fimmtudagur, 9. október 2008

Er bannað að vera glaður?

Kolla Bergþórs, vinkona mín, kvartaði undan því við mig í samtali í morgun að hún væri litin hornauga fyrir að vera glöð. Það ríkti mikil depurð á hennar vinnustað og hverskonar gleðilæti væru illa séð.

Kolla vildi vita hvort mér þætti gleði óviðeigandi í ljósi aðstæðna.

Nei, mér finnst gleðin ekki óviðeigandi. Ef einhverntíma hefur verið þörf fyrir gleði í þessu samfélagi er það núna.
Það var hinsvegar hægt að vera ótrúlega óglaður meðan þjóðin var á peningafylleríinu, gjörsamlega firrt og úr takt við allan raunveruleika.

Það er örugglega líka dauðasynd að segja að kannski hafi þessi skellur verið það sem þjóðin þurfti.
Ég hefði persónulega viljað að hann yrði ögn minna dramatískur og bitnaði ekki á saklausu fólki, en það þurfti að koma þessari þjóð niður á jörðina.

Nú er hugsanlegt að gömul og góð gildi verði einhvers virði á ný, tal um samkennd og jöfnuð verði ekki lengur aðhlátursefni, látleysi og hógværð verði eftirsóknarverðir kostir og fólk fari að rækta garðinn sinn.

Og gleðinni má ekki útrýma. Ef fólk má ekki sýna gleði er jafn gott að lýsa bara yfir þjóðarsorg og sjá til þess að allir séu örugglega með hangandi haus og tárin í augunum.

Það eru þrátt fyrir allt bara peningar sem um er að ræða. Þeir koma og fara og skipta bara máli svo langt sem það nær.

Svo er kaldhæðnin alltaf óborganleg. Ég get ekki stillt mig um að vitna í stutt samtal sem ég átti við Gunnar Smára í Austurstrætinu.
Það geta allir verið sammála um að Smári er dásamlegur húmoristi.

Ég mætti honum semsagt í Austurstrætinu þar sem ég var á leið til læknis og hann horfði hugsandi í kringum sig.

Sjáðu alla útlensku fréttamennina, sagði hann. Er þetta ekki frábær landkynning? Nú segja þeir ekki bara Bjorgk heldur líka Bjorgkolfur.

Mér var ofboðslega skemmt.

En kannski var það bannað.

PS. Og nú er kona orðin bankastjóri í Landsbankanum. Guð láti gott á vita.

3 ummæli:

  1. æ, takk! fínn pistill. ástandið er þrúgandi ömurlegt og þá er gott að lesa svona hugleiðingar.

    SvaraEyða
  2. jamm. Er svona mikil depurð á mogganum? það er ekki skrýtið.

    SvaraEyða
  3. Þar er gott að vera sem gleðin býr,
    þar sem gerast sögur og ævintýr,
    svona er veröldin okkar
    sem laðar og lokkar
    svo ljúf og hýr.
    Lítill heimur, ljúfur hýr,
    lítill heimur, ljúfur hýr,
    lítill heimur, ljúfur hýr
    eins og ævintýr.

    Kíktu á mig í kvöld og við æfum þetta saman á gítarinn !

    SvaraEyða