sunnudagur, 25. maí 2008

Burberry-regnhlíf og Dalmatíuhundur











25. maí.




Ég fór á hátíðina miklu kvöldið sem hún hófst og það var mögnuð upplifun. Það er partý í tjöldum (rétt eins og í Eyjum) á risastóru svæði, og í tjöldunum er dansað, sungið, etið, drukkið og klappað viðstöðulaust. Þá er risastórt tívolí á öðru svæði fyrir börnin.

Hvarvetna má sjá heilu fjölskyldurnar í spænsku þjóðar-"átfitti", menn á hestum og fólk í hestvögnum.
Gleðin er fölskvalaus og ég verð að taka fram að það sést ekki vín á nokkrum manni.
Snúum okkur samt að flugeldasýningunni sem hafið verið beðið með eftirvæntingu.

Hún hófst með miklum stæl en svo í miðju kafi fengu "skátarnir" óvænta samkeppni. Það skall á þrumuveður, eitthvað það stórkostlegasta sem ég hef upplifað. Fyrst kölluðust tívolíbomburnar á við þrumugnýinn en svo yfirgnæfðu þrumurnar alveg. Eldingar dönsuðu svo á himninum allt í kringum flugeldana. Þetta var magnað sjónarspil og riginingin sem fylgdi gerði "ausandi rigninguna" sem ég minntist á fyrri færslu að léttum úða. Þvílík gleði.
Pilar, húsmóðirin hér, hafði lánað mér regnhlífina sína sem er forláta Burberrys sem henni þykir auðsjáanlega mjög vænt um. Ég var svo rétt komin inn á hátíðarsvæðið þegar maður rétti mér miða sem giltu í einhvern boltaleik skammt frá.
Ég framvísaði miðanum, fékk tvo bolta og það var stöngin inn í bæði skiptin. Vinningurinn var Dalmatíuhundur sem fór svo illa við Burberryregnhlífina að ég var alveg miður mín. Þvílíkt stílbrot.
Í gærdag fékk ég svo aftur svona miða og leikni mín í boltaleikjum er með ólíkindum. Aftur hitti ég tvisvar í mark og mátti velja milli eldrauðs fíls eða andarstelpu sem var svona hálf tötraleg. Ég valdi hana enda vanari bleikum fílum í den:)
Í gær var líka brúin sem maður þarf að ganga á hátíðarsvæðið sneisafull af hvítum sendiferðabílum, árgerð '08 að minnsta kosti.
Þar voru mættir sígaunarnir með sinn varning og mátti þekkja þar nokkur andlit sem hafa nánast ofsótt mig á kaffihúsum í miðbænum, vælandi út evrur. Ég vildi gera heimildarmynd um þetta lið, það er eitthvað spennandi við það.
Reyni að setja hér inn nokkrar myndir en er svo á leið í stuðið aftur. Þetta stendur gegndarlaust í heila viku og er opið allan sólarhringinn.
Myndir:
Gangandi stílbrotið ég, inngangurinn á svæðið, fólk í hestvögnum og stemmningin í tjöldunum.




1 ummæli:

  1. Já, satt segirðu um karlpeninginn. Þetta eru rosalegir folar þarna í tjaldinu.
    Bogagöngin gera mann náttla bara orðlausan. Gaman.
    xxx

    SvaraEyða