miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Að takast á við reiðina og vanmáttinn

Hér ríkir bölvuð óáran.
Útilokað að skafa nokkuð utan af því.
Reiði, gremja, sorg og kvíði einkenna hnípna þjóð við nyrsta haf.

Ástandið er að mörgu leyti óvænt.
En hugsanlega var það að sama skapi fyrirsjáanlegt.

Sumt er þó ekki fyrirsjáanlegt.

Í kvöld halda Höndin - mannræktarsamtök málþing undir yfirskriftinni “Af erfiðleikunum vex maður”.
Frummælandi er Friðrik Pálsson, hóteleigandi.

Þegar hann síðsumars var beðinn að hafa framsögu á þessum fundi óraði engan fyrir því að ástandið á Íslandi yrði með slíkum ólíkindum þegar að fundinum kæmi.

Friðrik óraði heldur ekki fyrir því þegar hann á góðviðrisdegi haustið 2006 reið út ásamt eiginkonu sinni og dóttur, að reiðtúrinn yrði örlagadagur í lífi þeirra allra.

Hestur eiginkonu hans, Ólafar Pétursdóttur, hnaut og féll.
Ólöf, þaulvanur reiðmaður, slasaðist illa.
Hún hlaut slæman mænuskaða og lamaðist frá hálsi.
Eftir langa og stranga sjúkrahúsvist, sem hún tókst á við af eindæma seiglu og reisn, varð hún að lúta í lægra haldi.
Ólöf lést af áverkum sínum 20. mars síðastliðinn.

Friðrik og fjölskylda hans, ásamt vinum og vandamönnum, tókust á við þetta áfall af ótrúlegu æðruleysi.

Og Friðrik þekkir sorgarferlið.

Hann þekkir kvíðann, sorgina og spurningarnar sem vakna.

Líka reiðina og vanmáttinn.

Friðrik hefur eins og við öll tekist á við margskonar áföll í lífinu.
Hann er þó svo gæfusamur að vera gæddur sérstakri lífsýn sem einkennist af bjartsýni og baráttuvilja.
Þeirri lífsýn deilir hann gjarna með fundarmönnum í kvöld.


Hörður Torfason og Ragnheiður Ásta verða sömuleiðis gestir fundarins.

Fundurinn verður í neðri sal Áskirkju og hefst klukkan 20.30.
Þangað eru allir velkomnir og eftir framsögu Friðriks er stefnt að fjörugum umræðum um lífið og tilveruna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli