föstudagur, 21. mars 2008

Af taubleium og frægum í London


Það kom upp neyðarástand á litla heimilinu í Reading í gær. Það uppgötvaðist að bleiurnar voru búnar og amma var kölluð til í ofboði. Kanntu ekki að setja svona taubleiu á? spurði Anna Lilja. Að sjálfsögðu, sagði ég og braut bleiuna í þríhyrning. Svo var ég mát.

Ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað hvernig maður bar sig að og blessað barnið fékk ólögulega bleiu á bossann og gúmmíbuxur utanyfir. Sem betur fer hljóp pabbinn hið snarasta eftir bleiukassa.
Ég var samt frekar hissa að ég myndi ekki þessa einföldu aðgerð. Ég var með tvíbura sem aldrei fengu neitt nema taubleiur á sína bossa og hélt þetta væri eitt af því sem aldrei gleymdist, svona eins og að hjóla.
Anna Lilja spurði í þaula um taubleiubransann og það rifjaðist upp fyrir mér hvað þetta var í raun mikil vinna. Mamma vildi að ég syði bleiurnar í risapotti á eldavélinni og helst straujaði þær fyrir notkun.
Það var náttúrlega fellt með öllum greiddum atkvæðum (mín og strákanna) og ég held þeir hafi komið út úr þessu með þokkalegustu rassa.
Það er vetrarkuldi hér í Englandi en það rifjaðist upp fyrir mér þegar Egill var að blogga um fræga í London að ég hef aldrei hitt neinn frægan þar.
Sá samt Vanessu Redgrave á sviði í Óveðri Sheakspears í Sheakspeare Globe. Mér fannst ég næstum hafa talað við hana af því ég var í augnkontakt við hana alveg upp við sviðið.
Lauma því að hér, að þeir sem fara til London ættu að fara í Shakespeare-leikhúsið og kaupa sér hræódýra miða í stæðum. Manni líður eins og maður fari aldir aftur í tímann.



Hinsvegar verð ég að segja ykkur söguna af því þegar ég lenti á Gatwick fyrir nokkrum árum. Þá bjó ég í Englandi og þetta var á þeim tíma sem ég fór ekki upp í flugvél nema drekka að minnsta kosti fjóra tvöfalda í flugstöðinni og eitthvað í viðbót í flugvélinni.
Þegar við vorum komin inn í flughöfnina á Gatwick hlammaði ég mér í stól þar sem mátti reykja og tók upp koníakspelann.



Maðurinn við hliðina á mér hreifst með, opnaði bjór og skálaði. Við tókum tal saman og hann sagðist vera að koma frá Írlandi þar sem hann hefði verið að skemmta.
Skemmta hvernig?
Þekkirðu mig ekki? spurði hann hlessa. Ég heiti Norman en er þekktur sem Fatboy Slim.

Ég hafði aldrei heyrt á hann minnst en það fór svo vel á með okkur í flugstöðinni að við skiptumst á að fá okkur bjór og koníak og sungum saman nokkra írska drykkjusöngva.

Þegar ég loksins kom heim, löngu eftir að flugvélin lenti, voru stelpurnar orðnar smeykar og spurðu hvar ég hefði eiginlega verið.
Ég sagði þeim sem var að ég hefði sungið nokkrar vísur með einhverjum Fatboy Slim sem vildi endilega bjóða mér í heimsókn til sín í Brighton. Og ég veifaði nafnspjaldinu hans með símanúmerinu.
Ég hef aldrei séð þær jafn agndofa í framan og þegar ég nokkrum dögum síðar var búin að tína nafnspjaldinu með símanúmerinu fannst þeim ég næstum réttdræp. Allir ættu meira skilið að hitta frægt fólk en ég.






2 ummæli:

  1. Takk fyrir þín skemmtilegu skrif! Ertu flutt til Englands?

    Fatboy Slim sagan made my day ...

    Páskakveðjur frá skerinu,

    Hrund Hauksdóttir

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir þín hlýlegu orð. Ég er ekki flutt, en komin á flakk, verð í Cordoba á Spáni næstu tvo mánuði og svo læt ég andann leiða mig:)
    Rigningarpáskakveðjur frá Englandi.

    SvaraEyða