miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Þarf elskhugaleyfi?




Það eru engar ýkjur að litla sambýlið á Nesinu, sem með sanni má kalla kærleiksheimilið, er með ólíkindum ljúft. Við búum hér í góðu yfirlæti ég, Danni og Donald, en nú er komið að því að Donald yfirgefi hreiðrið og haldi til náms í Lundi.


Sem þýðir að herbergið hans er laust.


Ingibjörg leigusali, sem er sjarmur af guðs náð, ætlar að sjálfsögðu að leigja herbergið út aftur og í vikunni kom hún með óguðlega fagran kandidat af karlkyni til að skoða aðstæður.
Okkur Danna var að sjálfsögðu teflt fram sem helsta aðdráttaraflinu, því þó heimilið sé fallegt er lítið varið í það ef heimilisfólkið er óalandi og óferjandi.
Við fórum létt með að sýna okkar bestu hliðar, fórum með gamanmál og vorum í alla staði ómótstæðileg eins og okkur er svo lagið.


Það varð líka fljótlega ljóst að "nýi leigjandinn" var fyr og flamme að fá herbergið og eftir því sem ég best veit flytur hann inn um mánaðamótin.
Í svona sambýli gilda auðvitað húsreglur og það barst í tal hvort leyfilegt væri að hafa hjá sér kærasta/kærustu yfir nótt.
Danni á rosalega sæta kærustu, en ég ætla ekkert að gefa það upp hér hvort hún hefur kúrt undir sænginni hans nótt og nótt.

Sjálf hef ég komið mér upp vikulegum eftirmiðdagselskhuga og enn fást engar upplýsingar um hvernig það fyrirkomulag hefur lukkast í sambýlinu.
Nú veit ég ekki hvort nýi leigjandinn á kærustu en mér kæmi það ekki á óvart jafn sjarmerandi og hann er.
Auðvitað vona ég hálfpartinn að hann eigi enga.

En Ingibjörg upplýsti okkur um að hjásofelsi í húsnæðinu væri með öllu bannað.
Herbergin væru einstaklingsherbergi og það þýðir einfaldlega einn einstaklingur í hverju herbergi.
Við mölduðum smá í móinn og spurðum hvort það væri ekki bara okkar á milli hvort einhverjir blunduðu hér af og til en hún var ósveigjanleg með það að reglur væru reglur.
Nú er lítið plott í gangi, við Danni ætlum nefnilega að halda partý um helgina (sem er líka bannað) og Ingibjörg verður heiðursgestur.

Partýið er þó hugsað sem kveðjupartý fyrir Donald, sem er líka sérlega lymskulegt þar sem hann er að vinna umrætt partýkvöld, er nákvæmlega ekkert fyrir partý, reykir hvorki né drekkur og býst við að leggja sitt þreytta höfuð á koddann um leið og hann kemur heim úr vinnunni.
Hann heyrir bara með öðru eyranu og ætlar að liggja fast á því.

Við munum hinsvegar reifa þessi mál við Ingibjörgu þegar líður á kvöldið og reyna að fá einhverskonar grænt ljós.
Hún mun þá væntanlega ákveða hversu oft væri ásættanlegt og hugsanlega setja einhver hávaðamörk.
Þetta getur nefnilega verið stórmál.

Hvað ef til dæmis nýi leigjandinn og ég næðum rosa góðu sambandi eitthvert kvöldið og ákvæðum að færa það yfir á æðra plan? Þyrftum við þá að hringja í Ingibjörgu og biðja um leyfi?
Þetta er auðvitað ekkert einfalt.

Og þarf ég leyfi fyrir eftirmiðdagselskhugann?

Þetta skýrist vonandi allt á föstudagskvöldið svo allir geti átt almennilegan menningardag/nótt:)
Set inn mynd af Donald og Danna, Danni er sá í jakkafötunum.








Engin ummæli:

Skrifa ummæli