mánudagur, 3. mars 2008

Ó, Lord, hvað ég er að verða fræg!!!!

Nú er ég flutt inn á hótel í miðborg Reykjavíkur og lifi þar í vellystingum pragtuglega. Það er gott að eiga góða að.


Eigandi hótelsins, sem er á mínum aldri, laumaði því að mér á fyrsta degi að hinn frægi Snoop Dogg væri væntanlegur, en það væri algjört leyndó.

Ég varð soldið spennt og horfði rannsakandi á alla gestina en ákvað að hinn fjallmyndarlegi, þeldökki Snoop gæti ekki farið fram hjá mér. Og kannski gæti ég vélað hann í viðtal!!!!

Það kom svo í ljós að um misskilning var að ræða, það var meistari Lordi sem var hér hótelgestur en ekki rapparinn.

Eiganda hótelsins finnst þetta allt sama tóbakið og bara gaman að því.

Það var tekin mynd af mér og Lordi þegar hann var kominn í gallann og ég er að spá í gefa mömmu hana.

Einhverju sinni fór ég á blaðamannafund með Placido Domingo og verð að viðurkenna að ég hagaði mér eins og ástsjúkur táningur á leiðinni með ljósmyndaranum. Það var öðlingurinn Gunnar Andrésson sem mátti þola gelgjustælana í mér en hann var svo elskulegur að taka mynd af mér með goðinu, sem ég prentaði út og gaf mömmu.

Þessi mynd er nú innrömmuð í forstofunni hjá gömlu konunni og fer ekki framhjá nokkrum manni hvað hún á fræga dóttur. Nú er spurning hvort hún vill myndina af mér og Lordi á þennan sama vegg.



Í gærkvöldi opnaði svo á hótelinu nýr veitingastaður sem ber nafnið Studio 29, en hótelið sjálft heitir 4th floor og er á Laugaveginum, beint á móti Tryggingastofnun.

Fjölmargir mættu til að fagna með Óla hótelstjóra og Svenna markaðsfulltrúa og gestir fengu dýrindis veitingar og skemmtu sér konunglega með Sverri Stormsker við píanóið og hinum sívinsæla Geir Ólafssyni.

Stemmningin varð meiri eftir því sem leið á kvöldið og samviskusamlega var skipt á milli Sókratesar og Sinatra.

Studio 29 er annars fallegur veitingastaður á tveimur hæðum og þar er hægt að fá morgunverð, hádegisverð og salat og súpu að auki. Þá eru tertur og smáréttir á boðstólum allan daginn. Staðurinn er ætlaður fólki frá þrítugu og farið er fram á snyrtilegan klæðnað.

Til hamingju með þetta, strákar.

Ég ætla að setja hér inn nokkrar myndir af mér og fræga fólkinu:)

1 ummæli:

  1. Haha, ég held að amma myndi frekar deyja en að hengja þessa mynd upp.

    En annars finnst mér gaurinn úr Lordi mun áhugaverðari en Snoop Dogg, verð bara að segja það.

    SvaraEyða