miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Úti er ævintýri - við höfum verið blekkt


Ég held við höfum verði blekkt.

Ég held að jólasveinarnir búi ekkert í Esjunni hjá Grýlu mömmu sinni og öllu hennar hyski.

Ég held þeir láti bara sem þeir fari þangað eftir jól.

Það sem þeir hins vegar gera er að kasta af sér rauðu dulunum og setjast í ráðherrastólana.

Hurðaskellir fer í Seðlabankann.

Svo getur Grýla eins og flestir vita brugðið sér í allra kvikinda líki. Síðast breytti hún sér í Fjármálaeftirlitið og hefur dundað sér við að éta börnin sín allt þetta ár með kvikindislegt glott á vör.

Pörupiltarnir/stúlkurnar geta ekki beðið eftir að íslensku krakkaormarnir setji skóinn út í glugga. Þeir eru nefnilega með glaðning handa öllum. Feitan reikning sem þeir koma með á hverri nóttu.
Aldrei fyrr hefur verið "hó-hó-hó-að" jafn hjáróma.

Og jólakötturinn glottir gráðugur álengdar.

Svo hef ég sterkan grun um að geimfarið sem allir biðu eftir við Snæfellsjökul hér um árið, og skilaði sér aldrei, hafi einmitt komið.

Sumir sögðu að það hefði verið ósýnilegt og sennilega er það rétt.

Geimverurnar tóku sér svo bólstað í útrásarstrákunum. Þess vegna skiljum við hvorki upp né niður í því sem þeir segja eða gera.

Þeir eru frá annarri plánetu.
Við höfum pottþétt verið blekkt.

5 ummæli:

 1. Já einmitt og það var sjálfsblekking dauðans. Allir sem höfðu einhverja glóru í hausnum vissu að þessi jafna gat ekki gengið upp. Máltækið "Hátt hreykir heimskur sér" byrjar ekki einu sinni að segja söguna. Menn þurftu að vera stjarnfræðilega vitlausir til að sjá ekki og skilja að ruglið og vitfirringin allt í kring - ekki bara hjá útrásargaurunum - hlaut að enda með skelfingu. Enga hræsni og yfirdrepsskap hér. Mestöll þjóðin var með þeim á fylleríinu.

  SvaraEyða
 2. Að sjálfsögðu létu flestir blekkjast með glöðu geði. Það er alltaf einfaldast að lifa í sjálfsblekkingunni - því miður.

  SvaraEyða
 3. Flott hugleiðing og bara kveðja til þin ;)

  SvaraEyða
 4. Snilldar lesning - og takk fyrir að koma mér til að hlægja dátt!

  SvaraEyða
 5. Í ljósi þessa er skondið að hugsa til þess hvað happaþrennur hafa alltaf verið vinsælar skógjafir...

  SvaraEyða