fimmtudagur, 27. mars 2008

Heimsendafréttir eða fugladansinn?


Horfði í gærkvöldi á tóman vandræðagang frá Terminal 5 á Heathrow sem til stóð að opna almenningi. Þá kom í ljós að rándýra öryggiskerfið hafði ekki verið hugsað til enda þannig að komu- og brottfararfarþegar voru í sama rýminu og hægastur vandinn að smygla sér einhverstaðar um borð. Þeir voru harðlífislegir í framan sem svöruðu fyrir mistökin meðan hlakkaði örugglega í einhverjum sem voru fúlir yfir kostnaðinum og að British Airways sitji eitt að hinni glæsilegu byggingu.


Annars höfum við ekki áhyggjur af heimsmálunum hér í Sheerwood Street. Stundum verður maður bara að rækta garðinn sinn og láta aðra um að bjarga veröldinni sem virðist stefna lóðrétt til andskotans. Og ekki í fyrsta sinn. Vonandi verður þó viðsnúningur nú sem endranær.


Ég nýt þess á hverjum degi að vera með Annicu dótturdóttur minni, 11 mánaða, sem er auðvitað undrabarn eins og öll mín barnabörn.

Uppeldisaðferðir dagsins eru um margt ólíkar því sem maður gerði sjálfur, sem fólst aðallega í að gera ekkert sérstakt.

Annica er til dæmis enn á brjósti, fær sopa fyrir svefninn, en þegar hún byrjaði að borða fékk hún nákvæmlega það sem var í matinn. Ekkert stappað ofaní hana, bara kjöt, fiskur, grænmeti og ávextir eins og hinir borðuðu. Engin hnífapör fyrr en nýlega að hún fær að spreyta sig með skeið. Og hún borðar allt. Hún er jafn hamingjusöm með brokkolíið sitt og Nóapáskaeggið. Hún borðar meira að segja ólívur.

Síðan amma kom hefur auðvitað margt breyst til hins verra. Þegar hún er búin að raða öllu grænmetinu sínu í haug og fer að vökva það með vatninu fær amma hláturskast. Og barnið færist í aukana. Skvettir vatninu um allt og aðallega yfir sjálfa sig og tékkar reglulega hvort ömmu finnst hún ekki fyndin. Sem ömmu finnst. Svo syngjum við saman íslensku barnalögin og dönsum fugladansinn og macarena og hóký póký og Annica setur upp allskonar furðusvipi svo amma er að kafna úr hlátri. Set inn eina mynd af dansinum.


Í gær fórum við sem oftar í göngutúr í bæinn í blíðskaparveðri, en miðja vegu milli torgsins og strætisvagnsins opnuðust gáttir himins eins og þær gera bara í Bretlandi. Fólk sem ekki var vopnað regnhlífum leitaði skjóls undir yfirbyggðu skýli verslunarinnar John Lewis en regninu slotaði ekki. Verslunin hefur örugglega grætt á þessum langa skúr því á endanum fóru allir inn.


Þegar ég var nýflutt með stelpurnar mínar til Englands '98 voru við einhverntíma staddar Camden þegar gerði svona skýfall og í staðinn fyrir að leita skjóls hoppuðum við hamingjusamar í pollunum og urðum gegndrepa á nóinu. Sem betur fer kippa Bretar sér ekkert upp við fólk sem hagar sér eins og hálfvitar.

Nú líður að því að ég haldi áfram óvissuferðinni sem hófst í byrjun mánaðar og næsti áfangastaður er Cordoba á Spáni. Þar hef ég fengið íbúð og ætla að vera þar í tvo mánuði. Mun að sjálfsögðu halda áfram að skrifa fréttir fyrir eyjuna og blogga um alla flottu Spánverjana sem ég geri ráð fyrir að elti mig á röndum.

Legg af stað á sunnudaginn, með stuttbuxur og nokkra boli í tösku, tölvuna og myndavélina. Þeir eru svo hrikalega streit á farangrinum hjá Ryan Air.2 ummæli:

  1. Var að skoða veðurspána í Cordoba á sunnudaginn, lægsta hitastig 10 stig og hæsta 27 stig! Og þar að auki heiðskírt! Ég bíð spennt eftir að sjá myndir af spænsku gæjunum! Vona að þú setjir inn einhverja skemmtilega frásögn af Spánverjunum líkt og þú settir inn af finnsku bændunum í fyrra. Njóttu þín í fugladansinum með Annicu og ég sé þig í anda við matarborðið. Kær kveðja Begga

    SvaraEyða
  2. Komin í hitann í Cordoba, sem er dásamleg borg. Þú varst sko ekki að ýkja þetta með hitann:)
    Hugsa til þín, mín kæra, stöndum saman stelpurnar í útlöndum.
    Kær kveðja, Edda.

    SvaraEyða