miðvikudagur, 4. júní 2008

Fan vad jävla bra det skal bli i Hell4. júní.

Ég er að skrifast á við norræna kollega mína sem ég mun hitta á ráðstefnu í Hell í Noregi í næstu viku. Þetta er bara lítið dæmi um hvað við erum svakalega fyndin:)

Nafnið á þessum bæ er reyndar dregið af orðinu hellir og hefur ekkert með stuðið í neðra að gera.


Lífið í Englandi er alltaf jafn dýrðlegt og Bretarnir stórkostlegir.


Ég átti tíma í dag í litun og plokkun en þegar ég mætti sagði afskapleg kurteis enskur snyrtifræðingur að því miður væri ekki hægt að gera þetta í dag þar sem gleymst hefði að gera á mér ofnæmispróf.

Ég sagði henni að láta bara vaða, kona sem setur í sig þrjá hárliti á einu kvöldi kallar nú ekki allt ömmu sína.

En það var ekki við það komandi. Prufan var gerð og ég á tíma aftur á morgun.


Anna Lilja fór í bankann á meðan til að millifæra af sínum reikningi á Chris, en elskuleg bresk starfsstúlka ráðlagði henni eindregið að taka peninginn út og labba með hann í næstu götu þar sem Chris er með sinn reikning. Hitt væri bæði dýrara og tæki lengri tíma!!!!

Chris getur svo tekið þennan pening út eftir þrjá virka daga. Er þetta ekki dásamlegt?Á leiðinni heim í strætó las ég á bannskiltið þar sem stendur að harðbannað sé að reykja eða drekka og fólki beri að tala lágt í gemsana sína og hafa græjurnar á eyrunum lágt stilltar. Þá er bannað að vera með fæturna uppi á sætunum og táfýlufætur eru stranglega bannaðir. Mín vegna mætti ganga alla leið með þetta og banna fólki aðgang sem er með ógeðslega vonda ilmvatnslykt sem er að kæfa mann, eða gamla svita- og fúkkalykt.


Ísbílinn kemur líka hér á hverjum degi. Fyrst heyrist "We Are Sailing" með Rod Stewart í bjölluútgáfu og ef það dugir ekki til að æsa upp í fólki íslöngunina er skipt yfir í skoskan mars með trommum og alles og endað á glory, glory hallelúja...

Sá sem ekki verður að fá ís eftir það er eitthvað sljór.

Ég ætla að klikkja út með skordýrasögu sem er dagsönn, en við Anna Lilja eigum það sameiginlegt að vera frekar fóbískar.

Þegar ég var að reykja út í garði í gær, þá síðustu fyrir svefninn, fann ég að eitthvert kvikyndi skreið eftir hálsinum á mér. Ég hristi mig alla en fann þá þúsund litlar lappir færa sig niður á bak. Ég endasentist upp, henti af mér bol og buxum, hristi eins og ég ætti lífið að leysa, og fór svo upp í rúm. En - þegar Anna Lilja kom til að kyssa mig góða nótt varð hún skyndilega kríthvít í framan og hentist út í vegg.

Ég dáist að henni að hafa ekki æpt og vakið barnið því köngulóin sem hljóp í ofboði undir koddann minn var RISA.

Ég svaf ekki mikið þessa nótt, við fundum náttúrlega aldrei köngulóna og ég svaf með brúsa af hárspreyi innan seilingar. Mig hefur klæjað síðan.

Ég hef engar sérstakar myndir að birta en af því Egill Helga er að birta svo flottar myndir af blómum frá Krít ætla ég að herma og birta blómamyndir frá Spáni.
Annars fer útlegðinni að ljúka í bili, ég er samt enn heimilislausa blaðakonan, svo ef einhver þarf að láta passa íbúð, herbergi, bíl, hund eða kött í júlí og ágúst er ég tilvalin:)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli