sunnudagur, 24. febrúar 2008

Hey mr. Taliman, talley me banana...

Ég er í miðjum flutningum og var kannski doldið pirruð fyrr í dag. Nú er hvergi hægt að drepa niður fæti fyrir drasli en samt er hellingur eftir.
Ég misreiknaði mig alveg með kassana og fór í morgun í Bónus til að fá fleiri. Þeir áttu bara svona bananakassa en sögðu að allir væru vitlausir í þá sem væru að flytja. Ég þáði átta stykki og starfsmaðurinn setti þá á trillu og hvarf.

Það var örugglega eitthvert kast á trillunni og á leiðinni í gegnum verslunina stímdi ég þrisvar á og fimm sinnum ultu kassarnir um allt.

Svo fór ég í Byko til að kaupa meira bóluplast og límband.

Ég talaði við þrjá starfsmenn á leiðinni gegnum búðina sem allir voru að tala í síma. Einn benti mér í áttina að plastinu og sagði starfsmann þar á sveimi. Ég leitaði í korter að starfsmanninum og missti svo þolinmæðina, reif plastið af stranganum og fann svo sög sem ég notaði til að sarga plastið í sundur. Á endanum þurfti ég að rífa og það var eins og rotta hefði hefði komist í samskeytin.
Enn bólaði ekki á neinum starfsmanni svo ég fór sjálf að leita að límbandinu og fann það á endanum. Á kassanum var hins vegar ekki hægt að afgreiða mig þar sem ég hafði misst þolinmæðina með plastið og enginn vissi hversu marga metra ég væri með né hvað metrinn kostaði.
Þegar ég dröslaði kössunum heim var ég að hugsa um að meðan ég drakk var alltaf hægt að fá fólk með sér í flutninga. Maður þurfti bara að eiga nógan bjór og lofa pítsu. Á þessum tímapunkti hefði ég örugglega verið farin að syngja bananalagið með Harry Belafonte.

Kassarnir fylltust hraðar en auga á festi og nú var límbandið líka búið.

Ég skammast mín ekki fyrir að segja það en sumt eiga konur ekki að þurfa að kunna. Eins og hvernig svona límbandsrúlla er tekin af græjunni og ný sett á.
Ég böðlaðist í hálftíma, en tók svo græjuna og nýja límbandið með mér því ég þurfti hvort sem var fleiri kassa.

Nú fór ég í Elko og fékk fína kassa og þjónustulipur strákur á lagernum skipti um límrúllu. Ég ákvað að koma við á kaffihúsinu og kaupa sætmeti með kaffinu, ekki veitti af orkunni.

Þar taldi ég sjö starfsstúlkur sem allar horfðu opinmynntar á konu sem sagðist vera að sækja köku sem hún hefði pantað. Enginn kannaðist við það og meðan ein stúlkan útskýrði í löngu máli að um misskilning væri að ræða stóðu allar hinar aðgerðarlausar og horfðu sljóar á. Ég ætla ekki að orðlengja það, en hálftíma seinna komst ég út með tvo kanilsnúða í farteskinu.

Ég er ekki að segja að ég hafi verið brjáluð yfir þessari þjónustu, ég var ARFABRJÁLUÐ.

Þegar ég kom heim hringdi ég í dóttur mína til að þusa, en sex ára dóttir hennar, Lilja Maren, svaraði.
Mamma er ekki heima, sagði Lilja.
Hvert fór hún? spurði ég.
Eitthvað í ljós og svoleiðis. Ég er að elda.
Hvað ertu að elda?
Nú, mat handa fjölskyldunni og ömmu Lind og langömmu.
Hvað ætlarðu að gefa þeim?
Lamabahrygg með öllu.
Þú ert svo æðisleg, verst að amma sér þig alltof sjaldan.
Nei, er það nokkuð? Við sjáumst nú alltaf af og til, sagði Lilja.
Ég var alveg að springa úr hlátri.
Ætlarðu að segja mömmu að ég hafi hringt?
Já, ef ég steingleymi því ekki í matartilbúningnum.

Ég lagði niður tólið og hugsaði: Rosalega er þetta skemmtilegt og gáfað barn.
Og hef verið í góðu skapi síðan.

Gunnhildur vinkona mín hefur staðið í ströngu með mér. Ég er henni óendanlega þakklát.

4 ummæli:

  1. Við matarborðið sagði svo Lind amma við Lilju Maren:
    -Varstu ekki með skilaboð fyrir mömmu þína ?
    - Ha, hvað ?
    - hringdi ekki einhver í hana ?
    - Jú alveg rétt, mamma þú átt að hringja í Eddu ömmu, það var jafngott ÉG mundi að segja þér það !
    Bara snillingur :)

    Ástarkveðja !

    SvaraEyða
  2. Stjarna, ekkert minna.
    Og ömmustrákur litli bróðir hefur látið sér fátt um finnast:)

    SvaraEyða
  3. Afhverju var þér ekki boðið í matinn Edda mín? Afþví þú varst að pakka? Joke. Alveg sammála þér með áfengisleysið. Um leið og maður hættir að smakka áfengi hverfa vinirnir, þeir nenna hvorki að hjálpa svona kerlingu að pakka, hvað þá að bjóða henni með í partý eða á Stuðmannaball. Bara gengið út frá því að hún verði ekki skemmtileg svona edrú. Og vita þessvegna ekki að maður er miklu skemmtilegri edrú! Knús, Svaladrottning nr. 2

    SvaraEyða
  4. Oh, ég er svo mikill snillingur. Hefði kannski átt að reyna aaaaðeins betur áður en ég gafst upp á að reyna að skilja eftir komment hérna. En alla vega. . . gleðilegan mæðradag í Englandi. Við sjáumst um næstu helgi!

    SvaraEyða