laugardagur, 15. desember 2007

Af húsflugum, instant karma og desemberminningum

Ef einhver hefði spurt fyrir nokkrum dögum hvernig hún væri þessa Edda á eyjunni hefði svarið örugglega verið sirka "jú, hún er meinleysis týpa, sem gerir ekki flugu mein". En ekki lengur.

Ég þurfti að fara í smá rannsókn um daginn og ákvað að gera soldið jólalegt svo ég gæti látið fara vel um mig meðan ég væri að jafna mig. Það fór jóladúkur á borðið ásamt kertum af öllum stærðum og gerðum og svo fleygði ég seríum í gluggakisturnar. Löngu hætt að nenna að hengja þær upp.

Þar sem ég lá og las í sófanum fór skyndilega í gang eitthvert suð og allt í einu var húsfluga í stofunni. Hún var fyrst á flögri við lampann en ákvað svo að heilsa upp á mig þar sem ég lá og las. Ég bandaði henni frá nokkrum sinnum en hún kom jafnharðan aftur. Skyndilega missti ég mig, þreif dagblað og sló af öllum kröftum í áttina að flugunni. Það þarf náttúrlega ekki að orðlengja það að borðið fór um k0ll, kertin tókust á loft og vaxið lak á dúka, mottur og parket. Fluguhelv... lá örend í vaxinu.
Það er ekkert jólalegt hjá mér í augnablikinu, vaxið er einhvernveginn út um allt. Svo fékk ég þetta heiftarlega tak í bakið og get helst engan veginn verið. Það er trúlega instant karma útaf flugumorðinu. Hvað eru líka húsflugur að vilja upp á dekk í miðjum desember? Og hvernig nær maður kertavaxi úr mottum og dúkum?

Ég læta þetta samt ekki slá mig út af laginu og held ótrauð áfram í jólafílingnum. Í augnablikinu er það ekki erfitt því Laddi er í þætti í útvarpinu og við það rifjast upp gamlar desemberminningar. Til dæmis þegar Jóla hvað? kom út á sínum tíma. Við vorum tvær vinkonur á gamla Óðali að drekka hvítvín og í hvert skipti sem Skrámur sagði "jóla hvað" öskruðum við af hlátri og skáluðum þannig að fóturinn brotnaði undan glasinu.
Ég dröslaði vinkonu minni heim eftir skemmtunina og mamma hennar fékk áfall þegar hún sá hana. "Við verðum að kalla til lækni," sagði hún.
"Hvað meinarðu?" spurði amman sem bjó á heimilinu. "Sérðu ekki að krakkinn er dauðadrukkinn?"
Byttunni var komið í rúmið en minningin lifir:) Og rétt að geta þess að "krakkinn" var um tvítugt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli