miðvikudagur, 5. desember 2007

Gjaldþrot og nautnasýki

Átti samtal við vinkonu áðan sem er öryrki og búin að vera í mörg ár. Hún hafði ætlað að opna reikning í Landsbankanum en þá kom í ljós að lán á hana hafði verið afskrifað fyrir áratug eða svo og hún því í lífstíðarbanni hjá bankanum.
Hún var að vonum hálfsvekkt yfir þessu og minntist á að sumir eigendur bankanna hefðu orðið gjaldþrota en átt sér viðreisnar von. Það á litli maðurinn á Íslandi hins vegar ekki.

Ég hef sagt það áður og segi enn, ég skil ekki íslenska peningapólitík. Hef alltaf verið rati í fjármálum og aldrei jafn langt frá því að skilja algeng peningahugtök eins og nú. Ég hugsa um það eitt að eiga fyrir greiðsludreifingunni og skrimta á rest.

Ég fæ samt alltaf hland fyrir hjartað þegar því er slegið upp að Ísland sé best í heimi og velmegunin sé hér alla að drepa. Ég held það sé leitun á firrtari þjóð í jafn mikilli afneitun.
Ég nenni bara ekki lengur að láta það pirra mig.
Það kom til tals einhverstaðar þar sem ég var stödd í síðustu viku að ungt fólk á Íslandi eigi sér engar hugsjónir, yppti bara öxlum og segi, hvamar, erkialtilagi.
Ef það er rétt, sem mig grunar, þá er það mikil synd. Ungt fólk ætti að vera útbelgt af hugsjónum og baráttuhug fyrir betri heimi. Það bar líka á góma að þjóðin hefði glatað samúðinni og hæfileikanum til að setja sig í spor náungans. Ég vona að það sé ekki rétt.

Við þessi miðaldra eigum hinsvegar orðið nóg með að rækta eigin garð. Ég er upptekin af börnunum mínum og barnabörnum en finn hvað ég læt mér oft fátt um finnast það sem efst er á baugi hverju sinni.
Ég hef alltaf verið nautnasjúk og ekki lagast það með aldrinum. Stundum er hápunktur vikunnar hjá mér pop og kók og góð spóla. Eða náttúrlega elskhuginn. Ekki má gleyma honum, ef hann er þá til. Kikkið krakkar, kikkið skiptir máli.

Og ég er í fínu jólaskapi og læt ekki auglýsingar sem hamra á "þú verður að eignast" og "þú mátt ekki missa af" trufla mig hið minnsta. Nú gildir að standa keikur og fara inn í aðventuna með bros á vör þrátt fyrir blankheitin . Það má alltaf koma sér í jólafíling á aðventukvöldum sem kosta ekki neitt og hvað gjafir varðar þá kom það í ljós í breskri könnun að fæstir mundu hvað þeir fengu í jólagjöf í fyrra. Þess vegna ætla ég slök inn í jólin.

1 ummæli:

  1. Maður verður nú að fá sér annan Bugatti fyrir jólin. Kostar rúmlega 60 milljónir ...

    SvaraEyða