föstudagur, 23. maí 2008

Þetta er alveg týpískur...


... júróvisjónís.

Það voru því mikil vonbrigði að Spánverjar sýndu ekki frá undanúrslitunum í gær og ég tilbúin með ís og hnetur og hlakkaði þessi ósköp til. Er nefnilega júróvisjónfan númer tvö, næst á eftir PÓH.


Ég held að ritstjóranum mínum þyki þetta mikill ljóður á mér, að minnsta kosti sagði hann það fyrir neðan sína virðingu að gefa mér upp hvenær sýnt yrði frá keppninni:) Hann gerði það samt þessi elska.

Hér í Cordoba vissi náttlega enginn neitt, þeir höfðu bara ekkert heyrt af þessari keppni, en svo fann ég stöð sem sýndi frá fyrri undanúrslitunum.

Og auðvitað voru þeir að skrökva, vegna þess að kvöldið eftir var þáttur sem ég skildi reyndar ekki almennilega, en þar voru sýnd gömul, spönsk júróvisjónatriði og svo tóku nýir listamenn þau á sviði. Síðan átti að hringja inn og velja besta lagið - held ég.

Ég er búin að sjá aðalkeppnina auglýsta svo þetta er í lagi.
Það er komið að lokum þessarar Cordoba-dvalar að sinni og ég er í tárum að kveðja vini mína, aðallega þjónana á kaffihúsunum.

Það hafa verið teiknaðar margar flugvélar á servéttur undanfarið, pílur og allskonar útskýringar, en þeir vilja ekkert skilja. No, no, senjora, segja þeir og krota yfir flugvélarnar sem ég vanda mig svo við að teikna.


Í fyrrinótt vaknaði ég upp við hroðalegan verk í mjöðminni og datt strax í hug að nýrað í mér væri sprungið. Nú er ég farin að hallast að taug í klemmu en þetta háir mér verulega.

Ég fer daglega með fimmtán til tuttugu fötur af vatni í Súpermann-laugina á þakinu (Súpermann er orðinn gulur og blár, hann er svo upplitaður) og svo labba ég allt sem ég þarf að fara.

Í gær átti ég erfitt með allt þetta vegna mjaðmarverks. Ég þori ekki inn á doktor.is, þá finn ég örugglega að þetta er stórhættulegt-bráða-eitthvað.
En ég er soldið hnuggin að vera að kveðja. Ég var held ég ekki búin að segja ykkur að innifalið í leigunni er hreingerning á herberginu, rúmfataskipti og fötin af mér eru þvegin. Svo fæ ég þau straujuð til baka. Nú er ég búin að ganga í straujuðum nærbuxum í tvo mánuði.

Úff, þetta verða viðbrigði.


Það er enn ein hátíðin að hefjast hér og þessi er sýnu mest. Þeir eru búnir að byggja eftirlíkingu af Cordoba hinum megin við ána og þar verður látlaust fjör frá 24. -31. maí.

Ég fer til Englands 24. og svo til Helvítis í Noregi 12. júní. Jú, þetta er nafnið á bænum, eða Hell öllu heldur. En ég næ þremur dögum í hátíðahöldum og svo kem ég bara aftur í haust...


2 ummæli:

 1. Ég sem hélt að þú hefðir kosið okkur í úrslitin, það hlýtur þá að hafa verið Anna Lilja...

  Góða ferð til fallegustu fjölskyldu í heimi og góða skemmtun í Helvíti. Er ekki alltaf mesta stuðið þar ?

  Knúsiknús
  Halla.

  SvaraEyða
 2. Ha? Er hægt að strauja g-streng, án þess að hann bráðni? xxx

  SvaraEyða