þriðjudagur, 28. október 2008

"Pessimisti" - my arse!!!!


Október 2006.


Sviðið er Árósar, PUK, eftirmenntunarskóli fyrir blaðamenn.

Í bekknum eru sextán blaðamenn frá Norðurlöndunum, þar af þrír Íslendingar.
Tveir karlar, ein kona.

Hvert land á að halda kynningarkvöld um land sitt og þjóð.

Það er komið að Íslandi.

Skólastofan er skreytt hátt og lágt.
Skreytingarnar eru aðallega ljósritaðar, útklipptar evrur.

Flatkökur og hangikjöt, íslenskt brennivín eins og lög gera ráð fyrir. Nokkrir íslenskir fánar og bækur eftir Laxa.

Aðallega þó ljósritaðir peningaseðlar.
Fólk er boðið velkomið í salinn undir dúndrandi tónlist:

Money með Pink Floyd.

Íslendingar eiga Magasin du Nord. Og miklu meira. Eiginlega allt í Danmörku. Og Bretlandi líka.

Við erum klár, rík og glöð.
Klárust. Ríkust.

Það líður á kvöldið og margir eru við skál.

Ríkidæmi Íslendinga, dugnaður og áræði aðal umræðuefnið.

Hvað gerðist eiginlega? Hvernig fóruð þið að? Er engin hætta á ferðum?

Undirrituð er gleðispillirinn.

Hefur ekkert vit á fjármálum, en trúir ekki á ríkidæmið.
Eitthvað mikið bogið við þetta allt saman.
Það er engin innstæða fyrir þessum peningum.

Segir án þess að blikka auga: Ljósrituðu peningarnir hér í skólastofunni eru álíka verðmiklir og útrásarpeningarnir.
Þetta mun allt hrynja í hausinn á okkur.

Pessimisti!

Menn hrista hausinn.
Djöfuls della.
--------
--------
Nú er íslenskt samfélag eins og Latabæjarsamfélagið, nema hvað íþróttaálfurinn er víðs fjarri og bjargar engu.
Glanni glæpur hefur hins vegar verið klónaður í ótal eintök.
Fer um eins og stormsveipur og eirir engu.

Pessimisti hvað?







Engin ummæli:

Skrifa ummæli