir það sem borgin hafði fært mér og kennt mér.
Maður verður margs vísari um sjálfan sig þegar maður dvelur tv0 mánuði í borg þar sem enginn skilur mann.
Vissulega var Alfonso himnasending en hann var í vinnu og gat ekki sinnt mér út í eitt. Flestum sem ég kynntist kynntist ég þó í gegnum hann.
En mest var ég ein.
Ég gekk um göturnar ein, sat ein á kaffihúsunum og fann frið og sátt umlykja mig. Ég var ein - ekki einmana. Nema tvisvar.
Annað skiptið var á hátíðinni í lok maí þar sem ég gekk um hátíðasvæðið og fylgdist með gleðinni. Skyndilega þyrmdi yfir mig nístandi einmanaleiki. Hitt skiptið var þegar ég var eitthvert kvöldið að færa til fötur í rigningunni og það var alveg sama hvað ég hljóp með föturnar, það fór alltaf að leka á nýjum stað.
Í báðum tilfellum hvarf einmanatilfinningin tiltölulega fljótt. Enda á ég ótal yndislega vini að ekki sé talað um yndislega fjölskyldu.
Sem óvirkur alki átti ég líka mín móment. Ég veit ekki hvernig það er annarstaðar á Spáni en í Cordoba segja menn þjóninum hvað þeir vilja, glasi er skellt á borðið og svo bara hellt þangað til einhver segir stopp. Flestir drukku viskí sem var ekki mín tegund, en einu sinni komu þrír menn inn og báðu um vodka. Vodka var minn drykkur og ég horfði stóreyg á þegar brakaði í klakanum meðan glösin voru fylllt. Og einu sinni var Miguel í miklu stuði og vildi daðra og dansa. Ég einhvernveginn var ekki í takt við hann þó ég vildi það gjarnan og hugsaði með mér: "Þetta væri miklu skemmtilegra ef ég væri í glasi."
En allt leið þetta hjá og AA-litteratúrinn, æðruleysisbænin og mantran mín komu sér ævinlega vel.
Ég hef verið einkennilega þreytt síðan ég kom til Englands, en samt sæl. Annica litla er bara stjarna, mesti sjarmur sem hugast getur og hér líður mér vel.
Ég er á leið á ráðstefnu í Hell í Noregi 12. júní og hlakka rosalega til. Þetta er freelance-ráðstefna og við þarna tveir íslenskir blaðamenn, ég og Geir, og stefnum auðvitað að því að vinna brennókeppnina að ógleymdri söngkeppninni. Urðum í öðru sæti í fyrra með Rósina.
Eftir þessa ráðstefnu liggur leiðin á AA-ráðstefnu í Winchester.
Síðan fer ég að huga að heimferð, en enn er staðan sú að ég á ekkert heim á Íslandi. Ef ég ekki fæ íbúð á viðráðanlegu verði fer ég aftur til Cordoba og tek spænskukúrs. Það er eina vitið ef maður ætlar að dvelja í ókunnu landi.
Það er svo margt sem langar að skrifa um, síðustu dagana á Spáni og svo um allt önnur og alvarlegri mál eins og til dæmis blaðamennsku á Íslandi. Geri það eftir ráðstefnu, en þangað til bara ljúfar færslur um lífið og tilveruna.
Set inn myndir af hátíðinni í Cordoba og af Annicu í garðyrkjustörfum, þar sem hún át mold í gríð og erg og ljómaði af gleði.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)