fimmtudagur, 1. maí 2008

Kristur á krossinum og kóksalanum og...







1. maí.



Ég heyrði engan "nalla" í dag nema þennan sem ég söng sjálf áðan þegar ég var að vaska upp í klósettvaskinum. Maður verður að minna sig á að lífið er saltfiskur en ekki bara flamengo og tóm gleði.

Nú stendur yfir hin æsispennandi krossakeppni í Cordoba, sem felst í því að sóknarbörnin í kirkjunum skreyta kross með blómum, koma fyrir sölutjöldum og svo er partý. Það er sum sé sungið, dansað, stappað og spilað við krossinn.

Keppnin hófst í gær með miklum undirbúningi við krossana og við Alfonso fórum í fimmtán partý til að fylgjast með.

Sölutjöldin voru allstaðar komin upp og menn voru að hengja upp myndir af Jesú á krossinum og mömmu Maríu, hinum og þessum dýrlingum og bara allri stórfamilíunni hið efra. Á myndirnar límdu þeir svo bjór- og sangríuverðið.

Það er ekki hægt annað en elska þetta fólk.

Allir vildu bjóða upp á sangríu en ég legg ekki í að útskýra fyrir góðglöðum sóknarnefndarmönnum á Spáni af hverju ég get ekki þegið þann görótta drykk. Alfonso segir þeim þess vegna að ég sé með ofnæmi fyrir alkóhóli.

Þeir fá næstum tár í augun af samúð, að ég skuli vera með svona óbærilega vont ofnæmi, og gefa mér blóm og gosdrykk í sárabætur.

Partýin við krossana standa í þrjá daga og á morgun verður fallegasti krossinn valinn. Þeir eru reyndar eiginlega allir eins svo sennilega skipir stuðið máli við valið.

Á aðaltorginu er stórt svið þar sem er dagskrá öll kvöld og svo fer maður úr einu krossapartýi í annað.

Ef ég er ekki að vinna byrja ég daginn á að fá mér nokkrar dýfur í Spiderman-lauginni á þakinu Ég var einmitt á þakinu þegar Alfonson hringdi í hádeginu.

Ætlarðu ekki að koma í partý? spurði hann.


Jú, hvar?


Þar sem við vorum í gær.

Við vorum í fimmtán partýjum í gær.


Þar sem þú fékkst blómin ....(ég fékk allstaðar blóm) ...beygðu hjá veitingastaðnun þar sem þér finnst salatið svo gott .....(ég elska salatið á að minnsta kosti sex veitingastöðum) og bla bla bla.

Ég kem sagði ég.

Ég labbaði í sex klukkutíma en fann ekki Alfonso. Ég fann samt öll hin fjórtán partýin og skemmti mér konunglega.

Í kvöld ætlum við aftur af stað.

Á morgun er ég svo boðin í lokað partý (mjög lokað partý) þar sem allir fremstu vínbændur Andalúsíu kynna vínin sín og svo eru bestu vínin valin. Það verða örugglega mörg staup hrist mjúklega upp í ljósið, mikið hummað og skyrpt, og Alfonso verður við hliðina á mér til að útskýra ofnæmið.
Ég ætlaði að setja inn fullt af krossa- og partýmyndum, en tengingin mín ræður ekki við myndirnar.





2 ummæli:

  1. Vá, þetta hljómar ekkert smá æðislegt!!! Ekta stemmning!

    SvaraEyða
  2. Veistu ég myndi aldrei koma aftur hingað nema þá í heimsókn,það getur vel verið að þetta sé mjög einfalt líf þ.e.vaska upp í klósettvaskinum o.sv.frv.en það er ekki það versta sem getur komið fyrir nokkurn og ástandið hér er ekki eitthvað sem ég myndi flýta mér aftur í,sjálf myndi ég fara á heitari slóðir mig hefur alltaf dreymt um Ítalíu,ef maður hefur möguleika á netsambandi og farsíma þá er hægt að búa langt í burt frá geðveikinni hér!Vildi ég væri þarna hverjum er ekki sama þó rigni annað slagið þótt það rigni inn hjá manni það hefur oft gerst hjá mér í þessum vel byggðu húsum á okkar Farsældar Fróni (ha ha).kveðja

    SvaraEyða