sunnudagur, 25. maí 2008

Burberry-regnhlíf og Dalmatíuhundur











25. maí.




Ég fór á hátíðina miklu kvöldið sem hún hófst og það var mögnuð upplifun. Það er partý í tjöldum (rétt eins og í Eyjum) á risastóru svæði, og í tjöldunum er dansað, sungið, etið, drukkið og klappað viðstöðulaust. Þá er risastórt tívolí á öðru svæði fyrir börnin.

Hvarvetna má sjá heilu fjölskyldurnar í spænsku þjóðar-"átfitti", menn á hestum og fólk í hestvögnum.
Gleðin er fölskvalaus og ég verð að taka fram að það sést ekki vín á nokkrum manni.
Snúum okkur samt að flugeldasýningunni sem hafið verið beðið með eftirvæntingu.

Hún hófst með miklum stæl en svo í miðju kafi fengu "skátarnir" óvænta samkeppni. Það skall á þrumuveður, eitthvað það stórkostlegasta sem ég hef upplifað. Fyrst kölluðust tívolíbomburnar á við þrumugnýinn en svo yfirgnæfðu þrumurnar alveg. Eldingar dönsuðu svo á himninum allt í kringum flugeldana. Þetta var magnað sjónarspil og riginingin sem fylgdi gerði "ausandi rigninguna" sem ég minntist á fyrri færslu að léttum úða. Þvílík gleði.
Pilar, húsmóðirin hér, hafði lánað mér regnhlífina sína sem er forláta Burberrys sem henni þykir auðsjáanlega mjög vænt um. Ég var svo rétt komin inn á hátíðarsvæðið þegar maður rétti mér miða sem giltu í einhvern boltaleik skammt frá.
Ég framvísaði miðanum, fékk tvo bolta og það var stöngin inn í bæði skiptin. Vinningurinn var Dalmatíuhundur sem fór svo illa við Burberryregnhlífina að ég var alveg miður mín. Þvílíkt stílbrot.
Í gærdag fékk ég svo aftur svona miða og leikni mín í boltaleikjum er með ólíkindum. Aftur hitti ég tvisvar í mark og mátti velja milli eldrauðs fíls eða andarstelpu sem var svona hálf tötraleg. Ég valdi hana enda vanari bleikum fílum í den:)
Í gær var líka brúin sem maður þarf að ganga á hátíðarsvæðið sneisafull af hvítum sendiferðabílum, árgerð '08 að minnsta kosti.
Þar voru mættir sígaunarnir með sinn varning og mátti þekkja þar nokkur andlit sem hafa nánast ofsótt mig á kaffihúsum í miðbænum, vælandi út evrur. Ég vildi gera heimildarmynd um þetta lið, það er eitthvað spennandi við það.
Reyni að setja hér inn nokkrar myndir en er svo á leið í stuðið aftur. Þetta stendur gegndarlaust í heila viku og er opið allan sólarhringinn.
Myndir:
Gangandi stílbrotið ég, inngangurinn á svæðið, fólk í hestvögnum og stemmningin í tjöldunum.




föstudagur, 23. maí 2008

Það er allt að verða vitlaust


Það stóð ekki steinn yfir steini í bloggfærslunni minni áðan. Hátíðin mikla hefst í kvöld og ég fer héðan 27. maí en ekki 24. Þess vegna næ ég þremur í hátíð.
Stemmningin í bænum áðan var þvílík að spennan var beinlínis áþreifanleg. Fólk var komið út á götur með ungana sína, sem voru hver öðrum fegurri í litlum senjór- og senjórítufötum. Ég varð svo "uppstemmd" eins og maður segir á góðri íslensku að ég vissi ekki fyrr en ég hafði pantað mér rándýra önd á uppáhaldsveitingastaðnum mínum. Ég stillti mig um að panta eftirrétt en geri það pottþétt á morgun þegar við vinnum Júróvisjón.

Hátíðin í kvöld hefst með flugeldasýningu klukkan tíu og svo verður kveikt á kyndlum kringum allt hátíðarsvæðið. Eftir það verður svo kveikt á öllum ljósaseríunum svo ég sé ekki betur en þetta slagi hátt upp í þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Og það er á fleiri stöðum en Íslandi sem gáttir opnast himins.....
Nú ausrignir en vonandi styttir upp fyrir tíu:(

Myndin sem fylgir er ekki nógu góð en hún er af inngangi hátíðarsvæðisins - tekin soldið mikið langt frá.

Þetta er alveg týpískur...


... júróvisjónís.

Það voru því mikil vonbrigði að Spánverjar sýndu ekki frá undanúrslitunum í gær og ég tilbúin með ís og hnetur og hlakkaði þessi ósköp til. Er nefnilega júróvisjónfan númer tvö, næst á eftir PÓH.


Ég held að ritstjóranum mínum þyki þetta mikill ljóður á mér, að minnsta kosti sagði hann það fyrir neðan sína virðingu að gefa mér upp hvenær sýnt yrði frá keppninni:) Hann gerði það samt þessi elska.

Hér í Cordoba vissi náttlega enginn neitt, þeir höfðu bara ekkert heyrt af þessari keppni, en svo fann ég stöð sem sýndi frá fyrri undanúrslitunum.

Og auðvitað voru þeir að skrökva, vegna þess að kvöldið eftir var þáttur sem ég skildi reyndar ekki almennilega, en þar voru sýnd gömul, spönsk júróvisjónatriði og svo tóku nýir listamenn þau á sviði. Síðan átti að hringja inn og velja besta lagið - held ég.

Ég er búin að sjá aðalkeppnina auglýsta svo þetta er í lagi.
Það er komið að lokum þessarar Cordoba-dvalar að sinni og ég er í tárum að kveðja vini mína, aðallega þjónana á kaffihúsunum.

Það hafa verið teiknaðar margar flugvélar á servéttur undanfarið, pílur og allskonar útskýringar, en þeir vilja ekkert skilja. No, no, senjora, segja þeir og krota yfir flugvélarnar sem ég vanda mig svo við að teikna.


Í fyrrinótt vaknaði ég upp við hroðalegan verk í mjöðminni og datt strax í hug að nýrað í mér væri sprungið. Nú er ég farin að hallast að taug í klemmu en þetta háir mér verulega.

Ég fer daglega með fimmtán til tuttugu fötur af vatni í Súpermann-laugina á þakinu (Súpermann er orðinn gulur og blár, hann er svo upplitaður) og svo labba ég allt sem ég þarf að fara.

Í gær átti ég erfitt með allt þetta vegna mjaðmarverks. Ég þori ekki inn á doktor.is, þá finn ég örugglega að þetta er stórhættulegt-bráða-eitthvað.
En ég er soldið hnuggin að vera að kveðja. Ég var held ég ekki búin að segja ykkur að innifalið í leigunni er hreingerning á herberginu, rúmfataskipti og fötin af mér eru þvegin. Svo fæ ég þau straujuð til baka. Nú er ég búin að ganga í straujuðum nærbuxum í tvo mánuði.

Úff, þetta verða viðbrigði.


Það er enn ein hátíðin að hefjast hér og þessi er sýnu mest. Þeir eru búnir að byggja eftirlíkingu af Cordoba hinum megin við ána og þar verður látlaust fjör frá 24. -31. maí.

Ég fer til Englands 24. og svo til Helvítis í Noregi 12. júní. Jú, þetta er nafnið á bænum, eða Hell öllu heldur. En ég næ þremur dögum í hátíðahöldum og svo kem ég bara aftur í haust...


laugardagur, 17. maí 2008

Norðmenn koma sterkir inn



17. maí.


Það er við hæfi á þjóðhátíðardegi Norðmanna að mæra þá örlítið.

Þegar ég skildi við ykkur síðast vorum við Halla á leið til Antonios, sem hugðist sýna okkur hvernig Spánverjar heilla konur.


Nú kemur smá aukasaga, en málið er að ég er með hið svokallaða "karlakórsheilkenni". Það lýsir sér þannig að í hvert skipti sem þrír eða fleiri karlakórsmenn hefja upp raust sína er ekki hægt að þoka mér af flekknum.


Nú vill svo einkennilega til þegar við erum í heimsókn á hótelinu hans Antonios að norskur karlakór sest í sófasettið og hefur að æfa norska ættjarðarsöngva og sálma.

Ég var samstundis heillum horfin.
Eigum við ekki að fara að koma? spurði Antonio.

Jú, bráðum, sagði ég. Finnst þér þetta ekki guðdómlegt?

Grunt, sagði Antonio.

Hálftíma seinna: Hvað um að fara núna? spyr Antonio.

Jú, jú segi ég.


Þegar karlarnir hætta að syngja fer ég og spjalla við þá og verð að segja að í ofanálag við geðveikar raddir voru þeir ferlega sætir. Já, ég hef sennilega aldrei séð jafn marga flotta Norðmenn í einu.


Finnst þér norrænir víkingar með tagl flottir? spyr Antonio.

Ég hef aldrei verið hrifin af karlmönnum með tagl, en segi samt já.

Til að teygja ekki lopann frekar með þetta þá áttum við svo prýðistíma með Antonio sem fékk koss á kinnina í lokin eins og til stóð.


Halla vinkona er farin heim en skildi mig eftir með flensu svo ég lá undir laki með bleikar töflur innan seilingar. Ég hef reyndar aldrei á ævinni séð janf bleikar töflur. Pilar sagði að þetta væru mildar höfuðverkjatöflur en mér fannst þær minna grunsamlega á getnaðarvarnarpilluna sem ég át fyrir ótrúlega margt löngu. Hvað sem því líður er ég nú loksins upprisin.


Örfá orð um heimferð Höllu:

Við höfðum beðið Pilar að panta bíl klukkan átta að morgni. Þegar við komun niður voru allir í fasta svefni og enginn bíll. Við biðum nokkra stund en þokuðum okkur svo út á veg til að húkka bíl. Það gekk eftir þrjú korter svo við vorum allt of seinar á járnbrautarstöðina.


Þegar Halla kom á flugvöllinn í Sevilla var flugvélin ekki farin en búið að loka. Hún fékk svo far með einhverju flugfélagi til Barcelona og þaðan til Stanstead þar sem hún átti að ná vélinni heim. Það var hins vegar tómur misskilningur, hún kom ekki á Stanstead fyrr en löngu eftir að vélin var farin og þurfti að hanga á flugvellinum til morguns.


Aumingja Halla. Hún er ekki ferðavön og var að fara á límingunum. Þið getið svo rétt ímyndað ykkur hvað þetta hefur kostað.


Nú ætti lífið að vera komið í fastar skorður, í kvöld nær patio-hátíðin hámarki svo það verður flamengo fyrir frúna.

Ég gæti samt alveg eins hugsað mér norskan karlakór, en það rætist kannski þegar ég fer á ráðstefnu í Hell í Noregi nú í júní:)



laugardagur, 10. maí 2008

Gestur að heiman

10. maí.

Ég ímynda mér að fólk sé að ganga af göflunum af vonbrigðum yfir engu lífsmarki hér á þessu bloggi.

Ástæðan er sú að ég fékk heimsókn að heiman, Halla vinkona er hjá mér í fimm daga, og ég hef verið svona roslega upptekin að kynna hana fyrir öllum (fjórum) vinum mínum á Spáni og sýna henni dásemdir borgarinnar.

Það er enn hátíð, nú dansa þeir flamengo á "patio-unum" á hverju kvöldi og syngja svo tregafullt að hjartað í mér er að springa úr harmi með þeim í hvert eitt sinn.

Veðrið er búið að vera alveg glatað, en ég geri það af hreinni tillitssemi við vinkonu mína "hke" að birta ekki fleiri lekamyndir. Það hrundi samt úr loftinu sem aldrei fyrr og míglak.
Nú erum við Halla á leið í helgarferð, Antonio (sem fékk ekki heldur náð fyrir augum "hke") bíður með öndina í hálsinum eftir að fá að sýna okkur sínar heimaslóðir. Er nokkuð siðlaust að nýta sér þessa ofurást Spánverjans og kyssa hann svo á kinnina í lokin?

Þegar þessu er lokið er ég ein á ný og mun fara hamförum hér á þessari síðu sem fyrr.
Þ.e. ef ég verð ekki rúmliggjandi, veðurfarið hér hefur farið þannig með mig að ég berst hatrammri baráttu við kvefbakteríurnar, sem mér sýndist í gær að ætluðu að hafa vinninginn.
Ástarkveðjur heim:)

sunnudagur, 4. maí 2008

Af Bondstúlku og kyntröllum




Í gær þegar ég var búin í sturtunni, búin að maka á mig kremi og var að æfa flamengo-hreyfingarnar við undirleik Presleys sá ég mér allt í einu bregða fyrir í svalaglugganum.
Ég gat ekki varist þeirri tilhugsun að ég minnti soldið á Bond-stúlku, þið munið þessar sem dansa í sílhúettu í byrjun myndanna.
Mig langaði bara svona að deila þessu með ykkur.
Ég klæddi mig upp í gær og sló í gegn. Ég fór í hvítan, útsaumaðan kyrtil, setti upp svarta derhúfu sem ég hafði keypt fyrir nokkrum dögum og er með demöntum framaná (kostaði 3 evrur) setti á mig svarta úrið sem er líka skreytt demöntum (5 evrur) og notaði litla svarta veskið sem ég keypti fyrir einhverja árshátíðina (með gylltri sylgju, smá stílbrot).
Við þetta fór ég svo í uppreimuðu, svörtu hermannastígvélin.
Ég vakti gríðarlega athygli og get sagt ykkur að ég dansaði senjóríturnar algjörlega undir borð. Þær hafa fitnað soldið senjóríturnar á Spáni, það á við í öllum aldursflokkum og maður sér þær varla öðruvísi en maulandi kartöfluflögur.


Og svo stelpur mínar heimtið þið sannanir og ekkert nema sannanir.
Ég sýni ykkur tvö tóndæmi úr Töfraflautunni.


Sá yngri, Jose, færir mér fyrsta almennilega kaffibollann á hverjum degi. Þó ekki í rúmið. Hann er Tamino, ungur og ákafur og gríðarlegur sjarmur.

Hinn er Miguel, listamaður og veitingahúsaeigandi, nýlega sextugur og algjört kyntröll. Hann er Zarastro, djúpur og þroskaður og unaðslegur daðrari.
Honum ætla ég að giftast fljótlega, kannski bara á næsta ári:)




laugardagur, 3. maí 2008

Ófétið í hraðbankanum - og hinir óbærilega kynþokkafullu







Eftir að ítalska mafían fór að vasast í fjármálunum mínm var kortinu mínu lokað og ég sendi það heim þar sem málið var skoðað í þaula.



Í gær fékk ég svo sent nýtt og skínandi kort með nýju leyninúmeri og allt. Fór svo með kortið í hraðbanka og vandaði vel valið. Einhverjar vöbblur voru greinilega í gangi - og svo fékk ég meldingu: Bankinn hefur fengið skilaboð um að taka kortið í sína vörslu.
Svo át bankinn kortið.
Ég heyrði greinilega hlegið dimmum karlarómi og gott ef ég þekkti ekki rödd Pálma Gests sem sennilega hefur verið þarna maðurinn bak við tjöldin.
Ef ekki væri fyrir rómað jafnaðargeð veit ég ekki hvað ég hefði gert. Einhverjir hefðu að minnsta kosti fengið hysteríukast og stappað niður fótunum.
En ég ætla ekki að dvelja við þetta, enda ekkert hægt að gera í bili.
Ég ætla hins vegar að segja ykkur hvað gerðist þegar ég fór út með ruslið um kvöldmatarleytið í fyrradag.
Ruslagámarnir eru á götunni sem liggur gegnum allan gamla bæinn og heitir San Fernando. Ég kom hlaupandi ég segi ekki á sloppnum en á nærbuxunum í náttbolnum, sem reyndar nær niður á mið læri.
Sem ég kem hlaupandi lendi ég í skyndilegri hálku og dett á rassgatið og næstum undir hestinn sem stóð frýsandi á horninu. Þegar ég leit í kringum mig sá ég að gatan var að fyllast af fólki og hestum.
Skíthrædd um að ég væri að missa af einhverju hljóp ég heim og sótti myndavélina en skeytti ekki um að skipta um föt, heldur hljóp út aftur í náttbol með hestaskít upp á bak.
Ég hafð ekki hugmynd um hvað var í gangi en þökk sé hestaskítnum var alltaf pláss fyrir mig í mannfjöldanum svo ég hafði alltaf fínt útsýni.
Við kirkjuna stóðu safnaðarbörn með einhverskonar sprota, gyllta eða silfraða, og stór merki. Alltaf fjölgaði fólkinu og svo hófst skrúðgangan einhverstaðar efst í götunni. Fyrsti komu reiðmennirnir, svo óhugnanlega kynþokkafullir að maður varð að standa með krosslagðar lappir, svo kom hljómsveit og svo undursamlega skreyttur vagn sem var stöðvaður við kirkjuna.
Þar upphófst söngur svo fallegur að ég fékk tár í augun og senjóríturnar dönsuðu og Cordobamennirnir tóku ofan svo þetta varð allt ein allsherjar extasía.
Skrúðgangan hélt svo áfram og síðastir komu bændurnir á traktorunum með fjölskylduna í vögnum aftaní.
Say no more.


















fimmtudagur, 1. maí 2008

Kristur á krossinum og kóksalanum og...







1. maí.



Ég heyrði engan "nalla" í dag nema þennan sem ég söng sjálf áðan þegar ég var að vaska upp í klósettvaskinum. Maður verður að minna sig á að lífið er saltfiskur en ekki bara flamengo og tóm gleði.

Nú stendur yfir hin æsispennandi krossakeppni í Cordoba, sem felst í því að sóknarbörnin í kirkjunum skreyta kross með blómum, koma fyrir sölutjöldum og svo er partý. Það er sum sé sungið, dansað, stappað og spilað við krossinn.

Keppnin hófst í gær með miklum undirbúningi við krossana og við Alfonso fórum í fimmtán partý til að fylgjast með.

Sölutjöldin voru allstaðar komin upp og menn voru að hengja upp myndir af Jesú á krossinum og mömmu Maríu, hinum og þessum dýrlingum og bara allri stórfamilíunni hið efra. Á myndirnar límdu þeir svo bjór- og sangríuverðið.

Það er ekki hægt annað en elska þetta fólk.

Allir vildu bjóða upp á sangríu en ég legg ekki í að útskýra fyrir góðglöðum sóknarnefndarmönnum á Spáni af hverju ég get ekki þegið þann görótta drykk. Alfonso segir þeim þess vegna að ég sé með ofnæmi fyrir alkóhóli.

Þeir fá næstum tár í augun af samúð, að ég skuli vera með svona óbærilega vont ofnæmi, og gefa mér blóm og gosdrykk í sárabætur.

Partýin við krossana standa í þrjá daga og á morgun verður fallegasti krossinn valinn. Þeir eru reyndar eiginlega allir eins svo sennilega skipir stuðið máli við valið.

Á aðaltorginu er stórt svið þar sem er dagskrá öll kvöld og svo fer maður úr einu krossapartýi í annað.

Ef ég er ekki að vinna byrja ég daginn á að fá mér nokkrar dýfur í Spiderman-lauginni á þakinu Ég var einmitt á þakinu þegar Alfonson hringdi í hádeginu.

Ætlarðu ekki að koma í partý? spurði hann.


Jú, hvar?


Þar sem við vorum í gær.

Við vorum í fimmtán partýjum í gær.


Þar sem þú fékkst blómin ....(ég fékk allstaðar blóm) ...beygðu hjá veitingastaðnun þar sem þér finnst salatið svo gott .....(ég elska salatið á að minnsta kosti sex veitingastöðum) og bla bla bla.

Ég kem sagði ég.

Ég labbaði í sex klukkutíma en fann ekki Alfonso. Ég fann samt öll hin fjórtán partýin og skemmti mér konunglega.

Í kvöld ætlum við aftur af stað.

Á morgun er ég svo boðin í lokað partý (mjög lokað partý) þar sem allir fremstu vínbændur Andalúsíu kynna vínin sín og svo eru bestu vínin valin. Það verða örugglega mörg staup hrist mjúklega upp í ljósið, mikið hummað og skyrpt, og Alfonso verður við hliðina á mér til að útskýra ofnæmið.
Ég ætlaði að setja inn fullt af krossa- og partýmyndum, en tengingin mín ræður ekki við myndirnar.