fimmtudagur, 14. febrúar 2008

Gamalt samtal og gestsaugu

Horfði á Kiljuna í gærkvöldi og það rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við frábæra blaðakonu (nafni hennar verður að sjálfsögðu haldið stranglega leyndu) um Egil Helga.
Ég sagði að Egill væri maður sem ég hefði auðveldlega getað orðið skotin í og þá kom hún mér gjörsamlega á óvart (af því hún er svona streit týpa og enginn galgopi eins og ég) og sagði að ef hann væri á lausu þyrfti ég fyrst að berjast við hana.

Þetta var fyrir mörgum, mörgum árum.

En það er allt í lagi að mæra Egil, hann á alveg fyrir því. Það er ekki tilviljun að maður missir helst ekki af þáttunum hans, hvort sem um er að ræða þjóðfélagsmál eða menningarþátt á borð við Kiljuna. Það er líka athyglisvert að aðrir sem hafa farið af stað með sambærilega þætti hafa ekki haft erindi sem erfiði.

Ég var gjörsamlega heilluð af Vestur-Íslendingnum sem hann talaði við í gær og grét í hjartanu yfir sannleiksgildi orða hans þegar hann lýsti nútíma Íslendingnum sem væri ekki lengur í samhljómi við landið sitt og menningararfleifð. Þar sannaðist að glöggt er gestsaugað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli