Verð að segja á þessum dimmasta og stysta degi ársins að þrátt fyrir góðan vilja hefur veðrið undanfarnar vikur náð að lauma sér inn í sálartetrið. Fimm krappar lægðir á viku er bara of mikið fyrir mig.
Verð auðvitað að taka fram að mér gengur allt í haginn, þannig séð, og um síðustu helgi var yngsta barnabarnið skírt í Kristskirkju við yndislega athöfn. Stúlkan fékk nafnið Thelma Rós. Annica litla Ísmey verður svo skírð fyrir áramót, áður en hún fer aftur til síns heima í Englandi. Það má til gamans geta þess að til stóð að skíra Annicu í Reading, í kirkjunni þar sem pabbi hennar var skírður og fermdur. Það er hins vegar ekki þeirra sókn svo presturinn gekkst inn á að gera þetta ef þau mættu með barnið í messu á hverjum sunnudegi í hálft ár.
My arse, sögðu foreldrarnir, þá getum við alveg eins skírt á Íslandi um jólin.
Það er sumsé margt búið að vera ljúft og skemmtilegt í desember, nema hvað ég hef ekki alveg náð að stjórna geðillskunni. Hún brýst meðal annars fram gagnvart sljóum unglingum við afgreiðslu og jafnvel gömlu fólki sem er að tína klinkið sitt í kassadömuna. Þetta afhjúpar auðvitað hvað ég er vond inn við beinið.
Í gær var ég stödd í Netto og ranglaði þar stefnulaust um, var að leita að sykrinum og var ótrúlega heimsk í framan þar sem ég góndi upp í hillurnar. Ég verð alltaf svona í búðum.
Þá var bankað létt á öxlina á mér og gömul kona brosti til mín og spurði hvort ég vissi um rauðkálið.
Nei, ég vissi ekki um það, vissi hún kannski um sykurinn?
Nú æxlaðist það þannig að ég fór að leita að rauðkáli og gamla konan að sykrinum. Þegar ég kom til hennar stuttu seinna með rauðkál bæði í dós og krukku hélt hún á sykurpokanum.
Við spjölluðum smá og hún var svo þakklát mér fyrir hjálpina!? Hún hafði svona bros eins og gamalt fólk hefur stundum, sem lýsir út um sálina og er bæði fullt af visku og þroska.
Það þurfti ekki meira til að koma mér í gott skap.
Og nú er elskhugadagur, það er, ef ég á elskhuga. Við elskhuginn höfum skipst á heilsufarssögum á netinu undanfarið, það er fátt krúttlegra en miðaldra fólk í tilhugalífi. Vonandi höfum við heilsu til að njóta dagsins, drekka kakó með rjóma, borða piparkökur og ....
...ef þetta er ekki allt ímyndun í mér....
fimmtudagur, 20. desember 2007
Saga af rauðkáli, sykri og elskhuga
Ritaði Edda Jóhannsdóttir kl. 10:04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli