fimmtudagur, 24. janúar 2008

Af hallarbyltingum

Kannski er þessi mynd af ráðhúsi Reykjavíkur táknræn fyrir lætin þar að undanförnu. Það er þó að sjá á myndinni að geimverur hafi ráðist að húsinu góða á Tjarnarbakkanum, en það sem nú gerist eru sprengingar innanfrá. Hver hallarbyltingin á fætur annarri, algjör sirkus, og maður veit varla hver er sirkusstjórinn hverju sinni.

Menn tala um að engin fordæmi séu fyrir því að fólk sé beðið að rýma áhorfendapalla og það sé gróf aðför að lýðræðinu, en þess er skemmst að minnast þegar fjölmiðlafrumvarpinu var mótmælt á Austurvelli, þá mættu mótmælendum fílefldir verðir þegar þeir ætluðu á þingpalla og enginn komst inn.

Það er hinsvegar einkenni á íslensku þjóðinni að allir verða búnir að gleyma þessu í næstu kosningum.

Ég hef persónulega ekkert á móti Óla F., hinsvegar er hann holdgervingur þeirra sem reka upp ramakvein í hvert skipiti sem til stendur að jafna ónýt og ljót hús við jörðu. Sömuleiðis virðist hann haldinn þráhyggju gagnvart flugvellinum. Skrýtin skrúfa Ólafur.

Það er reyndar orðið þannig að í hvert skipti sem einhverstaðar er á ferðinni nýtt deiliskipulag reka íbúar á svæðinu upp ægilegt hýenuvæl og mótmæla hástöfum.
Ég man reyndar hvað ég var sjálf á móti byggingu ráðhússins á sínum tíma og hét því að koma þar aldrei inn fyrir dyr. Nú man ég ekki lengur af hverju ég var svona rosalega á móti. Ég var líka á móti Perlunni og öllu mögulegu öðru sem er löngu gleymt.

Þetta hefur verið rosalegur mánuður, í hvert skipti sem maður ætlar að blogga um eitthvað sem er að gerast hafa ný og heitari mál verið á dagskrá. Ég ætlaði til dæmis að tjá mig um hinsta legstað Fishers af því mér fannst amerískur sérvitringur ekki eiga neitt erindi í grafreit á Þingvöllum. Með allri virðingu fyrir karlinum og minningu hans. En það kom aldrei til að maður þyrfti að hafa skoðun á því. Svo er það boltinn og allt honum tengt...

Þetta er mánuðurinn sem mig langar mest að leggjast í hýði eins og hver annar björn, en í ofanálag við þetta allt gæti ég átt dýrðlegan leynielskhuga sem ég myndi aldrei vanrækja ef hann er til á annað borð. Það verður semsagt ekki lagst í hýði enn um sinn.

2 ummæli:

  1. Aðför að lýðræðinu er þegar maður með 6700 atkvæði er gerður að borgarstjóra þar sem tæp 90.000 manns eru á kjörskrá. Aðför að lýðræðinu er þegar við erum með 3 borgarstjóra og aðstoðarmenn þeirra á launum út af sandkassarifrildi. Aðför að lýðræðinu er þegar maður með flöskubotna og hárkollu verður fúll á móti og selur sál sína og flokkinn sinn skrattanum til að komast aftur til valda. Lýðræði er þegar fólki er nóg boðið, flykkist á pallana og gargar "niður með stjórnina, burt með Villa og út með Ólaf". Finnst við ættum að gera þetta reglulega.

    ÁFRAM ÍSLAND!!!

    SvaraEyða
  2. Sammála, kjósendur verða búnir að steingleyma þessu í næstu kosningum.

    Kostuleg myndin.

    SvaraEyða