laugardagur, 17. maí 2008

Norðmenn koma sterkir inn



17. maí.


Það er við hæfi á þjóðhátíðardegi Norðmanna að mæra þá örlítið.

Þegar ég skildi við ykkur síðast vorum við Halla á leið til Antonios, sem hugðist sýna okkur hvernig Spánverjar heilla konur.


Nú kemur smá aukasaga, en málið er að ég er með hið svokallaða "karlakórsheilkenni". Það lýsir sér þannig að í hvert skipti sem þrír eða fleiri karlakórsmenn hefja upp raust sína er ekki hægt að þoka mér af flekknum.


Nú vill svo einkennilega til þegar við erum í heimsókn á hótelinu hans Antonios að norskur karlakór sest í sófasettið og hefur að æfa norska ættjarðarsöngva og sálma.

Ég var samstundis heillum horfin.
Eigum við ekki að fara að koma? spurði Antonio.

Jú, bráðum, sagði ég. Finnst þér þetta ekki guðdómlegt?

Grunt, sagði Antonio.

Hálftíma seinna: Hvað um að fara núna? spyr Antonio.

Jú, jú segi ég.


Þegar karlarnir hætta að syngja fer ég og spjalla við þá og verð að segja að í ofanálag við geðveikar raddir voru þeir ferlega sætir. Já, ég hef sennilega aldrei séð jafn marga flotta Norðmenn í einu.


Finnst þér norrænir víkingar með tagl flottir? spyr Antonio.

Ég hef aldrei verið hrifin af karlmönnum með tagl, en segi samt já.

Til að teygja ekki lopann frekar með þetta þá áttum við svo prýðistíma með Antonio sem fékk koss á kinnina í lokin eins og til stóð.


Halla vinkona er farin heim en skildi mig eftir með flensu svo ég lá undir laki með bleikar töflur innan seilingar. Ég hef reyndar aldrei á ævinni séð janf bleikar töflur. Pilar sagði að þetta væru mildar höfuðverkjatöflur en mér fannst þær minna grunsamlega á getnaðarvarnarpilluna sem ég át fyrir ótrúlega margt löngu. Hvað sem því líður er ég nú loksins upprisin.


Örfá orð um heimferð Höllu:

Við höfðum beðið Pilar að panta bíl klukkan átta að morgni. Þegar við komun niður voru allir í fasta svefni og enginn bíll. Við biðum nokkra stund en þokuðum okkur svo út á veg til að húkka bíl. Það gekk eftir þrjú korter svo við vorum allt of seinar á járnbrautarstöðina.


Þegar Halla kom á flugvöllinn í Sevilla var flugvélin ekki farin en búið að loka. Hún fékk svo far með einhverju flugfélagi til Barcelona og þaðan til Stanstead þar sem hún átti að ná vélinni heim. Það var hins vegar tómur misskilningur, hún kom ekki á Stanstead fyrr en löngu eftir að vélin var farin og þurfti að hanga á flugvellinum til morguns.


Aumingja Halla. Hún er ekki ferðavön og var að fara á límingunum. Þið getið svo rétt ímyndað ykkur hvað þetta hefur kostað.


Nú ætti lífið að vera komið í fastar skorður, í kvöld nær patio-hátíðin hámarki svo það verður flamengo fyrir frúna.

Ég gæti samt alveg eins hugsað mér norskan karlakór, en það rætist kannski þegar ég fer á ráðstefnu í Hell í Noregi nú í júní:)



6 ummæli:

  1. Mikið óskaplega hef ég gaman af því að lesa frá lífinu á Spáni... :-)

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir það, kæri Jón, ég hef líka gaman af að skrifa um lífið á Spáni. Funheitar Spánarkveðjur til þín:)

    SvaraEyða
  3. Ég sat einu sinni við hliðina á óhugnanlega fallegum karlmanni í flugvél. Sá reyndist vera norskur læknir. Ég var fljót að fara að ræða veikindi og ýmis konar einkenni við hann. Hann gaf mér nafnspjaldið sitt og bað mig að hringja í sig. Þegar ég hafði loks kjark til þess var ég búin að týna nafnspjaldinu og þar með Norðmanninum. Eins og við hefðum getað orðið hamingjusöm. Svaladrottning #2.

    SvaraEyða
  4. Mér finnst ekkert skrýtið að þú hafir ekki bifast á meðan karlakórinn var að syngja - þó þeir hafi verið með tagl!
    Gleymdi samt alltaf að segja þér að hún Esmeralda birtist um daginn og bað að heilsa þér en hefur síðan flust í burtu með vef og öllu saman.
    Sagði ekki einu sinni bless.
    En loðnu lirfurnar eru samt byrjaðar að fylkja liði fyrir utan og geta ekki beðið eftir að sjá þig eftir nokkra daga.

    - Og ekki ég heldur!

    SvaraEyða
  5. Kæra svaladrottning. Ef maður hefði ekki trassast svona með öll nafnspjöldin sín um dagana væri maður pottþétt ólýsanlega vel giftur og happy.
    Og ef þú værir læknisfrú í Noregi myndi ég heimsækja þig í næsta mánuði:)
    Og elsku Anna Lilja. Ég hlakka líka alveg rosalega til að sjá ykkur, lirfur eða ekki lirfur:)

    SvaraEyða
  6. Já Edda mín, ef maður hefði nú geymt öll nafnspjöldin væri maður líka ábyggilega búin(n) að vera giftur og skilinn að minnsta kosti þrisvar. Hvað er Antonio aftur gamall? Er hann nokkuð dökkhærður með brún augu? Þá hitti ég hann á diskóteki á Mallorca árið 1973!
    knús frá Svaladrottningu #2

    SvaraEyða