sunnudagur, 30. nóvember 2008

Ekki meir ekki meir

Fyrst enginn sem er ábyrgur fyrir klúðrinu ætlar að segja af sér ætla ég prívat og persónulega að gera það.
Segja af mér, meina ég.

Eftir að Ísland kom endanlega út úr skápnum sem gjörspillt bananalýðveldi er ekki hægt að búast við að þegnarnir séu þroskaðri en miðlungs bananar í ávaxtaborðinu.

Ég segi mig því hér með úr lögum við þetta skítasamfélag.

Ég er svo pisst og með svo svæsna köfnunartilfinningu að það hálfa væri nóg.

Er í Englandi hjá barninu mínu og barnabarni. Heimsókn sem var skipulögð fyrir mörgum mánuðum.
Á næstum engan pening og það litla sem ég á er nánast einskis virði.

Áður en ég fór út tók ég heila viku í að skoða stöðuna.
Grenjaði höfgum tárum næstum allan tímann.
Var aldrei boðið í “partíið” umtalaða svo ég gat bara grenjað að vild í mínu eigin partíi.

“It’s my party and I cry if I want to....”


Niðurstaðan er þessi:
Það er ekki séns ég geti staðið í skilum lengur.
Ekki séns.

Ekki séns ég borgi skuldir sem krimmar hafa stofnað til.

Nóg var nú samt.

Ekki séns ég sýni umburðarlyndi og skilning.
Ekki séns ég líði það lengur að talað sé niður til mín af spilltum stjórnmálamönnum og siðblindum hagsmunapoturum.
Ekki séns ég kyngi því að fá engar upplýsingar - nema sérhannaðar haugalygar.
Ekki séns ég kyngi meira rugli yfirleitt.

Ekki séns.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Úti er ævintýri - við höfum verið blekkt


Ég held við höfum verði blekkt.

Ég held að jólasveinarnir búi ekkert í Esjunni hjá Grýlu mömmu sinni og öllu hennar hyski.

Ég held þeir láti bara sem þeir fari þangað eftir jól.

Það sem þeir hins vegar gera er að kasta af sér rauðu dulunum og setjast í ráðherrastólana.

Hurðaskellir fer í Seðlabankann.

Svo getur Grýla eins og flestir vita brugðið sér í allra kvikinda líki. Síðast breytti hún sér í Fjármálaeftirlitið og hefur dundað sér við að éta börnin sín allt þetta ár með kvikindislegt glott á vör.

Pörupiltarnir/stúlkurnar geta ekki beðið eftir að íslensku krakkaormarnir setji skóinn út í glugga. Þeir eru nefnilega með glaðning handa öllum. Feitan reikning sem þeir koma með á hverri nóttu.
Aldrei fyrr hefur verið "hó-hó-hó-að" jafn hjáróma.

Og jólakötturinn glottir gráðugur álengdar.

Svo hef ég sterkan grun um að geimfarið sem allir biðu eftir við Snæfellsjökul hér um árið, og skilaði sér aldrei, hafi einmitt komið.

Sumir sögðu að það hefði verið ósýnilegt og sennilega er það rétt.

Geimverurnar tóku sér svo bólstað í útrásarstrákunum. Þess vegna skiljum við hvorki upp né niður í því sem þeir segja eða gera.

Þeir eru frá annarri plánetu.
Við höfum pottþétt verið blekkt.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Tímamótayfirlýsing stjórnmálamanns

Djö... er ég orðin leið á þessari kreppu. Og merkilegt að þjóðin geti ekki einu sinni sameinast þegar allt er á leiðinni til andskotans í þessu landi. Það er hver höndin upp á móti annarri eins og vant er.
Sést til dæmis á kommentum við fréttir hér á Eyjunni.

Þegar ung stúlka talar á “mótmælafundi/samstöðufundi/einhverskonar-látum-í-ljós óánægju-fundi”, og segir það sem meirihluti þjóðarinnar hugsar, rekur fólk upp ramakvein og fer í hár saman af því hún á að tengjast Vinstri grænum.

Hverjum er ekki skít sama hvaða pólitíska flokk hún aðhyllist? Þetta snýst ekki lengur um flokkadrætti, enda fólk búið að missa alla trú á stjórnmálaflokka, Vinstri græna ekkert síður en hina.
Það eina sem skiptir máli er að fólk segi sannleikann.

Ótrúlegt hvað kommagrýlan hefur náð að festast hér í sessi og rugla fólk í rýminu.
En Grýlur ku hafa þessi áhrif.

Heimóttarskapur þessarar þjóðar er slíkur að ef einhver tekur stórt upp í sig í mótmælaræðu hlýtur hann að vera vinstri sinnaður, sem er hvað - dauðasök?

Og fólk hrekkur umsvifalaust í vörn fyrir Geir og Ingibjörgu.

Einmitt. Talandi um Ingibjörgu.

Það þótti fréttnæmt úr ræðu hennar á flokksstjórnarfundi þegar hún talaði um að “nú væru forgangsverkefnin skýr: Fyrst kæmi fólkið – svo hagsmunir flokksins”.

Það var ekki seinna vænna að hún uppgötvaði það.

Stjórnmálaflokkar hafa alltaf átt að setja fólkið í landinu framar flokkshagsmunum.
Leiðinlegt að þeir uppgötvi það fyrst núna þegar öll spjót standa á þeim og ekki lengur verður komist upp með að drulla yfir lýðinnn með flokkshagsmuni að leiðarljósi.

“Fólkið fyrst,” sagði konan,” flokkurinn svo” - og hafði þrátt fyrir allt ekkert í huga nema hagsmuni flokksins.

Ég er búin að fá upp í kok.

Er á leiðinni til óvinaþjóðarinnar Englands í hálfan mánuð, þar sem ég á dóttur, tengdason og barnabarn. Við ætlum að reyna að fanga jólaandann og hafa það notalegt.

Fæ samt hvergi á hreint hvort ég kaupi pundið á 212 krónur, 320 eða jafnvel eitthvað þaðan af verra.

Ég bara verð að komast út úr þessu andrúmslofti um stund.

Í AA-hugleiðingu dagsins stendur m.a.:

"Vertu hvergi smeykur. Vertu frjáls og óbeygður í anda. Þú getur verið með heilli há og ósnortinn þrátt fyrir mistök og öll þeirra áhrif, ef þú lætur anda þinn sigra heiminn, rísa yfir ys og þys jarðlífsins og hverfa til leyndra heimkynna friðar og trúnaðartrausts."

Og bæn dagsins: "

"Ég bið að ég sé vongóður og bjartsýnn. Ég bið að ég verði óhræddur við vald mistakanna."

Aldrei fyrr hefur mér þótt jafn erfitt að tileinka mér þetta. Ég er allt í senn, vonlítil, svartsýn og hrædd.

Og 100% vantrúuð á að vald mistakanna (les: þeir sem bera ábyrgðina) muni ekki koma mér á kné.

Því miður.

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Að takast á við reiðina og vanmáttinn

Hér ríkir bölvuð óáran.
Útilokað að skafa nokkuð utan af því.
Reiði, gremja, sorg og kvíði einkenna hnípna þjóð við nyrsta haf.

Ástandið er að mörgu leyti óvænt.
En hugsanlega var það að sama skapi fyrirsjáanlegt.

Sumt er þó ekki fyrirsjáanlegt.

Í kvöld halda Höndin - mannræktarsamtök málþing undir yfirskriftinni “Af erfiðleikunum vex maður”.
Frummælandi er Friðrik Pálsson, hóteleigandi.

Þegar hann síðsumars var beðinn að hafa framsögu á þessum fundi óraði engan fyrir því að ástandið á Íslandi yrði með slíkum ólíkindum þegar að fundinum kæmi.

Friðrik óraði heldur ekki fyrir því þegar hann á góðviðrisdegi haustið 2006 reið út ásamt eiginkonu sinni og dóttur, að reiðtúrinn yrði örlagadagur í lífi þeirra allra.

Hestur eiginkonu hans, Ólafar Pétursdóttur, hnaut og féll.
Ólöf, þaulvanur reiðmaður, slasaðist illa.
Hún hlaut slæman mænuskaða og lamaðist frá hálsi.
Eftir langa og stranga sjúkrahúsvist, sem hún tókst á við af eindæma seiglu og reisn, varð hún að lúta í lægra haldi.
Ólöf lést af áverkum sínum 20. mars síðastliðinn.

Friðrik og fjölskylda hans, ásamt vinum og vandamönnum, tókust á við þetta áfall af ótrúlegu æðruleysi.

Og Friðrik þekkir sorgarferlið.

Hann þekkir kvíðann, sorgina og spurningarnar sem vakna.

Líka reiðina og vanmáttinn.

Friðrik hefur eins og við öll tekist á við margskonar áföll í lífinu.
Hann er þó svo gæfusamur að vera gæddur sérstakri lífsýn sem einkennist af bjartsýni og baráttuvilja.
Þeirri lífsýn deilir hann gjarna með fundarmönnum í kvöld.


Hörður Torfason og Ragnheiður Ásta verða sömuleiðis gestir fundarins.

Fundurinn verður í neðri sal Áskirkju og hefst klukkan 20.30.
Þangað eru allir velkomnir og eftir framsögu Friðriks er stefnt að fjörugum umræðum um lífið og tilveruna.