fimmtudagur, 4. september 2008

Tónlistareinvígi á rauðu ljósi

Lífið getur verið ótrúlega tilfþrifalítið á köflum.
Hápunktar undanfarinna daga hafa verið heimsókn til gamals vinar og tónlistareinvígi á rauðu ljósi.

Fyrst heimsóknin.

Þessi gamli vinur minn er náttúrlega ekkert venjulega skemmtilega klikkaður. Það muna auðvitað allir eftir syngjandi fiskinum sem var ægivinsæll fyrir nokkrum árum.
Vinurinn er búinn að setja sinn upp á baðherberginu, sem væri ekki í frásögur færandi nema af því hann setti nema á fiskskrattann, sem gerir það að verkum að hann byrjar að syngja um leið og sest er á salernið.

Don't worry - be happy syngur fiskurinn og engin leið að stopp'ann.

Ekki veit ég hvort þetta hefur áhrif á hægðir til slæms eða góðs. Best gæti ég trúað að krónískt harðlífi verði afleiðingin fyrir eigandann.

Svo tónlistareinvígið.

Ég þurfti að stoppa á rauðu ljósi í dag og við hliðina á mér var ungur töffari að spila eitthvað sem er örugglega flokkað undir tónlist.
Ég var hinsvegar með karlakór og einsöngvara í mínum bíl sem sungu þrumraust um Stenka Rasin.

Bæði voru með niðurskrúfaðar rúður.

Drengurinn horfði ögrandi á mig og hækkaði í sínum græjum.
Ég hækkaði í mínum.
Hann hækkaði meira og glotti sjálfumglaður.
Ég setti í botn.

Þá skyndilega lækkaði hann og benti mér að lækka líka.
Svo brosti hann út að eyrum og kallaði: Djöfull ertu töff.
Það merkilega var að ég sá að hann meinti það.
Ég ók lukkuleg á brott og hugsaði að ekki hefði kúlið krumpast hjá mér í dag.

Af sambýlinu hér er ekkert að frétta. Nýi leigjandinn er aldrei heima, var greinilega bara að leigja húsnæði undir pottana sína og hreinlætisvörurnar.

Hann kemur samt stundum á morgnana til að fá sér heilsudrykk áður en hann fer til vinnu og þá er ógurlega glatt á hjalla hjá honum og Danna.
Það vill til að ég byrja að vinna sex á morgnana og er komin yfir morgungeðvonskuna þegar þeir hlæja eins og hýenur yfir morgunmatnum.

Eftir Stuðmannaballið um síðustu helgi er ég komin á bragðið og ætla á Ljósanótt um helgina og stunda böllin grimmt.

Eftirmiðdagselskhuginn þurfti að skreppa af landi brott, en er nú á heimleið.
Ég sakna hans.

Ein pæling í lokin.
Hétu fellibyljir ekki alltaf kvenmannsnöfnum eða er það einhver meinloka í mér?

Og Ps: Hvernig er hægt að taka mark á forsetaframbjóðanda sem heitir sama nafni og pítsufyrirtæki?

7 ummæli:

 1. Þeir ættu í það minnsta allir að heita kvenmannsnöfnum því konur eru svo grimmar (væl væl).

  Ef þú ert að tala um McCain þá finnst mér það vera minnst óaðlaðandi parturinn við hann sem frambjóðanda að nafnið hans er fæðutengt! Held að það sé líka til frosin súkkulaðikaka sem heitir eitthvað McCain´s.

  Hvernig er hægt að hafa syngjandi fisk á klósettinu? Þá er ekki hægt að lesa í friði... hmmmm afleit hugmynd.

  SvaraEyða
 2. Hæ elsku rúsínan mín

  Ferlegt með fallega leigjandann, þetta eru hreinlega svik.

  Fúlt að missa af partýinu um daginn, komst ekki þar sem enginn var heima og við mæðgur kúrðum því tvær saman yfir tv fram á kvöld.

  Vonandi næ ég að hitta á þig næst þegar ég kem í rvk (hvenær sem það verður).
  Knús knús, þín Anna María

  SvaraEyða
 3. Hef ég ekki alltaf sagt að þú sért töffari, hehe.

  SvaraEyða
 4. Jú, það er rétt hjá þér að þessi óargadýr sem fellibylir eru hétu alltaf kvenmannsnöfnum. En fyrir nokkrum árum var því breytt og heita þeir nú til skiptis karla- og kvenmannsnöfnum, og alltaf í stafrófsröð.

  SvaraEyða
 5. Ohh þessi fiskur... Minnir að hann hafi valdið harðlífi, niðurgangi og upköstum á sínum tíma og jafnvel öllu í einu. Að hafa hann á baðherberginu er náttúrulega bara ávísun á sjálfsmorð!

  En getur ekki verið að framboðið sé bara styrkt af McCain... falin aúglýsing, getur ekki klikkað.

  Svo ertu bara töffari nr. 1, það er bara svoleiðis.

  Kveðja Halla,
  töffari nr. 2.

  SvaraEyða
 6. Samt gat þessi fiskur alltaf komið mér í gott skap - eftir að ég komst að því að það var misskilningur að mamma hefði stolið honum, hehe

  En annars hélt ég að ég væri töffari nr. 2. . .

  SvaraEyða
 7. Hahahahaha... ég var búin að gleyma því hversu lengi við systkinin trúðum því að fiskkvikindið væri þýfi.

  Mamma þó !!

  SvaraEyða