sunnudagur, 16. mars 2008

Af pólskum hetjum, góðum grönnum og okkur hinum


Fyrst Dr. Gunni afþakkar pent og er búinn að gefa júróvisjón upp á bátinn í bili ætla ég bara að eiga hanskana sjálf.

Ég held ég eigi eftir að vera ægilega elegant við uppvaskið í snoturri svuntu og hönskunum einum fata. Ef ég ætti mann yrði hann örugglega fyr og flamme að fá að þurrka:)


En af lífinu í Reading:

Í fyrra kynnti ég borgina fyrir lesendum á Moggablogginu og ætla bara að undirstrika að hún er enn jafn vinaleg. Ég er búin að fara í Oracle eða Véfréttina sem er stóra mollið í miðbænum og endurnýja kynnin við liðið á Boostbarnum og kaffiþjónana á Nero við kanalinn.

Hér heima höfum við það huggulegt ég og litla fjölskyldan, Anna Lilja, Chris og sólargeislinn Annica.

Pólska parið sem leigir hjá þeim fór til Kýpur í morgun. Ég dáist að þessum krökkum, hún vinnur í verksmiðju við að pakka bókum og fer stundum af stað fyrir allar aldir og vinnur fram á kvöld. Hann vinnur á lager í stóru vöruhúsi. Þau eru búin að spara af sínum litlu launum fyrir Kýpurferðinni og voru eins og lítil börn að bíða eftir jólunum í gær þegar undirbúningur stóð sem hæst. Þetta er í fyrsta skipti sem þau fara saman í frí. Meiri krúttin.


Við Anna erum soldið að spá í nágrannana, í garðinum hægra megin við okkur var allur gróður fjarlægður og leit helst út fyrir að ætti að steypa í allt saman. En nei, það hefur komið í ljós að þarna er fólk með fagurgræna fingur og er í óða önn að planta blómum og trjám og greinilegt að stefnt er í verðlaunagarð.

Hinumegin er óskaplega góð kona sem bjargaði hænunum sem ég minntist á um daginn úr ógeðsverksmiðju þar sem dýrin voru alin á hormónum og ég veit ekki hvað og hvað. Hún tekur þær í fangið á hverjum degi, lætur vel að þeim og spjallar við þær um daginn og veginn. Ég er viss um að þær launa elskulegheitin von bráðar með eggjum.

Skömmustulegar reynum við Anna að láta ekki mikið bera á reykingum og sígarettustubbum og þökkum guði fyrir Chris sem er búinn að útbúa safnhaug í horninu og skokkar berfættur um garðinn með garðklippurnar á lofti.


Amma súludansmær (Kate mamma hans Chris er dansari og er með súlu í stofunni sinni til æfa sig), hún dansar auðvitað ekki alvöru súludans á svoleiðis stöðum, ó nei, og Pierce "afi kreisí" eins og hann er alltaf kallaður eru farin til Grikklands. Þau fara á hverju ári og leigja þá seglbát sem þau sigla milli eyjanna.

Daníelle, systir Chris, er alltaf kölluð "frænka afi", hún er kennari hér í Listaskólanum, spilar á öll hljóðfæri og galdrar eins og alvöru galdrakarl, og skiptir frekar oft um kærustur sem allar eru jafn yndislegar. Debra litla systir er sæt og elskuleg og er að byrja í hjúkrunarfræði. Þetta er sumsé vænsta fólk sem gaman er að þekkja.


Verð að segja ykkur að í litlu matvörubúðinni við strætóstöðina er rekki með nýjum krimmum á 1.99 pund. Það er óhjákvæmilegt að stinga einni í körfuna í hverri ferð. Er samt að reyna að muna að pundið er hátt í 150 kall, sem er náttúrlega rosalegt.


Set inn eina mynd af yndislegu Annicu sem alltaf er brosandi.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli