Staður: Sevilla.
Hitastig: 27 gráður.
Skýjafar: Ekki hnoðri.
Ástand bloggara: Örlítið sólbrenndur en voðalega lukkulegur.
Ég fór með Ryan Air frá Stanstead í gær og það var greinilegt strax í flugtakinu að stefndi í mikið teiti tveim sætaröðum fyrir framan mig.
Viskíflaskan gekk á milli og fyrr en varði sátu sex miðaldra karlmenn á hnjánum, öfugir í sætunum, og sögðu föruneyti sínu, eiginkonunum vænti ég, organdi fyndna brandara.
Þær hljóta að hafa kynnst á hláturnámskeiði því ég hef aldrei heyrt jafn groddalegan hlátur sem átti uppök sín lengst oní þind og braust reglulega út með hrollvekjandi óhljóðum.
Brandararnir urðu klúrari eftir því sem gekk á flöskuna og hláturrokurnar eftir því.
Það var gríðarleg ókyrrð í loftinu sem gerði ekkert nema gleðja partýið enn meir.
Nú er ég gædd einstöku jafnaðargeði en einmitt þegar ég ætlaði að kalla til flugþjón og stinga upp á að partýljónin yrðu bundin og kefluð heyrðist brak í hátalaranum og flugstjórinn kvað sér hljóðs.
Nú, hugsaði ég, það tekur því ekki, við erum að hrapa hvort eð er.
En nei, ó nei. Flugstjórinn vildi bara segja okkur farþegunum að William væri fimmtugur í dag og hvort við ættum ekki öll að syngja afmælissönginn!!!!
Ég er ekki að ljúga því en allir farþegarnir brustu í söng. Afmælissöngurinn var sunginn, öll tvö erindin, og stundum er staðan bara þannig að maður verður að syngja með. Það get ég svarið að aldrei hef ég sungið í jafnblönduðum kór í jafnmiklu törbúlansi.
Þessu lyktaði svo með tilheyrandi "hann lengi lifi-húrrahrópum".
Ég komst svo á hostelið mitt og ætla að fara nokkrum orðum um svona "budget-gistingu". Ég er með níu öðrum í herbergi og til að kveikja ljós notar maður lykilinn að herberginu.
Maður kann náttúrlega ekki við að kveikja ljós fyrir allar aldir svo ég þreifaði mig áfram í myrkrinu í morgun, skreið meðfram veggnum þangað til ég fann baðherbergið og burstaði tennur og málaði mig eftir hendinni. Mér til mikillar skelfingar heyrði ég að úti var úrhellisrigning en þegar til kom var það eitthvert niðurfall bak við hús og sólin skein óhindrað.
Í dag er ég búin að fara í túristabúss um hina undurfögru Sevilla, slysast inn á nautaat og flamengo, búin að éta tapas, svo ég get bara komið heim.
Nei, djók.
En hvað nautaatið varðar ætla ég bara að segja að ég fór út til að fá mér ís þegar fyrsta nautið var nánast ofurliði borið og heyrði fagnaðarlætin þegar það féll. Út streymdi fólk með börn (!!!????), mæður og börn grátandi.
Þar sem ég var sjálf komin með kökk á hálsinn fór ég ekki inn aftur.
Átti yndislegan dag í Reading daginn áður en ég kom hingað, við Anna Lilja fórum í leikhús og kíktum svo aðeins inn á lókalbarinn þar sem við hittum óstjórnlega skrýtnar og skemmtilegar skrúfur. Þar rigndi auðvitað hundum og köttum svo við sátum úti undir tjaldi og reyktum með mestu töffurunum.
Ég elska svona sætsúra bari:)
Set inn mynd af barrottunum og kannski hinu viðurstyggilega nautaati og fremur leiðinlegum og ofmetnum flamengodansi.