Þegar ég var í þann veginn að drepast úr leiðindum í gærkvöldi ákvað ég að fara á Stuðmannaball sem er að því mér skilst árlegur viðburður hér í íþróttahúsinu á Nesinu.
Sambýlismennirnir voru að heiman, en nánar um það á eftir.
Ballið var frábært þó mér litist ekki meira en svo á blikuna þegar ég var á leiðinni inn og sá ekkert nema brosandi, fótnettar flugfreyjur, sneisafullar af yndisþokka, á leið inn í húsið. Það kom í ljós að þetta var Flugfreyjukórinn sem steig á svið með Stuðmönnum undir stjórn Magnúsar Kjartans.
Það voru allir þarna, Bjarni Ármanns, Jón Ásgeir og frú og fyrrverandi borgarstjóri (já, ég veit ég þarf að skilgreina það nánar, sumsé Óli F.) og fleiri flottir. Ég er hér um bil viss um að þeir voru allir á gestalista. Það var bara pöpullinn sem greiddi 2.500 fyrir fjörið.
En þetta ball markaði tímamót í mínu lífi sem ég ætla að útskýra hér.
Þegar ég var átján ára var ég í bæjarvinnunni og lenti í að skera niður rofabörð á Hólmsheiðinni. Síðan var sáð í allt heila klabbið og nú er þarna undurfagurt.
Trúlega stendur það ekki mikið lengur ef þeir malbika allt í hólf og gólf undir flugvöll.
Þetta var sumarið 1975.
Sumar á Sýrlandi kom út þetta ár og í kaffitjaldinu var segulband. Í öllum matar- og kaffitímum ómuðu perlur eins og Stína stuð og Í bláum skugga, en ég sem var að farast úr ógleði, gat ekki hlustað á þessa tónlist í áratugi á eftir án þess að fá flashback og verða fárveik.
Nú eru tvíburarnir sem ég bar undir belti á þessum tíma að verða 33 ára og annar elskar Stuðmenn, hinn þolir sumt og annað ekki.
Palla finnst þeir geðveikt góðir og nær alveg danssporunum hans Egils, Jóa finnst Með allt á hreinu brilljant svo og Sumar á Sýrlandi. Hann fór samt einhverntíma á ball þar sem þeir spiluðu og fannst þeir hundleiðinlegir. Jóhann getur verið langrækinn og hann erfir þetta við Stuðmenn.
Í gær fann ég ekki fyrir neinni ógleði þegar ég dansaði í taumlausri gleði við Stínu stuð svo þetta markar upphafið að nýjum kafla í mínu lífi:)
En sumsé, nýi, fallegi leigjandinn flutti inn í gær. Ég segi flutti inn, en flutti og flutti. Hann kom með rúmið sitt, tvíbreitt, og nokkra potta. Við ræddum svolítið saman, um mataræði og svona, og ég komst að því að hann er heilsufrík og leggur enga blessun yfir það að ég borða oftast prins póló í kvöldmat. Hann tekur gjarnan að sér að kenna mér að borða tófú eða hvað það nú heitir og baunaspírur.
Svo fór hann. Kom með rúmið, fór og kom ekki aftur fyrr en rétt áðan.
Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að reikna út hvað það þýðir!!!!
Enda komið á daginn að hann á gullfallega kærustu.
Okkur Danna ber saman um að þetta séu hálfgerð svik.
Ég veit ekki hvar ég væri ef Danni stæði ekki svona pottþétt með mér.
Myndirnar: Nýi, fallegi leigjandinn er með bílfarma af allskonar dóti sem hann er að koma fyrir í skápum, skúffum og þar sem yfirleitt finnst lófastór blettur.
Það geta allir séð hversu óhemju fagur hann er og svo er mynd af þeim Danna saman.
Ég þoli ekki stuðmenn, nema að sama leyti og Jói kannski... Þvílíkt ofmetið uppa-lið í þessu bandi sem getur auðveldlega kallað fram ógleði hjá mér af leiðindunum einum saman.
SvaraEyðaÞurfum svo að hittast í kaffi í vikunni og ræða þennan fallega leigjanda aðeins betur.
Knús knús
Halla.
Ekki veit ég hvað klikkaði í tónlistaruppeldi ykkar systkina. Eins og þið eruð alin upp við góðan tónlistarsmekk móður ykkar:)
SvaraEyðaHvað nýja leigjandann varðar held ég að ekki sé um neitt að tala - hann er bara heillum horfinn í kærustunni.
Við þurfum samt endilega að hittast og ræða eitthvað annað skemmtilegt. Ég kem með Stuðmannadiska.