þriðjudagur, 28. október 2008

"Pessimisti" - my arse!!!!


Október 2006.


Sviðið er Árósar, PUK, eftirmenntunarskóli fyrir blaðamenn.

Í bekknum eru sextán blaðamenn frá Norðurlöndunum, þar af þrír Íslendingar.
Tveir karlar, ein kona.

Hvert land á að halda kynningarkvöld um land sitt og þjóð.

Það er komið að Íslandi.

Skólastofan er skreytt hátt og lágt.
Skreytingarnar eru aðallega ljósritaðar, útklipptar evrur.

Flatkökur og hangikjöt, íslenskt brennivín eins og lög gera ráð fyrir. Nokkrir íslenskir fánar og bækur eftir Laxa.

Aðallega þó ljósritaðir peningaseðlar.
Fólk er boðið velkomið í salinn undir dúndrandi tónlist:

Money með Pink Floyd.

Íslendingar eiga Magasin du Nord. Og miklu meira. Eiginlega allt í Danmörku. Og Bretlandi líka.

Við erum klár, rík og glöð.
Klárust. Ríkust.

Það líður á kvöldið og margir eru við skál.

Ríkidæmi Íslendinga, dugnaður og áræði aðal umræðuefnið.

Hvað gerðist eiginlega? Hvernig fóruð þið að? Er engin hætta á ferðum?

Undirrituð er gleðispillirinn.

Hefur ekkert vit á fjármálum, en trúir ekki á ríkidæmið.
Eitthvað mikið bogið við þetta allt saman.
Það er engin innstæða fyrir þessum peningum.

Segir án þess að blikka auga: Ljósrituðu peningarnir hér í skólastofunni eru álíka verðmiklir og útrásarpeningarnir.
Þetta mun allt hrynja í hausinn á okkur.

Pessimisti!

Menn hrista hausinn.
Djöfuls della.
--------
--------
Nú er íslenskt samfélag eins og Latabæjarsamfélagið, nema hvað íþróttaálfurinn er víðs fjarri og bjargar engu.
Glanni glæpur hefur hins vegar verið klónaður í ótal eintök.
Fer um eins og stormsveipur og eirir engu.

Pessimisti hvað?







sunnudagur, 26. október 2008

Elsku mamma, ekki var það ég...

Ég er af þeirri kynslóð kvenna sem var alin upp í einum allsherjar Pollýönnuleik. Maður átti að vera glaður og þakklátur, því alltaf voru einhverstaðar einhverjir sem áttu meira bágt en maður sjálfur.
Reiði og depurð voru á bannlista.

Pollýönnuhugmyndafræðin er ekki alvond, en athyglisvert að Pollýönnu tókst ekki að nota sína eigin hugmyndafræði þegar syrti í álinn hjá henni persónulega.

Nú er íslenskur almenningur reiður og má vera það.

Við vitum bara ekki almennilega út í hvern við eigum að vera reið.
Hér ber að sjálfsögðu enginn ábyrgð frekar en venjulega.

Ég var að lesa gamlan, færeyskan krimma eftir Jógvan Isaksen og þar kemur hann aðeins inn á gjaldþrot Færeyinga árið 1992.

Hann segir orðrétt:

“Ástæðan fyrir því að ósamkomulag milli stjórnmálamanna og margs venjulegs fólks varð svo miskunnarlaust var að enginn hafði verið gerður ábyrgur fyrir efnahagskreppunni. Bæði atvinnurekendur og þeir sem höfðu stjórnað öll þessi ár hlupu hver í sína áttina og kenndu hverjir öðrum um.
Þúsundir manna neyddust til að flytja úr landi, margir búnir að missa aleiguna og orðnir stórskuldugir í ofanálag. Öllum fannst þeir hafa verið sviknir, en hver það var sem sveik var erfitt um að segja. Enginn bar ábyrgð af því að svo skynsamlega var stjórnmálaskipaninni fyrir komið.”

Færeyingar munu hafa raulað fyrir munni sér vísu sem Jógvan segir að hefði átt að gera að þjóðsöng Færeyinga:

“Elsku mamma, ekki var það ég.
Strákarnir hrintu mér allir saman,
hrintu mér oní fúlan pyttinn
og hentu að öllu gaman.”

Ja, svei.

Eitthvað minnir þetta á kórinn sem íslenskir stjórnmálamenn og stjórnendur fjármálastofnana kyrja núna.

laugardagur, 18. október 2008

Að "gefa mönnum fingurinn"

Ég hafði ekki hugsað mér að leggja orð í belg í yfirþyrmandi fjármálaumræðunni þar sem allir keppast við tjá sig, hvort sem er á yfirvegaðan og málefnalegan hátt - eða af tilfinningahita og kannski minni skynsemi.

Áfall, sorg, reiði og ótti eru allt hugtök sem einkenna umræðuna, en hatur kann aldrei góðri lukku að stýra. Það vekur því athygli mína hvað allir geta sameinast um að hata Breta sem móðguðu "vor háverðugheit" á neyðartímum.

Ég hef alltaf elskað Breta og oft leitað skjóls í Bretlandi þegar ég hef fengið upp í háls af minni ungu, óþroskuðu og hrokafullu þjóð.

Þar (sem annarstaðar á erlendri grund) hef ég stundum skammast mín fyrir framgöngu landa minna sem taka stórt upp í sig og gera sig breiða án þess að eiga nokkuð inni fyrir því. Það hefur líka verið aðdáunarvert að skoða viðbrögð útlendinganna sem þrátt fyrir allt sýna áhuga þessu skrýtna eyríki sem alltaf er mest og best í heimi.

Staðreyndin er að þrjú til fjögur hundruð þúsund venjulegir Bretar misstu stórar fjárhæðir sem þeir lögðu í góðri trú inn á íslenska banka.
Ég bendi á að þarna er um að ræða fleiri einstaklinga en telja alla íslensku þjóðina.

Og þegar íslensk stjórnvöld yppta öxlum og segjast ekki bera neina ábyrgð eru þeir að "gefa Bretum fingurinn".

Það er ekkert öðruvísi.

Svo eru menn hissa þó Bretar bregðist reiðir við.

Auðmýkt er orð sem seint verður notað um íslenska þjóðarsál. Ég held það sé vegna þess að Íslendingar skilja ekki orðið, setja sama-sem-merki milli auðmýktar og undirlægjuháttar.
Þetta er hins vegar tvennt ólíkt.

Nú er einmitt tími til að tileinka sér auðmýkt og láta af hrokanum. Hroki er ekkert nema minnimáttarkennd og honum getum við snúið upp í reisn. Reisn verður aldrei til nema auðmýktin liggi til grundvallar.

Ég vona að Íslendingar komi út úr þessum hremmingum með reisn. Eins og málum er háttað þjónar engum tilgangi að bregðast við eins og óþroskaðir táningar í fýlukasti: "Þið talið sko ekki svona við mig," eða "þið vaðið sko ekkert yfir okkur".

Og skella svo hurðum.

Hér hefur málum verið klúðrað "big time" og við verðum að taka afleiðingunum þó það sé sárt.

Svo verða vonandi einhverjir sem sæta ábyrgð þegar þar að kemur.

fimmtudagur, 9. október 2008

Er bannað að vera glaður?

Kolla Bergþórs, vinkona mín, kvartaði undan því við mig í samtali í morgun að hún væri litin hornauga fyrir að vera glöð. Það ríkti mikil depurð á hennar vinnustað og hverskonar gleðilæti væru illa séð.

Kolla vildi vita hvort mér þætti gleði óviðeigandi í ljósi aðstæðna.

Nei, mér finnst gleðin ekki óviðeigandi. Ef einhverntíma hefur verið þörf fyrir gleði í þessu samfélagi er það núna.
Það var hinsvegar hægt að vera ótrúlega óglaður meðan þjóðin var á peningafylleríinu, gjörsamlega firrt og úr takt við allan raunveruleika.

Það er örugglega líka dauðasynd að segja að kannski hafi þessi skellur verið það sem þjóðin þurfti.
Ég hefði persónulega viljað að hann yrði ögn minna dramatískur og bitnaði ekki á saklausu fólki, en það þurfti að koma þessari þjóð niður á jörðina.

Nú er hugsanlegt að gömul og góð gildi verði einhvers virði á ný, tal um samkennd og jöfnuð verði ekki lengur aðhlátursefni, látleysi og hógværð verði eftirsóknarverðir kostir og fólk fari að rækta garðinn sinn.

Og gleðinni má ekki útrýma. Ef fólk má ekki sýna gleði er jafn gott að lýsa bara yfir þjóðarsorg og sjá til þess að allir séu örugglega með hangandi haus og tárin í augunum.

Það eru þrátt fyrir allt bara peningar sem um er að ræða. Þeir koma og fara og skipta bara máli svo langt sem það nær.

Svo er kaldhæðnin alltaf óborganleg. Ég get ekki stillt mig um að vitna í stutt samtal sem ég átti við Gunnar Smára í Austurstrætinu.
Það geta allir verið sammála um að Smári er dásamlegur húmoristi.

Ég mætti honum semsagt í Austurstrætinu þar sem ég var á leið til læknis og hann horfði hugsandi í kringum sig.

Sjáðu alla útlensku fréttamennina, sagði hann. Er þetta ekki frábær landkynning? Nú segja þeir ekki bara Bjorgk heldur líka Bjorgkolfur.

Mér var ofboðslega skemmt.

En kannski var það bannað.

PS. Og nú er kona orðin bankastjóri í Landsbankanum. Guð láti gott á vita.

sunnudagur, 5. október 2008

Ys og þys...

...út af engu? Varla. Hér eru greinilega miklir hlutir að gerast og engar ýkjur að ys og þys ríkir við ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu. Fréttaflutningurinn þaðan minnir þó lítillega á hurðarhúninn í Höfða forðum. Engar upplýsingar að hafa og fólk er engu nær.
Bið er lykilorðið í augnablikinu.


Ég verð að játa að ég er ekki nógu vel gefin til að skilja raunverulega hvað er í gangi. Þegar hætt var að tala um íslenska milljónamæringa og milljarðamæringarnir tóku við var ég soldið eins og þorskur á þurru. Ég missti líka fljótlega áhugann á því hvaða milljarðar skiptu um eigendur í það og það skiptið.
Það var hvort eð er ekki séns að henda reiður á þessu og mér kom þetta ekkert við.


Samt vissi ég alltaf, og það er trúlega bara “common sense” þess sem hefur þó ekkert vit á peningum, að einn góðan veðurdag hryndi allt til grunna.


Ég er að sjálfsögðu alfarið á móti því að skattgreiðendur axli ábyrgðina og trúi því ekki upp á lífeyrissjóðina að þeir komi hlaupandi með milljarða til bjargar.

Milljarðamæringarnir verða sjálfir að díla við sitt klúður.

Ég lýsi því líka hér með yfir að ég ber enga ábyrgð og tala þar örugglega fyrir munn allra þeirra sem högnuðust ekkert í partíinu. Voru ekki boðnir og langaði meira að segja ekkert að mæta.


Allt tal um nú verði allir að standa saman er fínt svo langt sem það nær.


Það rísa samt á mér hárin við tilhugsunina um að ég muni ekki eiga fyrir bensíni og húsaleigu í framtíðinni.
Vonandi kemur eitthvað af viti út úr þessum viðræðum í Tjarnargötunni og þeir sem komu öllu á hvínandi hausinn finni lausn sem bitnar ekki á þeim sem síst skyldi.

Svo vonum við bara að Eyjólfur fari að hressast....