laugardagur, 18. október 2008

Að "gefa mönnum fingurinn"

Ég hafði ekki hugsað mér að leggja orð í belg í yfirþyrmandi fjármálaumræðunni þar sem allir keppast við tjá sig, hvort sem er á yfirvegaðan og málefnalegan hátt - eða af tilfinningahita og kannski minni skynsemi.

Áfall, sorg, reiði og ótti eru allt hugtök sem einkenna umræðuna, en hatur kann aldrei góðri lukku að stýra. Það vekur því athygli mína hvað allir geta sameinast um að hata Breta sem móðguðu "vor háverðugheit" á neyðartímum.

Ég hef alltaf elskað Breta og oft leitað skjóls í Bretlandi þegar ég hef fengið upp í háls af minni ungu, óþroskuðu og hrokafullu þjóð.

Þar (sem annarstaðar á erlendri grund) hef ég stundum skammast mín fyrir framgöngu landa minna sem taka stórt upp í sig og gera sig breiða án þess að eiga nokkuð inni fyrir því. Það hefur líka verið aðdáunarvert að skoða viðbrögð útlendinganna sem þrátt fyrir allt sýna áhuga þessu skrýtna eyríki sem alltaf er mest og best í heimi.

Staðreyndin er að þrjú til fjögur hundruð þúsund venjulegir Bretar misstu stórar fjárhæðir sem þeir lögðu í góðri trú inn á íslenska banka.
Ég bendi á að þarna er um að ræða fleiri einstaklinga en telja alla íslensku þjóðina.

Og þegar íslensk stjórnvöld yppta öxlum og segjast ekki bera neina ábyrgð eru þeir að "gefa Bretum fingurinn".

Það er ekkert öðruvísi.

Svo eru menn hissa þó Bretar bregðist reiðir við.

Auðmýkt er orð sem seint verður notað um íslenska þjóðarsál. Ég held það sé vegna þess að Íslendingar skilja ekki orðið, setja sama-sem-merki milli auðmýktar og undirlægjuháttar.
Þetta er hins vegar tvennt ólíkt.

Nú er einmitt tími til að tileinka sér auðmýkt og láta af hrokanum. Hroki er ekkert nema minnimáttarkennd og honum getum við snúið upp í reisn. Reisn verður aldrei til nema auðmýktin liggi til grundvallar.

Ég vona að Íslendingar komi út úr þessum hremmingum með reisn. Eins og málum er háttað þjónar engum tilgangi að bregðast við eins og óþroskaðir táningar í fýlukasti: "Þið talið sko ekki svona við mig," eða "þið vaðið sko ekkert yfir okkur".

Og skella svo hurðum.

Hér hefur málum verið klúðrað "big time" og við verðum að taka afleiðingunum þó það sé sárt.

Svo verða vonandi einhverjir sem sæta ábyrgð þegar þar að kemur.

10 ummæli:

 1. Tek undir hvert orð.

  SvaraEyða
 2. Engu við þetta að bæta.

  SvaraEyða
 3. Orð í tíma töluð.

  Ég gæti stundum ælt yfir þjóðarrembinginn í íslendingum.

  Íslendingar eru ekki Palli einn í heiminum þó þeir haldi það stundum.

  SvaraEyða
 4. Staðreyndin er að tugir þúsunda venjulegra Íslendinga misstu stórar fjárhæðir sem þeir lögðu í góðri trú inn á íslenska banka.
  Staðreyndin er einnig sú að allir venjulegir Íslendingar missa stórar fjárhæðir þó flestir þeirra hafi ekkert komið nálægt bönkunum nema sem venjulegir viðskiptavinir.
  Hverjir eru að "gefa Íslendingum fingurinn" ?
  MW

  SvaraEyða
 5. Ég hef fulla samúð með öllum þeim sem eiga um sárt að binda hér á landi.
  Það væri bara svo dapurleg einföldun að kenna Gordon Brown um hvernig komið er fyrir okkur.

  SvaraEyða
 6. Þetta er merkilegur pistill, verð að segja það. Fullur af staðreyndarvillum og bulli.

  Bretavinurinn fárast yfir hroka og sjálfelsku landa sinna. Fer sjálfsagt reglulega á bresk söfn sem eru stútfull af þýfi, ómetanlegum menningarverðmætum annarra þjóða sem bretar stálu með vopnavaldi, hafa aldrei hugsað sér að skila til eigenda sinna og hafa aldrei beðið afsökunar á að hafa stolið. Nýtur þess sjálfsagt að baða sig í breskri velmegum sem á rætur sínar í nýlendukúgun, þrælahaldi, fjöldamorðum og arðránum annara þjóða, og svo skammast hún sín fyrir þjóðerni sitt. Afsakið á meðan ég æli.

  SvaraEyða
 7. Megi "nafnlausum" svelgjast á eigin þjóðarrembings ælu.

  SvaraEyða
 8. Þjóðrembu-nafnlaus gefur þarna ágæta innsýn í hugarheim margra Íslendinga um þessar mundir.
  "Efnahagsundrið" hefur bitnað á hundruðum þúsunda um stóran hluta Evrópu, en allir eiga það væntanlega skilið fyrir hin ýmsu uppátæki gegnum tíðina.
  Vissulega gæti íslensk þjóð sammælst um að svona sé þetta - en það skilar engu út á við.

  Edda tiltekur ágæta aðferðarfræði sem er þjóðinni lífsnauðsynleg. Því séð að utan virkar íslensk þjóð eins og langt leiddur alkohólisti sem ýmist lemur frá sér í taumlausum hroka - ellegar grætur á næstu öxl og krefst samúðar.
  Þeir sem reynt hafa að rétta við mannorðið með þeim hætti, vita hver uppskeran verður.

  Edda bendir á leið til að ávinna sér virðingu heimsins á ný. Skynsamlegustu "fyrstu skref" sem ég hef rekist á hingað til.

  Edda hefur ljóslega ágæta sýn á hvernig stór hluti heimsins sér Ísland og hvernig rétt er að bregðast við.
  Hún ætti að vera í hvað-hún-heitir nefndin sem á að redda "mannorði" Íslands.

  Því með hrokanum og afneituninni mun það aldrei gerast, alveg sama hversu marga sendiboða þjóðrembupúkar skjóta.

  SvaraEyða
 9. "þjóðrembu-nafnlaus" haha! Það er ekki til þráður af þjóðrembu í mér, minn hluti í Íslandi er til sölu fyrir 1 milljón evra ef einhver hefur áhuga, íbúð og gamall bíll fylgir með í kaupunum. Mér hinsvega blöskrar þegar "bretavinur" skammast sín fyrir þjóðerni sitt og dásamar breta, breska þjóðin hefur í aldir haft viðurværi sitt af ránum og morðum, þeirra lífsmottó hefur alla tíð verið að stela og drepa ef það hentar þeim.

  SvaraEyða
 10. Það er stundum eins og við sem erum ekki að rifna úr þjóðarstolti 24 tíma sólarhringsins séum einhverjir annars flokks þegnar.

  Er bannað að finnast meira til annars lands koma en manns eigins ?

  Ef okkur er illa við Breta vegna þess að þeir eru morðingjar og ræningjar hafa þeir þá ekki sama rétt til þess að vera illa við okkur þar sem við settum þá á hausinn ?

  Einföldun, ég veit... en engu að síður dæmi um að heil þjóð ber ekki ábyrgð á gjörðum einstakra manna.

  Sé þig svo kona góð á hljómsveitaræfingu í kvöld !

  SvaraEyða