mánudagur, 11. febrúar 2008

Súrrealísk yfirhalning

Mikið gengur á og í dag sat ég eins og örugglega flestir og ranghvoldi augunum á herbergi í Valhöll þar sem aumingja Villi (kýs að kalla hann það frekar en gamla Villa) hafði boðað til blaðamannafundar. Sem dróst og dróst þannig að hálf þjóðin upplifði “deja vu” og svokallað “húnasyndróm” sem tengist húninum í Höfða og Ingva Hrafni. Aumingja Villi segi ég einfaldlega af því hann hlakkaði svo til að verða borgarstjóri, ætlaði að gera svo vel og enda pólitískan feril með soltlum stæl. Fara úr embætti elskaður og dáður af borgarbúum. Eiginlega enginn vissi hver Villi var meðan hann var óbreyttur borgarfulltrúi í minnihluta svo þetta er allt afar mannlegt.


Svo gengur bara allt á afturfótunum. Auminga Villi, sem er opinn, einlægur og fljótfær, reynist ekki starfanum vaxinn. Hann hefur örugglega haldið eins og ég að það væri ekkert mál að vera borgarstjóri. Fannst kannski að fyrrverandi borgarstjórar væru ekki að gera neitt sérstakt, borgarstjórnarflokkurinn sæi um vesenið meðan borgarstjórinn stundaði borðaklippingar, skóflustungur, og veislur og tæki brosandi mót borgarbúum á skrifstofunni.
Gefum nú aumingja Villa tækifæri til að bæta sig.

Og ég minni á að farsælir stjórnmálamenn hafa haft mjög gloppótt minni. Eða eru allir búnir að gleyma okkar heittelskaða Steingrími Hermannssyni sem klóraði sér svo krúttlega í kollinum og mundi aldrei neitt?

Óla F-málið var líka eitt allsherjar örvæntingarklúður og nú gerist ég persónuleg. Ólafur var spurður út í veikindi sín og fór undan í flæmingi í stað þess að standa keikur og segjast hafa þjáðst af þunglyndi sem hann væri búinn að ná sér af. Þarna sýndi Óli F. fordóma sína gagnvart geðsjúkdómum sem aðrir hafa bloggað um og ástæðulaust að bæta nokkru í það.

Málið stendur mér nærri þar sem ég greindist nefnilega með ofurkvíða fyrir ekki svo margt löngu og hef átt mjög erfitt með horfast í augu við það. Meðal annars til að vinna á eigin fordómum skrifaði ég bráðskemmtilega grein í Morgunblaðið um þunglyndi sem hægt er að lesa inni á vef Handarinnar, sem eru mannræktarsamtök. Greinin er á forsíðu og heitir Ég er nagli og hlusta ekki á nætt væl um þunglyndi. Höndin efnir einmitt til málþings um efnið í byrjun mars. Og eins og það er leiðinlegt að hlusta á sjúkrasögur annarra (næst verst eftir að hlusta á drauma annarra), fullvissa ég lesendur um að þetta er þrusugóð grein.

Undanfarnar vikur hefur mér elnað sóttin og það lýsir sér með þunglyndi, auknum kvíðaköstum, lélegri sjálfsímynd og allsherjar tilvistarklúðri. Og nú ætla ég að segja ykkur skondna sögu.

Ég er leigjandi hjá gömlum hjónum í Kópavogi og sambúðin hefur að mestu gengið vel. Undanfarið hefur þó borið nokkuð á geðvonsku gamla mannsins vegna bílastæða okkar megin götunnar og hann hefur ráðist með óbótaskömmum á fólk sem í grandaleysi leggur þar. Mínir gestir hafa ekki farið varhluta af þessari þráhyggju gamla mannsins og á jólunum keyrði um þverbak þegar fyrrverandi tengdadóttir mín svaraði honum fullum hálsi með þeim afleiðingum að karl sagði mér upp leigunni. Það hafa því miður fallið nokkuð stór orð síðan því mér þykir vænt um gömlu hjónin.

Leiðindin náðu svo hámarki á föstudaginn. Ég var úti að skafa bílinn og gamli maðurinn var að moka snjó úr innkeyrslunni. Hann kom til mín þar sem ég var að skafa og hafði í hótunum og eftir því sem ég reiddist meir varð ég harðhentari við sköfuna. Ekki veit ég hvort snjór frá mér hefur lent á karlinum en hann gerði sér allt í einu lítið fyrir og jós yfir mig snjó úr skóflunni.
Þetta var í orðsins fyllstu merkingu súrrealískt andartak, svo súrralískt að ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta, en hraðaði mér burt á bílnum hið snarasta.
Reiðin sauð og kraumaði í mér meðan ég sinnti nokkrum erindum og þegar ég kom heim aftur bankaði ég upp á hjónunum og jós úr mér uppsafnaðri reiði. Þar hitti auðvitað skrattinn ömmu sína því karlinn er miklu betri í svona rifrildum en ég og á endanum var allt sem ég sagði óskiljanlegt vegna þess hvað ég grenjaði rosalega.

Gamla konan kom upp í látunum, rak mann sinn niður og hélt utan um mig meðan ég grét hömlulaust. Hún heimtaði að ég kæmi niður og drykki með þeim kaffi þegar ég væri búin að jafna mig og ég gerði það. Við föðmuðumst öll að skilnaði og ég vona að brottför mín úr þessu húsi verði án frekari vandræða. Ég tók samt allt föstudagkvöldið í að grenja fyrst ég var byrjuð á annað borð. Það var svo ótalmargt sem ég átti ógrátið eftir veturinn.

Ég var með barnabörnin mín á laugardaginn og ekkert gat huggað jafn vel og yndisleg systkin, Lilja Maren og Jón Breki, sem kúrðu hjá ömmu sinni og sögðu að hún væri besta amman í heiminum. Þau bættu að vísu við listann fjölmörgum öðrum sem væru líka bestir í heiminum, en það gerði ekkert til. Best væri einmitt að við værum öll best í heiminum.

2 ummæli:

  1. Takk fyrir þetta blogg og takk fyrir greinina þína á www.hondin.is

    Takk!

    SvaraEyða
  2. Æ hann Villi.. hvað getur maður sagt ! Hann er nú bara mannlegur greyið og ein klaufaleg mistök er nú ekki alvarlegt, eða tvenn eða þrenn eða.. jæja hvaða máli skiptir það svosem ? En þetta með snjóinn rifjaði upp "skemmtilegt" atvik frá því kona ein var að rífast við mann einn og þegar allt var komið í hnút og manninum langaði mest að berja vitleysuna úr konunni brá hann á það ráð að hella yfir hana fullu glasi af kóki. Kannski þeir séu skyldir, kókmaðurinn og snjómaðurinn, hmm? En takk fyrir hjálpina um helgina, þú ert klárlega besta amman!!!

    SvaraEyða