Spurningin er bara hvar miðaldra, flott kona eins og ég finn frambærilegan mann til að verða kærastinn minn.
Ekki nenni ég á skemmtistaðina þar sem misdrukknir og óaðlaðandi karlar manga til við mig á xx glasi.
Eftirmiðdagselskhuginn er yndislegur og ég er bullandi skotin í honum. Þar eru samt takmörk.
Það er leynisamband.
“Af hverju ferðu ekki inn á einkamál.is? Þar er fullt af flottum gæjum.”
Segja vinkonurnar.
“Ef þeir eru svona flottir af hverju eru þeir á einkamál.is?”
“Erum við ekki flottar? Við erum á einkmál.is.”
Segja þær.
“Ég hef ekki séð neina kærasta. Hefur ykkur orðið eitthvað ágengt?”
“Já, já, við erum alltaf að máta okkur við hina og þessa gæja. Einn góðan veðurdag verður það sá rétti.”
Hmm....
Ég skvera inn auglýsingu á einkamál.is.
Og það stendur ekki á viðbrögðunum.
Eftir að hafa farið í gegnum bréfaflóðið standa tveir eftir sem eru vel skrifandi og ákaflega frambærilegir að eigin sögn.
Annar vill heyra í mér eftir tveggja daga bréfaskriftir, enda kannski ekki meira að segja bréfleiðis, tiplandi undir fölsku nafni.
Hann er í fínni stöðu, skemmtilegur, klár og rómantískur og vill nudda á mér fæturna.
Hann hringir og er faktískt skemmtilegur viðræðu. Ítrekar nokkrum sinnum þetta með fótanuddið.
Er maðurinn með einhverskonar fótafetish?
Hann vill hittast í vikunni.
Hringir nokkrum sinnum í viðbót, hress og ákaflega umhyggjusamur.
Kannski ég slái bara til og hitti hann!?
Fer daginn eftir og hittti vinkonu sem er sérfræðingur í einkamálabransanum.
Segist hafa prófað og kannski fari ég og hitti mann í vikunni.
“Ég líka,” segir hún spennt. “Hvað heitir þinn?”
Ég segi henni það. “En þinn?”
Það er sama nafnið. Sami maður.
Maður sem hún heyrði í kvöldinu áður og vill endilega nudda á henni lappirnar.
Ég fer efst í pirringsskalann og spyr hvort henni finnist þetta ekkert sick?
“Nei. Ekki vitund. Fólk er að leita og þá hittir það auðvitað sem flesta.”
Það er nefnilega það.
Ég held ég afþakki.
Það má alltaf kaupa sér fótanudd ef það verður issjú í lífi manns.
Og skrái mig út af einkamálum.is.