sunnudagur, 1. júní 2008

Í allri einlægni






1. júní.


Nú er ég búin að vera í Englandi síðan 27. maí og er enn að bíða eftir sálinni. Yfirleitt þegar ég kem til Englands fer ég beint til Reading þar sem dóttir mín býr með fjölskyldu sinni.
Ég fæ mér kaffi á pöbbnum fyrir utan brautarstöðina og bíð þar eftir sálinni sem oftast kemur með næstu lest. Það er einhvern veginn öðruvísi núna.
Síðasta daginn minn í Cordoba fór ég í göngutúr um gamla bæinn, kyssti þjónana bless sem höfðu brosað til mín í hvert eitt sinn og vissu alltaf hvað ég vildi svo ég þurfti ekki einu sinni að panta.
Svo fór ég um slóðirnar sem mér er farið að þykja svo vænt um og skildi eftir þakklæti á hverju götuhorni fyrir það sem borgin hafði fært mér og kennt mér.
Maður verður margs vísari um sjálfan sig þegar maður dvelur tv0 mánuði í borg þar sem enginn skilur mann.
Vissulega var Alfonso himnasending en hann var í vinnu og gat ekki sinnt mér út í eitt. Flestum sem ég kynntist kynntist ég þó í gegnum hann.
En mest var ég ein.
Ég gekk um göturnar ein, sat ein á kaffihúsunum og fann frið og sátt umlykja mig. Ég var ein - ekki einmana. Nema tvisvar.


Annað skiptið var á hátíðinni í lok maí þar sem ég gekk um hátíðasvæðið og fylgdist með gleðinni. Skyndilega þyrmdi yfir mig nístandi einmanaleiki. Hitt skiptið var þegar ég var eitthvert kvöldið að færa til fötur í rigningunni og það var alveg sama hvað ég hljóp með föturnar, það fór alltaf að leka á nýjum stað.


Í báðum tilfellum hvarf einmanatilfinningin tiltölulega fljótt. Enda á ég ótal yndislega vini að ekki sé talað um yndislega fjölskyldu.


Sem óvirkur alki átti ég líka mín móment. Ég veit ekki hvernig það er annarstaðar á Spáni en í Cordoba segja menn þjóninum hvað þeir vilja, glasi er skellt á borðið og svo bara hellt þangað til einhver segir stopp. Flestir drukku viskí sem var ekki mín tegund, en einu sinni komu þrír menn inn og báðu um vodka. Vodka var minn drykkur og ég horfði stóreyg á þegar brakaði í klakanum meðan glösin voru fylllt. Og einu sinni var Miguel í miklu stuði og vildi daðra og dansa. Ég einhvernveginn var ekki í takt við hann þó ég vildi það gjarnan og hugsaði með mér: "Þetta væri miklu skemmtilegra ef ég væri í glasi."


En allt leið þetta hjá og AA-litteratúrinn, æðruleysisbænin og mantran mín komu sér ævinlega vel.


Ég hef verið einkennilega þreytt síðan ég kom til Englands, en samt sæl. Annica litla er bara stjarna, mesti sjarmur sem hugast getur og hér líður mér vel.


Ég er á leið á ráðstefnu í Hell í Noregi 12. júní og hlakka rosalega til. Þetta er freelance-ráðstefna og við þarna tveir íslenskir blaðamenn, ég og Geir, og stefnum auðvitað að því að vinna brennókeppnina að ógleymdri söngkeppninni. Urðum í öðru sæti í fyrra með Rósina.


Eftir þessa ráðstefnu liggur leiðin á AA-ráðstefnu í Winchester.


Síðan fer ég að huga að heimferð, en enn er staðan sú að ég á ekkert heim á Íslandi. Ef ég ekki fæ íbúð á viðráðanlegu verði fer ég aftur til Cordoba og tek spænskukúrs. Það er eina vitið ef maður ætlar að dvelja í ókunnu landi.


Það er svo margt sem langar að skrifa um, síðustu dagana á Spáni og svo um allt önnur og alvarlegri mál eins og til dæmis blaðamennsku á Íslandi. Geri það eftir ráðstefnu, en þangað til bara ljúfar færslur um lífið og tilveruna.


Set inn myndir af hátíðinni í Cordoba og af Annicu í garðyrkjustörfum, þar sem hún át mold í gríð og erg og ljómaði af gleði.


4 ummæli:

  1. Takk fyrir allar dásamlegu sögurnar frá Spáni,

    SvaraEyða
  2. Elsku Svaladrottning númer eitt! Yndislegt að lesa sögurnar þínar. Ég fékk nú smá kökk þegar þú talar um einmanaleikann, en gott að hann þyrmdi ekki yfir þig nema tvisvar á tveimur mánuðum. Þú átt svo yndislega fjölskyldu og vini að þú þarft ekki að vera einmana; aldrei. Gott að geta fylgst með þér elskan mín. Hér eru engar svalir, en ég hugsa oft um skemmtilegu stundirnar okkar á svölunum, báðar á náttslopp með okkar sígarettur! Þú ert frábær. Love, Svaladrottning #2

    SvaraEyða
  3. Takk fyrir bloggið þitt!

    SvaraEyða
  4. Þakka ykkur, elsku vinir, fyrir falleg orð. Og elsku svaladrottning. Þegar ég kem heim finnum við okkur svalir, förum í eitthvert hýjalín og verðum bara flottastar. Ástarkveðja, Edda.
    PS. Og ég er ekkert hætt að blogga, innan tíðar koma rapport frá Helvíti:)

    SvaraEyða