laugardagur, 10. maí 2008

Gestur að heiman

10. maí.

Ég ímynda mér að fólk sé að ganga af göflunum af vonbrigðum yfir engu lífsmarki hér á þessu bloggi.

Ástæðan er sú að ég fékk heimsókn að heiman, Halla vinkona er hjá mér í fimm daga, og ég hef verið svona roslega upptekin að kynna hana fyrir öllum (fjórum) vinum mínum á Spáni og sýna henni dásemdir borgarinnar.

Það er enn hátíð, nú dansa þeir flamengo á "patio-unum" á hverju kvöldi og syngja svo tregafullt að hjartað í mér er að springa úr harmi með þeim í hvert eitt sinn.

Veðrið er búið að vera alveg glatað, en ég geri það af hreinni tillitssemi við vinkonu mína "hke" að birta ekki fleiri lekamyndir. Það hrundi samt úr loftinu sem aldrei fyrr og míglak.
Nú erum við Halla á leið í helgarferð, Antonio (sem fékk ekki heldur náð fyrir augum "hke") bíður með öndina í hálsinum eftir að fá að sýna okkur sínar heimaslóðir. Er nokkuð siðlaust að nýta sér þessa ofurást Spánverjans og kyssa hann svo á kinnina í lokin?

Þegar þessu er lokið er ég ein á ný og mun fara hamförum hér á þessari síðu sem fyrr.
Þ.e. ef ég verð ekki rúmliggjandi, veðurfarið hér hefur farið þannig með mig að ég berst hatrammri baráttu við kvefbakteríurnar, sem mér sýndist í gær að ætluðu að hafa vinninginn.
Ástarkveðjur heim:)

1 ummæli:

  1. Elsku Edda. Miðað við hversu stutt þú hefur dvalið í útlöndunum óttast ég mjög um ræktarsemi þína gagnvart vinum þínum heima á Fróni! Ég á þrjá vini í útlöndum sem halda að það sé nóg að þeir bloggi og svo svari allir vinir þeirra prívat og persónulega. Þannig gekk þetta - í nokkrar vikur. Nú nennir enginn einu sinni að kommenta á bloggin þeirra, hvað þá að senda persónulegan netpóst. Þú verður að taka þig á. Lífið er ekki bara sól, sæla og mígandi rigning á Spáni elskan mín! Fyrrum svaladrottning #2

    SvaraEyða