Komin til Englands með sótsvarta samvisku. Það var aldrei meiningin að kveðja Ísland í vælukjóastíl á forsíðu Morgunblaðsins né heldur fara þvert á reglur samtaka sem ekki má nefna. Ég bið samtökin eins og þau leggja sig afsökunar.
Hópurinn miðaldra konur er mér engu að síður afar hugleikinn, ekki síst vegna þess að þær sem ekki hlutu menntun hafa unnið hörðum höndum alla tíð, oftar en ekki láglaunastörf, eru margar í djúpum skít en hafa sig aldrei í frammi. Þær eru svo bara einn hópur af mörgum sem verða útundan í umræðunni.
Og nú kemur hér bráðskemmtileg ferðasaga.
Ég var komin á Paddington seint í gærkvöldi þar sem ég átti pantað herbergi á hræódýru "bed- and-breakfasti" í göngufæri við stöðina.
Lestin til Reading fer þaðan og ég hugsaði með mér að gott væri að hvílast eina nótt í London og halda svo áfram í býtið.
Ég var með tvær níðþungar ferðatöskur, handtösku og bakpokann með tölvunni. Eiginlega var ég alveg úrvinda þegar ég kom í gistinguna og féllust soldið hendur þegar ég sá stigann upp. Hann var u.þ.b. hálfur metri á breidd og snarbrattur. Herbergið mitt var á fyrstu hæð en ég þurfti samt að rogast með farangurinn upp tvo stiga og á svona stöðum býðst enginn til að hjálpa. Ég sofnaði eins og rotuð um leið og ég lagði höfuðið á koddann.
Þó mér finnist flest æðislegt í útlöndum hef ég aldrei sagt að mér þætti ALLT æðislegt. Slagveður er til dæmis ekki hætishótinu betra í Englandi en á Íslandi.
Ég fann að ég var með strengi um allan skrokk eftir burðinn daginn áður en lagði samt af stað fótgangandi þessa tíu mínútna ferð á lestarstöðina.
Það var mígandi úrhellisrigning þar sem ég öslaði pollana í djöfulmóð og kom svo á kolröngum stað að stöðinni. Í staðinn fyrir að vera á lestarstöðinni var ég við neðanjarðarlestina og lagði af stað með farangurinn niður 20 tröppur. Svo kom langur gangur og 20 tröppur upp. Á átjándu tröppu hálf skrikaði mér fótur og missti takið á ferðatöskunni sem rúllaði alla leið niður aftur.
Neei, öskraði ég, páskaeggin!!!!
Einhverjir störðu á mig og hristu regnhlífarnar sínar ólundarlega en ég settist í stigann og hugleiddi hvort ég ætti að dröslast með allt niður aftur eða skilja eitthvað eftir uppi meðan ég færi niður eftir töskunni.
Tvær konur buðust til að hjálpa mér, "we have to stick together" sögðu þær glaðlega og drösluðu töskunni upp.
Þetta með páskaeggin er grafalvarlegt mál og víkur nú sögunni nokkur ár aftur í tímann þegar Anna Lilja var að ljúka við stúdentsprófið sitt í Englandi.
Hana langað rosalega að sýna vinum sínum í skólanum íslenskt páskaegg, svo ég keypti eitt af veglegri gerðinni, pakkaði því varlega inn í handklæði og tuskur og skrifaði á kassann á að minnsta kosti þrem tungumálum: "Brothætt, meðhöndlist varlega."
Páskaeggið var mylsna þegar það kom á áfangastað og barnið auðvitað hundsvekkt. Nú ætlaði ég að koma eggjunum heilum alla leið og fór með þau eins og fjöregg.
Það tókst, þau eru heil:)
Sólin braust svo fram úr skýjunum á lestarstöðinni í Reading og geislandi bros dótturinnar og barnabarnsins Annicu þegar þær komu auga á mig bættu allt. Ég sendi sjálf geislandi bros til allra landa minna, sem mér þykir alltaf vænna um úr fjarlægð.
mánudagur, 10. mars 2008
Slagveður er auðvitað alltaf slagveður...
Ritaði Edda Jóhannsdóttir kl. 20:41
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Já, brotin páskaegg eru liggur við verri en engin páskaegg. Samt skárri en páskaeggin sem hér eru í boði. Maður getur fengið mars og snickers allan ársins hring og þau eru ekkert betri þó þau séu sett í páskaumbúðir. Íslenskt alvöru páskaegg skal það vera!
SvaraEyðaÉg elska páskaegg, brotin og heil !
SvaraEyðaBið að heilsa fallegustu fjölskyldunni á Bretlandseyjum, ég treysti því að Annica ísmey fái að heyra allt um frábærustu frænkuna á Íslandi.
Kossar og knús, Halla.
Velkomin til Englands! Ég á eftir að fylgjast með þér á þessari bloggsíðu en vonandi fæ ég einhvern tölvupóst frá þér. Elsku Edda mín, vertu ekki með móral, ég las viðtalið og hreinskilni þín er einstök og þú ert hetja í mínum augum. Baráttukveðjur
SvaraEyðaHæ elsku Edda. Skil ekkert í þér að dröslast með allan þennan farangur með þér út. ALREI geri ég svoleiðis og hef ALDREI farið með yfirvigt úr landi (í vikufrí sko). Hvaða Moggaviðtal er verið að tala um með leyfi? Sé það blað nefnilega aldrei og er orðin dauðforvitin að vita hvernig þetta viðtal var. Knús frá fyrrum Svaladrottningu nr.2
SvaraEyða