mánudagur, 18. ágúst 2008

Þegar atburðarásin tekur völdin











Ég komst aldrei í nettenginu á Skagaströnd, sem var kannski jafn gott.
Stundum gerist eitthvað ófyrirsjáanlegt í lífi manns sem setur allt úr skorðum og jafnvel þó maður vilji snúa atburðarásinni við heldur hún áfram að vinda upp á sig. Til hins verra.
Kem að því aftur síðar, en burtséð frá því héldu Skagstrendingar glimrandi kántrýhátíð.
Á föstudagskvöldið var ég stödd í kaffihúsinu Bjarmanesi þar sem Sigríður Klingenberg spákona var með óborganlega uppákomu.
Umsjónarkona kaffihússins, Steinunn Ósk, hefur unnið þar þrekvirki í sumar og eins og allt sem hún kemur nálægt eru veitingarnar ómótstæðilegar og húsið endalaust kósý, meðal annars skreytt listaverkum eftir Steinunni sjálfa.
Sigríður fór náttúrlega á kústum, nei, ég meina kostum, og viðstaddir grétu úr hlátri.
Í beinu framhaldi af þessu var fjölmennt á ball í Kántrýbæ og stuðið í algleymingi.
Skagstrendingar voru búnir að skreyta bæinn hátt og lágt, dagskráin var við allra hæfi og það var ekki leiðinlegt að sitja út undir húsvegg með KK, Leo Gillispie og vinum þeirra og upplifa ekta jamsessjón.
Á laugardagsmorgninum varð þó viðsnúningur hjá mér persónulega, lítið atvik gerði mig reiða, og því meir sem ég barðist gegn reiðinni því verri varð hún.
Ég yfirgaf Skagaströnd eftir frábæra tónlistaruppákomu Gunnars Jóhannssonar skipstjóra og lagði leið mína á Blönduós.
Þar á ég vísa lokrekkju á Vesturbakkanum og svaf þar um nóttina.
Köttur með ekkert nafn var gestkomandi í húsinu og eftir að hafa spígsporað lengi nætur við rekkjuna ákvað hann að halda hinum arga gesti selskap, stökk upp í rúmið og tók öllum mínum klögumálum með stóískri kattaró, sleikti burtu tárin með hrjúfri tungunni og malaði án afláts.
Hafi hann endalaust þökk fyrir.

Á leiðinni í bæinn hlustaði ég á disk með karlakórnum Lóuþrælum og kvennakórnum Sandlóum og þrátt fyrir yndislegan texta við lag Sarastros úr Töfraflautu Mozarts tókst mér ekki að vinna bug á reiðinni.
Reiði er erfið tilfinning en svo sem hvorki rétt eða röng. Hún bara er.
Textinn fjallar um kærleikann og þar segir:
"Leggur hann ei á aðrar skyldur
umber hann hroka, svik og tildur.
Leitar hins hrjáða, huggar þann smáða,
sefar hvern þjóst í þeli hans.
Þannig er máttur kærleikans."
Enn hefur textinn og undurfagurt lagið ekki náð að sefa þjóstinn í þeli mínu, en ég reikna með að það gerist fyrr en seinna.
Dagurinn á Blönduósi var bæðevei frábær.
Set inn nokkrar myndir af vel heppnaðri kántrýhátíð. Ég segi vel heppnaðri því geðvonskukast undirritaðrar hafði að sjálfsögðu ekki nokkur áhrif á gang mála á hátíðinni.




















Engin ummæli:

Skrifa ummæli