miðvikudagur, 20. febrúar 2008

Að blóðmjólka fréttir

Rak augun í það á pressuvefnum að pressudagurinn er á laugardaginn og búið að tilnefna margt ágætisfólk til blaðamannaverðlauna.
Það gleður mitt gamla hjarta að vinir mínir á ritstjórn DV skuli vera tilnefndir og spurning hvort DV fær þar ekki nokkra uppreisn æru þó aðrir væru teknir við stjórnartaumum.

Mörg þörf og áhugaverð mál voru tekin fyrir á gamla DV þó þjóðin væri öll í móðursýkiskasti undir það síðasta.

Á vefnum er kosning um hvað fólki finnst um tilnefningarnar og í augnablikinu er staðan þessi: Mjög góðar og eðlilegar : 20%. Flestar eðlilegar og í lagi: 41%. Fæstar eðlilegar og í lagi: 32%. Allar út í hött : 7%.

Það má örugglega alltaf deila um hver er verðugur, en persónulega finnst mér skúbbið vega þyngra hjá DV-ritstjórninni en eftirfylgni um sama mál á RÚV.
Það var meira að segja ekki laust við að fólk væri búið að fá nóg af umfjöllun RÚV þar sem látunum ætlaði aldrei að linna og hver ógæfumaðurinn á fætur öðrum var dreginn grátandi fram í kastljósið. Spurning hvað er hægt að blóðmjólka sömu kúna lengi.

Ég held að minnsta kosti með einvala liði á ritstjórn DV.

2 ummæli:

  1. Mikið er ég sammála þér Edda. DV var orðið fínt blað fyrir tveimur árum, mjög fínt í fyrra en er nú að missa flugið finnst mér. Þínir gömlu kollegar á DV unnu greinilega mikla heimildarvinnu við greinaskrif sín um barnaheimili ríkisins fyrr á tímum og það var eins og Kastljósið læsi DV og kippti svo sama fólkinu í viðtöl. Nei, DV á svo sannarlega skilið að fá þessi verðlaun. Ég segi eins og þú: Held með DV! Takk fyrir skemmtilegt blogg. Kem og þigg jólapappír - býst ég við. Hannes

    SvaraEyða
  2. Sæl Edda. Ég sakna skrifa þinna úr DV. Ég er ein þeirra sem keypti alltaf Helgarblaðið og hafði óskaplega gaman af þínum greinum. Ég varð þessvegna afskaplega glöð þegar ég sá að þú varst farin að skrifa aftur - þetta blogg - og les alltaf skrifin þín. Ég var að lesa um Imeldu hugleiðingar þínar þegar nýjasta greinin datt inn og verð að segja að ég er alveg sammála þér. DV á að fá verðlaunin. Samt finnst mér trúlegt að Kastljósið fái þau því það er snobbað svo gríðarlega fyrir því og RÚV. Viðtölin hennar Þóru þóttu mér bæði væmin og léleg. Áfram DV (þótt mér finnist blaðið hundleiðinlegt nú orðið). Vegni þér vel, vertu duglegri að blogga. Sigga H.

    SvaraEyða